Vélstjórar undirrituðu samning við SFS

Kjaramál sjómanna | 22. febrúar 2024

Vélstjórar undirrituðu samning við SFS

Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM) og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur (SVG) skrifuðu í morgun undir kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), að því er fram kemur í tilkynningu á vef VM.

Vélstjórar undirrituðu samning við SFS

Kjaramál sjómanna | 22. febrúar 2024

Fulltrúar Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómanna og velastjórafélags Grindavíkur …
Fulltrúar Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómanna og velastjórafélags Grindavíkur undirrituðu kjarasamninga við SFS í morgun. Ljósmynd/VM

Fé­lag vél­stjóra og málm­tækni­manna (VM) og Sjó­manna- og vél­stjóra­fé­lag Grinda­vík­ur (SVG) skrifuðu í morg­un und­ir kjara­samn­ing við Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi (SFS), að því er fram kem­ur í til­kynn­ingu á vef VM.

Fé­lag vél­stjóra og málm­tækni­manna (VM) og Sjó­manna- og vél­stjóra­fé­lag Grinda­vík­ur (SVG) skrifuðu í morg­un und­ir kjara­samn­ing við Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi (SFS), að því er fram kem­ur í til­kynn­ingu á vef VM.

„Samn­ing­ur­inn er að nokkru leyti frá­brugðinn þeim samn­ingi sem fé­lags­menn í Sjó­manna­sam­bandi Íslands samþykktu í at­kvæðagreiðslu ný­verið. Vinna við að út­búa kynn­ing­ar­efni vegna samn­ings­ins er nú í full­um gangi. Hann verður kynnt­ur með ít­ar­leg­um hætti eins fljótt og auðið er,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Fyr­ir­hugað er að at­kvæðagreiðsla um samn­ing­inn hefj­ist næst­kom­andi þriðju­dag, en í fe­brú­ar á síðasta ári felldu fé­lags­menn VM og SVG kjara­samn­ing við SFS.

Fjöldi breyt­inga á samn­ing­um

Í til­kynn­ingu frá SFS seg­ir um samn­ing­anna að unnið hafi verið að bætt­um kjör­um og rétt­ind­um auk aðgerða til að auka traust við skipti á verðmæt­um úr sjó, líkt og í samn­ing­um SFS við Fé­lag skip­stjórn­ar­manna og Sjó­manna­sam­band Íslands.

„Greiðslur í líf­eyr­is­sjóð og kaup­trygg­ing hækka í sam­ræmi við samn­inga á al­menn­um vinnu­markaði, auk þess sem áhersla er lögð á aukið gagn­sæi og upp­lýs­inga­gjöf vegna fisk­verðsmá­la,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Þá seg­ir að breyt­ing­arn­ar sem hafa verið gerðar frá því að samn­ing­ur var felld­ur á síðasta ári séu meðal ann­ars „að tíma­kaup hef­ur verið hækkað, veru­lega hef­ur verið aukið við svig­rúm til upp­sagn­ar samn­ings­ins, skerpt hef­ur verið á rétt­ar­stöðu í tengsl­um við slysa- og veik­inda­rétt þeirra sem ráðnir eru með tíma­bund­inni ráðningu og horfið hef­ur verið frá skip­an gerðardóms við úr­lausn mögu­legra breyt­inga á skipta­pró­sentu ef ný tækni eða nýj­ar veiði- og verk­un­araðferðir eru fyr­ir­sjá­an­leg­ar.“

Jafn­framt er í samn­ingi VM að finna des­em­berupp­bót sem gild­ir frá des­em­ber næst­kom­andi en slík­ar greiðslur hafa ekki tíðkast í hlut­skipta­kerfi. Slíka upp­bót er einnig að finna í samn­ingi SVG en og hefst greiðsla henn­ar í des­em­ber 2028, en fé­lag­ar SVG fá 400 þúsund króna ein­greiðslu 1. apríl miðað við 160 lög­skrán­ing­ar­daga á síðastliðnu ári.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, telur að …
Heiðrún Lind Marteins­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, tel­ur að komið hafi verið til móts við helstu óánægjuradd­ir í tengsl­um við samn­ing­inn sem felld­ur var á síðasta ári.

„Við höf­um nú gert kjara­samn­inga við þau stétt­ar­fé­lög sem gæta hags­muna um 90% sjó­manna á skip­um fyr­ir­tækja inn­an SFS. Við höf­um notað tím­ann vel frá því síðustu samn­ing­ar voru felld­ir og hlustað á hlutaðeig­andi stétt­ar­fé­lög og fé­lags­menn þeirra. Við telj­um að við höf­um komið vel til móts við helstu óánægjuradd­ir og lagt í tölu­vert meiri kostnað. Ég er ekki í vafa um að það verða skipt­ar skoðanir beggja vegna borðsins, en ég held að þessi samn­ing­ur sé já­kvætt skref á mikl­um óvissu­tím­um. Með aukn­um fyr­ir­sjá­an­leika í kjara­mál­um er unnt að tryggja bet­ur sam­eig­in­lega hags­muni sjó­manna og fyr­ir­tækj­anna,“ seg­ir Heiðrún Lind Marteins­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri SFS, í til­kynn­ingu sam­tak­anna.

Vak­in er at­hygli á að enn sé ósamið við Sjó­manna­fé­lag Íslands. „Eng­ar viðræður hafa staðið yfir milli þess fé­lags og SFS, enda hef­ur ekki verið eft­ir þeim óskað.“

mbl.is