Elías Arnar Nínuson, landfræðingur, ljósmyndari og landvörður, fór lítið út fyrir bæjarmörkin þegar hann var yngri en upplifði töfra náttúru Íslands þegar hann var á þrítugsaldri í gegnum ljósmyndun og útivist.
Elías Arnar Nínuson, landfræðingur, ljósmyndari og landvörður, fór lítið út fyrir bæjarmörkin þegar hann var yngri en upplifði töfra náttúru Íslands þegar hann var á þrítugsaldri í gegnum ljósmyndun og útivist.
Elías Arnar Nínuson, landfræðingur, ljósmyndari og landvörður, fór lítið út fyrir bæjarmörkin þegar hann var yngri en upplifði töfra náttúru Íslands þegar hann var á þrítugsaldri í gegnum ljósmyndun og útivist.
Í dag er hann með meistaragráðu í landfræði og náttúruvá og starfar hjá Veðurstofunni sem snjóflóðasérfræðingur. Á sumrin starfar hann einnig sem landvörður á Norður-hálendi Vatnajökulsþjóðgarðs auk þess að sjá um útivistar- og jaðaríþróttastarf fyrir unglinga í Félagsmiðstöðinni Sigyn í Grafarvoginum, en hann er með einstakt ljósmyndaauga og hefur náð að fanga mögnuð augnablik í náttúrunni á filmu.
„Það var ekki fyrr en ég fór og upplifði náttúru Íslands á þrítugsaldri sem ég lærði virkilega að meta hana. Þegar ég var yngri fór ég ekki mikið út fyrir bæjarmörkin og hafði enga hugmynd um þau náttúrugæði sem við búum við á Íslandi,“ útskýrir Elías.
„Það var síðan í gegnum ljósmyndun og útivist sem ég lærði að lesa náttúruna og tengjast henni raunverulega. Þessi upplifun mín af náttúrunni drífur mig áfram til þess að fræða og kenna unglingum að tengjast náttúrunni í gegnum útivist og jaðaríþróttir. Það sem heillar mig mest við náttúruna er að sjá aðra upplifa hana og verða fyrir þeirri ólýsanlegu tilfinningu sem við þekkjum öll þegar við verðum fyrir hrifum í náttúrunni,“ bætir hann við.
Hvenær byrjaði áhugi þinn á ljósmyndun?
„Ég byrjaði að taka myndir þegar ég var í menntaskóla. Ég var í listnámi í Borgarholtsskóla og einbeitti mér mikið að leiklist og kvikmyndagerð en þaðan færði ég mig hægt og rólega yfir í ljósmyndun. Fyrst var ég mest hrifinn af tæknilegu hliðinni en smátt og smátt fór ég að fara meira út og taka myndir á ferðalögum þar sem náttúran var viðfangsefnið.
Það var síðan ekki fyrr en ég fór að starfa sem landvörður hjá þjóðgarðinum árið 2016 að ég fattaði hversu fallegt viðfangsefni náttúran er. Þá fór ég að taka náttúruljósmyndir á fullu en fljótlega eftir að ég byrjaði í landfræðinni fór ég að tengja hana við ljósmyndun og kýs ég í dag að kalla mig landfræði-ljósmyndara.“
„Landfræðileg ljósmyndun er ákveðin nálgun sem leggur áherslu á að varpa ljósi á landfræðileg tengsl í náttúrunni. Þannig keppist ég við að ögra ríkjandi hugmyndum um stað mannsins í náttúrunni og hvert okkar hlutverk er í stóra samhenginu. Það er gríðarlega mikið af óséðum viðfangsefnum í íslenskri náttúru sem landfræðileg ljósmyndun getur varpað ljósi á. Þetta eru þá helst hlutir sem tengja okkur við náttúruna á sögulegan eða menningarlegan hátt og dæmi um þessi viðfangsefni geta verið skipsflök, rekaviður, skógareyðing, stóriðja o.s.frv..“
Hvernig ferðalögum ert þú hrifnastur af?
„Að fara í margra daga göngur er allra besta leiðin til þess að upplifa náttúruna og tengjast henni að mínu mati. Þar gerast hlutir sem erfitt er að útskýra en þeir sem hafa gert þetta, gist margar nætur í tjaldi og lifað á þurrmat og hundasúrum, vita nákvæmlega hvað ég er að tala um.“
Hverjir eru þínir uppáhaldsstaðir á Íslandi og af hverju?
„Uppáhaldsstaðurinn minn á Íslandi er Mývatnssveitin. Þar hef ég unnið nokkur sumur sem landvörður og fengið að kynnast einstöku samfélagi sem lifir í nánu sambandi við sitt nærumhverfi. Það eru fáir staðir á Íslandi sem búa yfir jafn miklum töfrum og leyndardómum og jafn fjölbreyttu lífríki. Að vera þarna er eins og vera í tölvuleik eða bíómynd.“
Uppáhaldsgönguleið á Íslandi?
„Líklega eitthvað sem ég á eftir að fara en Víknaslóðirnar hafa alltaf heillað mig sérstaklega.“
Uppáhaldsstaður á hálendi Íslands?
„Askja eða Tungnaáröræfin.“
Hvað finnst þér skemmtilegast að mynda?
„Hluti í náttúrunni sem tengjast fólki á sögulegan eða menningarlegan hátt. Gömul eyðibýli, fjallaskálar, rekaviður eða einhverskonar áhrif sem fólk hefur haft á umhverfið sitt eða öfugt.“
Hvernig hefur jarðfræðin áhrif á ljósmyndirnar þínar?
„Sem lærður landfræðingur og landvörður hef ég frekar góða grunnþekkingu á jarðfræði Íslands og mér finnst ég geta nýtt mér þessa þekkingu til þess að ná góðum myndum. Það er pínu flókið að útskýra þetta en það er eins og ég sé sífellt að kynnast viðfangsefninu sem náttúran er betur og betur og þar af leiðandi finnst mér ég hæfari til þess að taka myndir af fyrirbærum í náttúrunni sem ég vissi ekki áður hvað voru nákvæmlega.“
Áttu þér uppáhaldsmyndavél eða linsur fyrir náttúruljósmyndir?
„Ég spái mjög lítið í tæknilegum atriðum svona í seinni tíð en ég er að vinna með Sony A7iii vél sem ég er búinn að eiga í nokkur ár ásamt þremur linsum. Ég nota líklega mest Sony GM 70-200 linsuna mína, hún er stórkostleg þegar kemur að því að mynda fjöll eða fjallstinda.“
Ertu með einhver góð ráð fyrir fólk sem langar að taka fallegar náttúruljósmyndir?
„Besta ráðið sem ég gæti gefið er bara að fara út og taka endalaust af myndum, öðruvísi verður maður ekki góður í því sem maður er að gera að mínu mati. Þú getur verið með allskonar flottan og dýran búnað í gríðarlega fallegum aðstæðum en það gerir lítið fyrir þig ef þú hefur ekki reynslu og þekkingu til þess að nýta þér það.“
Hvað er framundan hjá þér í sumar?
„Á næstu vikum fer ég beint aftur upp á hálendi og mun starfa sem landvörður í Öskju og Herðubreiðarlindum. Ég er líka frekar spenntur fyrir því að ferðast um Strandir þar sem ég er að vinna að ljósmyndaverkefni þar um rekavið og hlutverk hans í sögulegu samhengi á Íslandi.“