Ásmundur Friðriksson lýsti í gær yfir áhyggjum sínum vegna ópíóíðafaraldurs hér á landi. 347 einstaklingar séu nú í meðferð við ópíóíðafíkn á Vogi en Sjúkratryggingar Íslands greiði aðeins fyrir 90 manns. Heilbrigðisráðherra sagði eitt dauðsfall vegna fíknisjúkdóma vera einu of mikið. Ríkisstjórnin væri samstíga í því að ná betur utan um stöðu þessara mála.
Ásmundur Friðriksson lýsti í gær yfir áhyggjum sínum vegna ópíóíðafaraldurs hér á landi. 347 einstaklingar séu nú í meðferð við ópíóíðafíkn á Vogi en Sjúkratryggingar Íslands greiði aðeins fyrir 90 manns. Heilbrigðisráðherra sagði eitt dauðsfall vegna fíknisjúkdóma vera einu of mikið. Ríkisstjórnin væri samstíga í því að ná betur utan um stöðu þessara mála.
Ásmundur Friðriksson lýsti í gær yfir áhyggjum sínum vegna ópíóíðafaraldurs hér á landi. 347 einstaklingar séu nú í meðferð við ópíóíðafíkn á Vogi en Sjúkratryggingar Íslands greiði aðeins fyrir 90 manns. Heilbrigðisráðherra sagði eitt dauðsfall vegna fíknisjúkdóma vera einu of mikið. Ríkisstjórnin væri samstíga í því að ná betur utan um stöðu þessara mála.
Sérstök umræða um notkun ópíóíðalyfja fór fram á Alþingi í gær. Málshefjandi var Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og sat heilbrigðisráðherra fyrir svörum við spurningum hans. Þingmenn fengu tækifæri til þess að ræða málaflokkinn og viðra sínar lausnatillögur. Fjölbreyttar skoðanir litu dagsins ljós og lögð var áhersla á fjármagn, forvarnir og skaðaminnkun.
Ásmundur spurði ráðherra meðal annars út í greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands þegar kemur að meðferð við ópíóíðafíkn. Samkvæmt samningi sem hafi verið gerður milli ríkisins og SÍ árið 2014 sé greitt fyrir 90 manns en 347 séu nú í fyrrnefndri meðferð.
„Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að SÍ greiði með fleiri sjúklingum, auki bráðahjálp og bendi á leiðir í frekari meðferðarúrræði?“ spurði Ásmundur.
Þá benti Ásmundur á fjölgun í hópi þeirra sem leggist inn á Vog vegna ópíóíðafíknar. Sagði hann fjöldann hafa aukist um 77 prósent á sama tíma og dregið hafi verið úr innlögnum á Vog og opnunartími verið heftur víða, vegna fjárskorts. Ásmundur velti því upp að á sama tíma sé búist við því að enn fleiri láti lífið vegna misnotkunar ópíóíða og spurði hvernig ráðherra ætlaði sér að tryggja betra aðgengi að meðferðarúrræðum. Einnig bað hann um tölur, séu þær til, frá ráðuneytinu, um þá sem ekki fái aðgang að meðferðarúrræðum á þessu ári.
„Lyfjameðferðir við ópíóíðafíkn með gagnreyndum lyfjum fækka dauðsföllum af öllum orsökum í þessum hópi. Ráðherra hefur nefnt í fjölmiðlum að setja á laggirnar morfínklíník sem skaðaminnkandi úrræði. Í ljósi þess að morfínlyf fela í sér hættu á ofskömmtun, sérstaklega ef þeirra er neytt með því að sprauta í æð eða með reyk, hefur ráðherra íhugað að auka þess í stað aðgengi að skaðaminnkandi lyfjameðferð með gagnreyndum lyfjum sem fækka dauðsföllum og gefin eru á göngudeild Vogs?“ spurði Ásmundur.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagðist ætla að beita sér fyrir því að benda á og finna fleiri meðferðarúrræði fyrir fólk sem þurfi á þeim að halda. Ríkisstjórnin hafi þegar samþykkt fjölmargar tillögur hans í þeim efnum. Hvað varði fjármögnun til SÁÁ væru fjórir samningar í gildi á milli SÍ og SÁÁ um mismunandi kima.
„SÁÁ fékk tímabundið framlag í ár, 2023, að upphæð 120 milljónir króna til almenns reksturs. Heildarfjárframlög ríkisins til SÁÁ eru því árið 2023 liðlega 1,4 milljarðar eða 1 milljarður og 385 millj. kr. Þar hefur verið samið um við SÁÁ um að nýta fjármagnið til að veita einstaklingum með fíknisjúkdóma þjónustu á Vogi, endurhæfingu á Vík, göngudeildarmeðferð á göngudeildum sínum í Reykjavík og á Akureyri og lyfjameðferð við ópíóíðafíkn. Tekur fjórði samningurinn einmitt til þeirrar lyfjameðferðar, eins og hv. þingmaður fór hér yfir,“ sagði Willum.
