Tala látinna vegna jarðskjálftanna sem riðu yfir Tyrkland og Sýrland á mánudag er nú komin yfir 25 þúsund. Lögreglan í Tyrklandi hefur handtekið tólf einstaklinga í tengslum við byggingar sem hafa hrunið.
Tala látinna vegna jarðskjálftanna sem riðu yfir Tyrkland og Sýrland á mánudag er nú komin yfir 25 þúsund. Lögreglan í Tyrklandi hefur handtekið tólf einstaklinga í tengslum við byggingar sem hafa hrunið.
Tala látinna vegna jarðskjálftanna sem riðu yfir Tyrkland og Sýrland á mánudag er nú komin yfir 25 þúsund. Lögreglan í Tyrklandi hefur handtekið tólf einstaklinga í tengslum við byggingar sem hafa hrunið.
Heildarfjöldi látinna í Tyrklandi og Sýrlandi er nú 25.880. Björgunarsveitarmenn björguðu tveggja mánaða gömlu barni og aldraðri konu úr rústunum í dag.
„Er heimurinn þarna?“ spurði hin 70 ára gamla Menekse Tabak þegar hún var dregin upp úr steinsteypunni í borginni Kahramanmaras í suðurhluta Tyrklands.
Í borginni Antakya fannst tveggja mánaða gamalt barn á lífi, 128 klukkustundum eftir skjálftann. Þá voru tveggja ára stúlka og þunguð kona meðal þeirra sem bjargað var, auk fjögurra ára stúlku og föður hennar.
Tyrkneska lögreglan hefur handtekið tólf manns í tengslum við byggingar sem hafa hrunið í héruðunum Gaziantep og Sanliurfa. Meðal þeirra sem voru handteknir eru verktakar, en að minnsta kosti sex þúsund byggingar hafa hrunið eftir skjálftann.
Búist er við að fleiri verði handteknir, en ríkissaksóknari í héraðinu Diyarbakir gaf út handtökuskipanir á hendur 29 manns í dag.
Einn þeirra sem er í haldi var verktaki byggingar í Gaziantep, en hann var handtekinn í Istanbúl. Lögreglan handtók í gær verktaka lúxúsíbúða sem hrundu í Hatay-héraði. Sá var handtekinn á flugvellinum í Istanbúl eftir að hafa reynt að flýja land.
Mikil reiði hefur ríkt meðal borgara í Tyrklandi vegna lélegra gæða bygginga. Að sögn embættismanna í landinu hafa rúmlega tólf þúsund byggingar annað hvort eyðilagst eða orðið fyrir miklum skemmdum vegna skjálftanna.
Að minnsta kosti 870 þúsund manns þurfa á mataraðstoð að halda víðs vegar um Tyrkland og Sýrland. Í Sýrlandi er gert ráð fyrir að rúmlega fimm milljónir manna séu nú heimilislaus.