„Pólitískir hagsmunir trompuðu velferð barnanna. Þau fengu aldrei að njóta vafans,“ segir Árni H. Kristjánsson sagnfræðingur sem birt hefur rannsókn á starfsháttum vöggustofanna sem starfræktar voru í Reykjavík á árunum 1949-1979.
„Pólitískir hagsmunir trompuðu velferð barnanna. Þau fengu aldrei að njóta vafans,“ segir Árni H. Kristjánsson sagnfræðingur sem birt hefur rannsókn á starfsháttum vöggustofanna sem starfræktar voru í Reykjavík á árunum 1949-1979.
„Pólitískir hagsmunir trompuðu velferð barnanna. Þau fengu aldrei að njóta vafans,“ segir Árni H. Kristjánsson sagnfræðingur sem birt hefur rannsókn á starfsháttum vöggustofanna sem starfræktar voru í Reykjavík á árunum 1949-1979.
Í rannsókninni leitar Árni skýringa á því hvers vegna slæm meðferð barna á vöggustofum var liðin í áratugi.
Hann segir ábyrgðina hvíla á herðum nokkurra einstaklinga. Þar nefnir hann Kristbjörn Tryggvason sem var læknir á Vöggustofu Reykjavíkurborgar við Sunnutorg og á barnaheimili Reykjavíkur.
Nefnir hann einnig Vilmund Jónsson, sem var landlæknir á árunum 1931 til 1959, og Geir Hallgrímsson sem var borgarstjóri 1959 til 1972.
Málefnið stendur Árna nærri enda er hann einn þeirra einstaklinga sem vistaðir voru á vöggustofunum sem barn og hefur verið í forsvari fyrir þann hóp um nokkurt skeið.
Athugun nefndar á vegum Reykjavíkurborgar um málið er einnig yfirstandandi, en Árni hefur gagnrýnt markmið hennar og sagt þau ófullnægjandi og illa skilgreind.
Greint er frá því í rannsókninni að börnin hafi verið látin liggja afskipt í háum rimlarúmum og starfsfólki forboðið að tala við þau eða snerta nema af nauðsyn. Foreldrar hafi mátt horfa á börn sín úr fjarlægð í gegnum gler og þá varð vangi barnanna að snúa frá þeim.
Á ein starfsstúlka að hafa nefnt að þeim hefði verið gert að mata börnin aftan frá í háum rimlarúmum til að fyrirbyggja augnsamband.
Líktist húsnæði vöggustofanna helst sjúkrahúsi. Innanhúss var „allt málað hvítt, húsgögn fá, veggir auðir og allt hvítskúrað. Skipulag starfseminnar var vélrænt eftir klukku og örvun á vitsmuna- og tilfinningaþroska barnanna ekki á dagskrá.“
Segir hann í samtali við mbl.is koma á óvart hve margt hafi farið úrskeiðis sem leiddi til þess að vöggustofurnar voru við lýði jafn lengi og raun ber vitni. Ábyrgðin dreifist á nokkra einstaklinga og liggi víða.
Heilbrigðisyfirvöld sem og borgaryfirvöld hafi brugðist lögbundinni skyldu sinni. Litið hafi verið framhjá fyrirliggjandi vitneskju um skaðsemi vöggustofanna og vanhæfni stjórnenda.
Skortur á innviðum og fjárráðum yfirvalda hafi sett mark sitt á það hvernig staðið var að málaflokknum.
Einstaklingar, sem vissu af skaðsemi starfsháttanna en leyfðu henni þó að viðgangast, hafi þunga byrði að bera enda hafi vistin á vöggustofunum valdið börnunum ómældum skaða.
„Mest er þó ábyrgð allra þeirra sem vissu hvernig allt var í pottinn búið en kusu að þegja,“ segir í niðurlagi rannsóknarskýrslunnar.
Nefnir Árni sérstaklega einn mann, Kristbjörn Tryggvason, sem var læknir vöggustofanna og jafnframt yfirlæknir á barnadeild Landspítalans.
Kristbjörn hafi ákveðið starfshættina og viðhaldið þeim þrátt fyrir kvartanir og mótmæli starfsfólks.
„Hann var í miklum metum og að auki vel tengdur ýmsum valdhöfum. Hann ákvað þessa starfshætti og það var alveg sama hvað fólki fannst um það. Hann var læknir og þá var það sem hann sagði talið rétt.“
Árni telur að Kristbjörn hafi notið stuðnings frá ýmsum ráðamönnum, meðal annars Vilmundi Jónssyni landlækni og Geir Hallgrímssonar borgarstóra.
Þá segir hann Sjálfstæðisflokkinn einnig bera töluverða ábyrgð, „enda hafði hann hreinan meirihluta í borgarstjórn þau 30 ár sem vöggustofurnar voru starfræktar“.
Á þessum tíma hafi átök heimsveldanna í austri og vestri klofið þjóðina í andstæðar fylkingar. Vöggustofumálið hafi orðið pólitískt þar sem hægrimenn vildu halda fyrirkomulaginu óbreyttu vegna þess að þeir hafi mótað það frá upphafi.
Vinstrimenn hafi svo afhjúpað starfshætti á vöggustofunni. Því hafi hægrimenn afgreidd það sem lágkúrulega og tilhæfulausa árás „kommúnista“ og þar við sat. Segir Árni það óheppilegt að vinstrimenn hafi verið þeir sem stóðu að afhjúpuninni.
Að sögn Árna snerist óskadraumur Thorvaldsenfélagsins um hið fullkomna barnaheimili fljótt upp í andhverfu sína. Félagið gaf Reykjavíkurborg fjárstyrk til þess að byggja vöggustofu Thorvaldsenfélagsins og síðar til að reisa viðbyggingu við hana.
Félagið hafi haldið því til streitu að reisa vöggustofu þrátt fyrir að vera upplýst um skaðsemi slíkrar starfsemi og það hafi hunsað mat sérfræðinga. Stjórn félagsins vísaði síðan allri ábyrgð á bug þegar gagnrýni kom upp.
Ábyrgð Thorvaldsenfélagsins liggur þó fyrir að mati Árna. Til marks um hana hafi félagið ráðstafað plássum á vöggustofu Thorvaldsenfélagsins frá stofnun hennar 1963 til ársins 1967 þegar gagnrýni á starfshættina komst í hámæli. „Það mátti enginn vita það en þær sýsluðu sjálfar með börn.“
Víðtæk samfélagsleg þöggun ríkti um málefnið og höfðu þar töluverð áhrif fordómar í garð þeirra mæðra, yfirleitt ungra lágstéttarkvenna, sem létu börn sín frá sér vegna fátæktar og voru jafnvel álitnar lauslátar.
„Það mátti ekki tala um þetta. Mæðrum barnanna var það mjög óljúft. Sömuleiðis þeim sem ættleiddu börnin. Þetta var gríðarlegt tabú,“ segir Árni og bætir við. „Það var pískrað um þetta en það vogaði sér enginn að gera neitt.“