Þá sagði hann umræðu um breytingu á samningunum hafa átt sér stað á milli ráðuneytisins og SÁÁ. Mikilvægt væri að þeir væru sveigjanlegir vegna eðlis málaflokksins, en neysla sem þessi væri breytileg. Markmiðið væri að auka þjónustutengda fjármögnun.
Ráðherra nefndi einnig að fjöldi fólks í lyfjameðferð við ópíóíðafíkn hafi aukist úr 374 í 457 á árunum 2021 til 2022. Einstaklingum sem þiggja lyfjameðferð frá SÁÁ við ópíóíðafíkn hafi fjölgað um 66 prósent frá því að samningur SÍ og SÁÁ var gerður árið 2014, eða úr 209 í 329 árið 2022.
„Það er mikilvægt að hafa í huga að flestir þeirra einstaklinga sem þiggja meðferðina eru á henni til lengri tíma og því eykst fjöldi einstaklinga á meðferðinni með tímanum, sem er líka vísbending um það að við erum að ná til fólks og hjálpa fleirum,“ sagði ráðherra.
Að lokum minntist hann á að eitt dauðsfall vegna fíknisjúdóma væri einu dauðsfalli of mikið.
„Að þessu sögðu og tengt því sem hv. þingmaður kom inn á um dauðsföll vegna ópíóíða þá þarf auðvitað að skoða gögn og staðreyndir, en það er mikilvægt að halda því til haga að eitt dauðsfall vegna fíknisjúkdóma, hvort sem það er vegna ópíóíða eða annars, er einu dauðsfalli of mikið. Þess vegna hefur öll ríkisstjórnin samþykkt að fara samhent í að ná betur utan um þennan hættulega sjúkdómsflokk, fíknisjúkdóma, orsakir og afleiðingar. Ég kem nánar inn á það síðar í umræðunni.“
Aðrir þingmenn létu sig ekki vanta í umræðuna um „ópíóíðafaraldurinn“ eins og hann var gjarnan kallaður í dag. Umræðan fór um víðan völl en flestir þingmenn virtust geta verið sammála um það að auka þyrfti fjármagn og úrræði. Sumir lögðu áherslu á forvarnir og starfsemi samtaka eins og SÁÁ á meðan aðrir ræddu mikið um nauðsyn skaðaminnkunarsjónarmiða og skaðsemi refsistefnu í þessum málaflokki. Heyra mátti samstöðu um mikilvægi málsins.
Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins bar fjármagnið sem varið er í löggæslu fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins saman við fjármagnið sem rennur til SÁÁ. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins lagði til að fólk sem fremdi glæpi undir áhrifum en myndi bæta ráð sitt myndi ekki sitja uppi með glæpinn á sakaskrá. Þá ítrekaði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, það sjónarmið að refsistefna leysi ekki vandann og að áföll geti haft mikil áhrif í þessum efnum. Einnig væru lágþröskuldaúrræði æskileg og að tryggja lagaumhverfi sem ekki auki þjáningu fólks.
Ásmundur tók aftur til máls þegar kollegar hans höfðu lokið máli sínu og hrósaði Tómasi A. Tómassyni, þingmanni Flokks fólksins, fyrir „bestu ræðu dagsins“. Tómas sagðist hafa persónulega reynslu af þessum málum og sagði að aukin fjárveiting í þennan málaflokk yrði ekki slæm fjárfesting.
„Opinn tékka til SÁÁ, Hlaðgerðarkots og Krýsuvíkur og þeirra sem eru að vinna í þessum málum af einhverju viti,“ sagði Tómas.
Að lokum sagðist heilbrigðisráðherra hafa umburðarlyndi að leiðarljósi þegar tekið væri á þessum málaflokki.
„Það er eins og kom fram hér að það er ekki eitt sem gildir fyrir alla. Það er ekki eitt atriði í skaðaminnkunarhugmyndafræðinni, ef við tökum hana, sem leysir málið. Það er fjölbreytnin, fjölbreytt úrræði og stuðningur við sjúkt fólk. Það er fyrst og fremst það og ég get tekið undir að það verður ekki undir hatti refsistefnu. Það er bara spurning hvernig við nálgumst það og hvernig okkur tekst saman að nálgast það,“ sagði Willum.