Jói Fel flytur í Hveragerði og gefur út eilífðarmatreiðslubók

Skemmtilegar matarvenjur | 19. apríl 2024

Jói Fel flytur í Hveragerði og gefur út eilífðarmatreiðslubók

Jóhannes Felixson, alla jafna kallaður Jói Fel, bakari, eigandi veitingastaðarins Felino og matgæðingur með meiru, elskar að borða góðan mat og kökur, jafn mikið og hann elskar að elda og baka. 

Jói Fel flytur í Hveragerði og gefur út eilífðarmatreiðslubók

Skemmtilegar matarvenjur | 19. apríl 2024

Jóhannes Felixson, þekktastur undir nafninu Jói Fel, sviptir hulunni af …
Jóhannes Felixson, þekktastur undir nafninu Jói Fel, sviptir hulunni af sínum skemmtilegum matarvenjum og því sem er framundan hjá honum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Jóhannes Felixson, alla jafna kallaður Jói Fel, bakari, eigandi veitingastaðarins Felino og matgæðingur með meiru, elskar að borða góðan mat og kökur, jafn mikið og hann elskar að elda og baka. 

Jóhannes Felixson, alla jafna kallaður Jói Fel, bakari, eigandi veitingastaðarins Felino og matgæðingur með meiru, elskar að borða góðan mat og kökur, jafn mikið og hann elskar að elda og baka. 

Aðspurður segist hann þó hafa meira gaman af því að baka og sjá töfrana sem gerast í bakstrinum. 

Er klára skrifa síðustu matreiðslubókina sína

„Nú á dögunum eru akkúrat 40 ár síðan að ég byrjaði að vinna við að baka og hef ekki gert annað síðan en að elda og baka. Er búinn vera í sjónvarpi í 10 ár og gefa út 6 matreiðslubækur. Nú er ég að klára skrifa mína síðustu matreiðslubók sem verður svo stór að enginn nema fuglinn fljúgandi kemst yfir allar uppskriftirnar. Þó að hún komi út aðeins að hluta á næstunni verð ég aldrei búinn að klára skrifa hana, verður eilífðarbók þar sem allir finna fjölbreyttar uppskriftir til elda og baka eftir, fyrir öll tilefni,“ segir Jói og er orðinn spenntur að koma henni í birtingu. 

Skemmir stundum upplifunina að hugsa um hollustuna

„Ég er ótrúlega mikill matargormur og finnst svo gott að borða. En ávallt þarf ég að hugsa um hollustuna líka, sem skemmir stundum upplifunina að geta leyft sér að borða það sem manni langar í. Er þannig að ef ég fæ mér of mikið af einhverju þá er skammakrókurinn á æfingu daginn eftir. Maður er víst það sem maður borðar. Ef mér er boðið upp á eitthvað sérstakt þá neita ég því ekki. Ég get ekki sleppt því að borða góðan mat, að fara út að borða í dag á góðum íslenskum veitingastað er svo frábært. Enda erum við með einhverja bestu kokka í heiminum.“

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Er búinn að borða sama morgunmat í næstum 40 ár. Haframjöl, rúsínur og smá Cheerios með fjörmjólk. Besta sem til er. En núna erum við konan í smá átaki þar sem hún er að fara keppa á heimsmeistaramóti í fitness og ég tek þátt í mataræðinu, enda sé ég um matinn. Þá er núna bara haframjöl, stór skeið af prótíni og vatn í morgunmat, ekki það besta en það virkar.“ 

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Borða ekkert á milli mála. En þar sem ég er að elda og baka alla daga og allan daginn þarf ég oft að smakka til matinn eða kökurnar og ég læt það duga. En ég smakka bara, ég borða ekki allt saman sem þarf að smakka.“ 

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Hver borðar ekki morgunmat og hádegismat, skil það ekki. Ég myndi detta niður hálf dauður með krampa og verða að vesalingi ef ég borðaði ekki hádegismat.“ 

Á alltaf til Bola í ísskápnum

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Ég á alltaf til Bola, alltaf. En það er alltaf allt fullt af eggjum, hleðslu. Fullt af Collab og Mist prótíndrykk. Ef grænmetisskúffan er ekki full þá verð ég stressaður. Svo er það að sjálfsögðu hvítlaukur, chilli og engifer. Svo er alltaf til eitthvað að ferskum kryddjurtum, basil, rósmarín og kóríander. Ef ísskápurinn er hálftómur þá líður mer ekki vel. Hver á ekki smjör og rjóma og einhverja osta, fyrir gestina. Annars er hann nánast alltaf fullur af allskonar, ég elska það.“

Uppáhaldsstaðurinn Matkráin í Hveragerði

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?

„Flest allir veitingastaðir á Íslandi eru orðnir svo góðir að maður getur næstum farið hvert sem er til að gera vel við sig. En uppáhaldsstaðurinn minn í dag er Matkráin í Hveragerði, enda er ég að flytja ekki svo langt frá staðnum. Mun ganga oft þangað að fá mér smurbrauð og einn kaldan á góðum degi.“ 

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?

„Það er enginn einn sérstakur, er búinn að fara á svo marga staði í gegnum tíðina. Eina sem mig langar að gera er að fara með konuna mína til Ítalíu þangað sem hún hefur ekki komið og borða góðan mat í ítölskum sveitum og héruðum eins og hann gerist bestur. Það er ekkert sem toppar það að fá sér góðan ítalskan mat og léttvín í fallegu umhverfi.“ 

Verður að vera pepperóní

Hvað vilt þú á pítsuna þína?

„Það verður allavega að vera pepperóní, helst nokkrir sterkir ostar og ólífur. En það fer oft eftir því hvað er til hverju sinni. Og ef það er ekki til sterk og góð hvítlauksolía þá nenni ég ekki borða pítsuna. Ferskt basil á toppinn og stór Boli með nauðsyn.“

Hver er uppáhaldsrétturinn þinn?

„Hef oft svarað þessari spurningu og er með þrennt sem skipar þrjú efstu sætin. Það hefur ekkert breyst í áranna rás hjá mér. Vel taðreykt sveitahangikjöt er eitthvað það albesta sem ég veit um, heimalagað rauðkál og uppstúfur. Svo er það ribeye-steik, verður vera um 500 gr með bernaisesósu og lítið elduð, annars nenni ég ekki að byrja á henni, alveg geggjað. Og í þriðja sæti er það hreindýrasteik sem ég elda með öllu tilheyrandi, og auðvitað best ef ég hef skotið það sjálfur sem er ekki sjálfgefið í dag. Ef einhver á auka hreindýrakjöt má hann alveg senda á mig smá bita, hef ekki fengið leyfi í nokkur ár núna.“

Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?

„Má velja bæði, ég elska kartöflur, en það verður alltaf að vera salat líka með. En stundum skilur maður salatið eftir, en það lítur bara svo vel út á disknum. Fer allt eftir því hvað er í matinn og hvert tilefnið er hverju sinni hvað ég vel. Stundum langar mig bara í steik og kartöflu, borða bara þá meira salat daginn eftir.“

Miklu skemmtilegra að baka

Hvort finnst þér skemmtilegra að baka eða matreiða?

„Þar sem ég er að elda og baka alla daga hvort sem er í vinnu eða heima, þá held ég að ég verði að segja að það er miklu skemmtilegra að baka. Það eru bara eitthvað svo miklir töfrar þegar kakan kemur úr ofninum, setja gott krem á hana og njóta vel og lengi. Og fá sér svo aðra sneið,“ segir Jói að lokum og brosir.

mbl.is