Móðgaði móður sína þegar hún mætti í jakkalufsu

Fatastíllinn | 14. september 2022

Móðgaði móður sína þegar hún mætti í jakkalufsu

Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins mætti í þjóðbúningi á þingsetningu Alþingis í gær. Móðir hennar saumaði búninginn en gullið fékk hún í fermingargjöf. Hún segist hafa móðgað móður sína stórlega í fyrra þegar hún notaði þjóðbúninginn ekki á sinni fyrstu þingsetningu. 

Móðgaði móður sína þegar hún mætti í jakkalufsu

Fatastíllinn | 14. september 2022

Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins mætti í þjóðbúningi sem móðir hennar …
Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins mætti í þjóðbúningi sem móðir hennar saumaði á hana þegar hún var 18 ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins mætti í þjóðbúningi á þingsetningu Alþingis í gær. Móðir hennar saumaði búninginn en gullið fékk hún í fermingargjöf. Hún segist hafa móðgað móður sína stórlega í fyrra þegar hún notaði þjóðbúninginn ekki á sinni fyrstu þingsetningu. 

Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins mætti í þjóðbúningi á þingsetningu Alþingis í gær. Móðir hennar saumaði búninginn en gullið fékk hún í fermingargjöf. Hún segist hafa móðgað móður sína stórlega í fyrra þegar hún notaði þjóðbúninginn ekki á sinni fyrstu þingsetningu. 

„Foreldrar mínir settu sér þá reglu að gefa dætrum sínum þjóðbúning í fermingargjöf. Það er að segja allt gullið. Þetta er náttúrulega óhemju vegleg gjöf en ég kunni nú lítið að meta það þegar ég var 14 ára og get í hreinskilni sagt að þegar ég mætti í skólann eftir ferminguna og krakkarnir vildu vita hvað ég hefði fengið í fermingargjöf hálfskammaðist ég mín að nefna upphlutinn enda vissu ekki allir hvað það var,“ segir Guðrún í samtali við Smartland.

„Mamma ákvað síðan að sauma búninginn þegar ég var 18 ára og klæddist ég honum í fyrsta sinn á peysufatadegi í Verzló. Ég notaði hann nú ekki oft og mig grunar að mamma hafi saknað þess að sjá okkur systur ekki oftar í þjóðbúningunum okkar þannig að hún fór að hvetja okkur til að nota búninginn á 17. júní. Og í mörg ár passar mamma upp á það að minna okkur á búninginn fyrir þjóðhátíðardaginn. Ég þarf nú alltaf lengri og lengri aðlögunartíma enda ekki alveg sjálfgefið að passa í eitthvað sem saumað var á mann þegar maður var 18 ára. Þannig þetta verður alltaf meiri og meiri barátta við þyngdarlögmálið,“ segir Guðrún og játar að Ítalíuferð þar sem pasta-og pítsuát hafi verið í hámarki hafi ekki hjálpað henni sérstaklega. 

„Ég er nýkomin heim frá Ítalíu þar sem pasta og pítsufæði er ekki undirbúningur fyrir þennan klæðnað,“ segir hún og hlær. 

Gullið á búninginn kemur úr ólíkum áttum.
Gullið á búninginn kemur úr ólíkum áttum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún segist hafa valdið móður sinni miklum vonbrigðum á sama tíma í fyrra þegar hún mætti í jakkalufsu. 

„Ég móðgaði móður mína sárlega í fyrra við mína fyrstu þingsetningu. Mamma sat spennt fyrir framan sjónvarpið að fylgjast með dóttur sinni setjast í fyrsta sinn á hið háa Alþingi, þá birtist henni á skjánum Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir glæsileg í þjóðbúning en hennar eigin dóttir í einhverri jakkalufsu. Hún var ekki ánægð með mig þann daginn hún mamma og því varð ég að bæta henni þetta upp núna enda er búningur hennar handverk.“

Guðrún segir að gullið á búningnum sé héðan og þaðan og bæði gamalt og nýtt. 

„Skúfhólkurinn er frá móðurömmu minni og nöfnu, myllurnar voru keyptar nýjar sem og borðaparið. Stokkabeltið sem ég bar er einstakt skart og er yfir hundrað ára gamalt og hefur gengið í milli kvenna í ættinni. Armbandið er gamalt frá afasystur minni. Virðing mín og væntumþykja fyrir búningnum mínum hefur aukist mikið í áranna rás og mér þykir afskaplega gaman að skarta búningnum við góð tækifæri. Mér þótti einnig einstakt fyrir nokkrum árum er ég fór á Ólavsvöku í Færeyjum að þá voru bókstaklega allir konur, menn og börn í þjóðbúningum. Það var virkilega skemmtilegt,“ segir Guðrún. 

Hér er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í þjóðbúningi sínum.
Hér er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í þjóðbúningi sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is