Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir í samtali við mbl.is að niðurstaða skýrslu Ríkisendurskoðunar um ópíóíða hafi verið býsna góð.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir í samtali við mbl.is að niðurstaða skýrslu Ríkisendurskoðunar um ópíóíða hafi verið býsna góð.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir í samtali við mbl.is að niðurstaða skýrslu Ríkisendurskoðunar um ópíóíða hafi verið býsna góð.
Í þeirri skýrslu kemur fram að ekkert ráðuneyti hefur tekið skýra stefnu í málum er varða ópíóíðafíkn eða fíknivanda almennt.
„Þetta er svokölluð hraðaúttekt þar sem Ríkisendurskoðun er að fara nýja línu í að kanna tiltekið afmarkað mál. Meðal annars þessi viðbrögð heilbrigðisráðuneytisins við misnotkun ópíóíða. Við fórum af krafti í það mál og ég fór með það inn í ríkisstjórn fyrir tæpu ári síðan.
Ríkisendurskoðun fer svona inn í þau fjölmörgu atriði sem við lögðum til að þyrfti að fara í til þess að bregðast við þeirri þróun sem hefur verið varðandi þennan málaflokk. Niðurstaðan er bara býsna góð. Það eru dregin fram atriði sem við raunverulega erum að vinna að,“ segir Willum.
Fram kemur í skýrslunni að enginn aðili hafi fulla yfirsýn yfir hve margir glími við ópíóíðavanda á landinu. Söfnun gagna sé á forræði margra stofnana sem ekki sé til þess að bæta yfirsýn. Forsendur þessara aðila til gagnasöfnunar og aðbúnaður þeirra sé misjafn og því misræmi í upplýsingum. Ráðuneytið hafi þar með ekki fullnægjandi upplýsingar um stöðuna.
Spurður út í þetta segir Willum:
„Þar erum við meðal annars búin að semja við rannsóknarstöð háskólans, að vinna með okkur að rauntímagögnum, að átta okkur á því hvaða efni eru í gangi raunverulega. Svo treystum við auðvitað á upplýsingar frá lögreglunni og svo auðvitað dánarmunaskrá landlæknis. Þannig það þarf að samræma og efla gagnavinnslu þannig við höfum bestu mögulegu gögn hverju sinni til að átta okkur á stöðunni og hvað er í gangi.“
Hann segir að heilbrigðisráðuneytið hafi gert fjölmargt til að takast á við vandann. Nefnir hann að Sjúkratryggingum Íslands hafi verið falið að vinna að gerð heildarsamnings um þjónustu SÁÁ og aukið aðgengi að viðhaldsmeðferð, tilraunaverkefni sé hafið um niðurtröppun ópíóíða, svefn- og róandi lyfja í heilsugæslu, starfshópur sé búinn að taka til starfa um skaðaminnkun og fleira.
Í skýrslunni kemur fram að ópíóíðavandi sé ótvírætt fyrst og fremst viðfangsefni heilbrigðisráðuneytis. Samt liggur ekki alveg fyrir hver ber ábyrgð á málaflokknum í heild sinni.
Fellur þetta allt undir heilbrigðisráðuneytið?
„Við tökum forystu í því. Þetta er líf-, sál- og félagslegur sjúkdómur og mjög flókinn. Félagsaðstæður einstaklinganna eru margbrotnar og flóknar, nánast eins og einstaklingarnir eru margir.“
Hann segir að ákveðin verkefni falli þó undir önnur ráðuneyti, eins og félagsmálaráðuneytið, sem og sveitarfélög. Nefnir hann í því samhengi aðferðarfræði sem kallast „housing first“
„Ef þú hefur ekki þak yfir höfuðið þá er allt erfitt. Það er mjög mikill hluti af skaðaminnkun.“
Hann segir að þetta sé stórt samþættingarverkefni sem þurfi að kljást við.
„Þegar skýrslan er lesin þá gengst heilbrigðisráðuneytið að sjálfsögðu við forystu í þessum málaflokki, enda tókum við frumkvæði að því að fara í þessa vegferð og þetta viðbragð við misnotkun ópíóíða.“
Að lokum segir hann aðspurður að hann hafi verulegar áhyggjur af þróun mála er varða ópíóíðafíkn á Íslandi.