Kunna Íslendingar ekki að lofta út?

Mygla í húsnæði | 4. mars 2024

Kunna Íslendingar ekki að lofta út?

Ólafur H. Wallevik, prófessor í iðn- og tæknifræði við Háskóla Reykjavíkur, segir Íslendinga ekki kunna að lofta út jafn vel og aðrar þjóðir. Það sé aftur á móti aðeins einn þáttur af mörgum sem valdi rakaskemmdum og skaðlegu innilofti.

Kunna Íslendingar ekki að lofta út?

Mygla í húsnæði | 4. mars 2024

Ólafur Wallevik, prófessor í iðn- og tæknifræði við Háskóla Reykjavíkur
Ólafur Wallevik, prófessor í iðn- og tæknifræði við Háskóla Reykjavíkur Eggert Jóhannesson

Ólafur H. Wallevik, prófessor í iðn- og tæknifræði við Háskóla Reykjavíkur, segir Íslendinga ekki kunna að lofta út jafn vel og aðrar þjóðir. Það sé aftur á móti aðeins einn þáttur af mörgum sem valdi rakaskemmdum og skaðlegu innilofti.

Ólafur H. Wallevik, prófessor í iðn- og tæknifræði við Háskóla Reykjavíkur, segir Íslendinga ekki kunna að lofta út jafn vel og aðrar þjóðir. Það sé aftur á móti aðeins einn þáttur af mörgum sem valdi rakaskemmdum og skaðlegu innilofti.

Ólafur er fundarstjóri á málþingi um skaðlegt inni­loft, loftræs­ingu og heilsu, sem er viðburður í fundaröð skólans: Rakaskemmdir og mygla, en sem dæmi var í fyrra málþing um byggingargalla og fúsk í byggingaiðnaðinum að sögn Ólafs.

Í samtali við mbl.is segir Ólafur mikla vöntun á þekkingu um málefnið, en til að mynda telji margir myglu og rakaskemmdir vera viðhaldstengdar.

Það sé mikil einföldun á vandanum enda séu þar margir þættir sem spili inn í heildarmyndina, sem geti verið umhverfis-, menningar-, og jafnvel tíðarandabundnir, en Ólafur kveðst fara yfir tuttugu helstu þættina í erindi sínu.

Opin eldhús og tíðari böð

Er einn þáttanna að Íslendingar kunni einfaldlega ekki að lofta út hjá sér?

„Já og það eru margir þættir. Það hefur aukist raki í íbúðum. Við erum öðruvísi þannig við tengjum eldhúsið við stofuna, en eldhús er yfirleitt staður þar sem myndast mikill raki. Ennþá meiri raki myndast á baðherbergi, við förum mun oftar í sturtu,“ segir Ólafur og heldur áfram.

„Við opnum ekki nærri því eins mikið glugga. Margir hafa sett thermostat á ofninn, en áður var það þannig að það hitnaði á daginn, svo þegar þú komst heim úr vinnu þá opnaðir þú glugga og skiptir um loft. Það er að segja það eru svo lítil loftskipti hjá okkur núna.“

Segir Ólafur lykilinn að því að fjarlægja allar rakaskemmdir og myglu vera loftræsingu hvort sem það sé með svo tilgerðu loftræsikerfi eða út um glugga.

Öllu byggingarefni hleypt inn í landið

Nefnir Ólafur einnig aukinn byggingarhraða og hönnunargalla sem eitt vandamálanna. Til að mynda sé tíminn frá því að viður er höggvinn og þangað til hann er nýttur í mannvirki orðin mun styttri sem þýði að það sé enn mikil næring í viðinum þegar húsið er byggt.

Einnig sé það vandamál að leyfilegt sé að hleypa hvaða byggingarefnum sem er til landsins, sem hafi ekki áður verið rannsökuð í íslensku samhengi og henti jafnvel ekki veðráttu og aðstæðum hér á landi.

„Rannsóknarstofa byggingariðnaðarins var lögð niður og nú er öllu hleypt inn í landið,“ segir Ólafur, en hann er fyrrum forstöðumaður rannsóknarstofunnar. Hann segir Íslenskan byggingariðnað nú á verulegum krossgötum.

Að sögn hans séu um 15 aðilar að flytja inn alls konar lausnir frá Austur-evrópu sem séu sumar hverjar góðar en aðrar ekki.

„Allar þessar lausnir, jafnvel þó að þær dugi vel í einhverju landi í Mið-, eða Suður-, eða Austur-Evrópu þá er alls ekki þar með sagt að þær standist hér á landi,“ segir Ólafur og segir varhugavert að aðilar með litla fagþekkingu eða „Þetta reddast“ hugarfar annist innflutning á byggingarvöru.

Þurfum að læra af mistökum frænda okkar

Hann segir mikilvægt að læra af mistökum annarra. Íslendingar hafi náð að vinna bug á alkalískemmdum hér áður fyrr en eigi enn eftir að kveða sinn mygludraug niður. Danir hafi aftur á móti lengi þurft að kljást við afleiðingar á notkun á magnesíum-plötum, sem myndi sjálfar raka séu þær nálægt salti.

Norðmenn hafi lært af mistökum dönsku frænda sinna og Svíar hafi náð að stoppa notkun efnisins áður en það hafi verið of langt komið.

„En við erum að flytja þetta inn. Að vísu fór hann á hausinn eftir fyrstu byggingar en þá byrjaði hann bara á nýrri kennitölu,“ segir Ólafur að lokum.

mbl.is