Portúgalska eyjan Madeira hefur vakið sérstaka athygli að undanförnu, en hún er gjarnan kölluð „Havaí Evrópu“ eða „Blómaeyjan“ og stendur sannarlega undir nafni. Nýverið hélt blaðamaður ferðavefs mbl.is í ferðalag þangað og upplifði töfra eyjunnar frá hinum ýmsu sjónarhornum, en það er óhætt að segja að Madeira hafi komið skemmtilega á óvart.
Portúgalska eyjan Madeira hefur vakið sérstaka athygli að undanförnu, en hún er gjarnan kölluð „Havaí Evrópu“ eða „Blómaeyjan“ og stendur sannarlega undir nafni. Nýverið hélt blaðamaður ferðavefs mbl.is í ferðalag þangað og upplifði töfra eyjunnar frá hinum ýmsu sjónarhornum, en það er óhætt að segja að Madeira hafi komið skemmtilega á óvart.
Portúgalska eyjan Madeira hefur vakið sérstaka athygli að undanförnu, en hún er gjarnan kölluð „Havaí Evrópu“ eða „Blómaeyjan“ og stendur sannarlega undir nafni. Nýverið hélt blaðamaður ferðavefs mbl.is í ferðalag þangað og upplifði töfra eyjunnar frá hinum ýmsu sjónarhornum, en það er óhætt að segja að Madeira hafi komið skemmtilega á óvart.
Eyjan er sannkölluð paradís fyrir náttúruunnendur og útivistarfólk, en hún býður upp á allt sem okkur Íslendinga dreymir um – sól, hlýju, rólegra „tempó“ og fjölbreytta afþreyingu. Madeira er því tilvalinn áfangastaður fyrir þá sem eru komnir með leið á því að sitja á amerísku ströndinni á uppáhaldseyju Íslendinga, Tenerife, og langar að upplifa eitthvað alveg nýtt og ferskt.
Madeira er ekki bara paradís fyrir náttúruunnendur og útivistarfólk, heldur líka fyrir þá sem vilja hlaða batteríin og slaka á í sólríku og fallegu umhverfi þar sem töfrandi útsýni blasir við hvert sem litið er. Mikil gróðursæld, stórbrotið landslag og milt veðurfar einkennir eyjuna sem er um 741 ferkílómetrar að stærð.
Eyjan er staðsett um 520 kílómetra undan vesturströnd Norður-Afríku og um 400 kílómetra norður af Kanaríeyjum. Portúgalar uppgötvuðu eyjuna árið 1418 og dregur hún nafn sitt af lárviðarskógi sem þakti eyjuna og er í dag á heimsminjaskrá UNESCO, en „madeira“ þýðir „viður“ á portúgölsku.
Um leið og stigið er út úr flugvélinni á Cristanio Ronaldo alþjóðaflugvellinum á Madeira er eins og maður sé kominn inn í annan heim. Í gróðursælli fjallshlíð má sjá undurfögur hús innan um suðrænan gróður, en það er ekki oft sem fegurðin blasir við strax á flugvellinum. Á sama tíma hellist yfir mann þetta notalega andrúmsloft og ró, en lífið á eyjunni virðist vera á allt öðrum hraða en við erum vön.
Við suðurströnd eyjunnar er höfuðborgin Funchal sem er þekkt fyrir sögulegan sjarma, undurfagra garða og töfrandi útsýni yfir Atlantshafið. Steinlagðar stéttir borgarinnar hafa verið handlagðar og mikið lagt upp úr smáatriðum, en borgin er afar snyrtileg og sjarmerandi.
Í Funchal er margt spennandi að gera og sjá. Í gamla borgarhlutanum stendur bændamarkaðurinn Mercado dos Lavradores upp úr, en helmingur markaðarins er fiskmarkaður en þar er einnig í boði mikið af fersku grænmeti og ávöxtum, blómum og þurrkuðum jurtum svo eitthvað sé nefnt. Það er skemmtileg upplifun að ganga í gegnum markaðinn þar sem er mikið líf.
Þrátt fyrir að heilmikið líf sé í Funchal er merkilegt hve afslappað og ljúft andrúmsloftið þar er. Á rölti um borgina var komið við í Fábrica Santo António sem var stofnuð árið 1893 og er fyrsta smáköku- og kexverksmiðjan á svæðinu. Fyrir utan hinar frægu smákökur er einnig boðið upp á Madeira sykurreyr- og hunangsköku, handgert sælgæti, marmelaði, ávaxtasultur, möndlur og margt fleira.
Eftir að hafa skoðað borgina var ferðinni heitið upp í hlíðar eyjunnar með kláf. Útsýnið á leiðinni var stórkostlegt, en þar sér maður fagurgrænar og gróðursælar brekkur með fallegum byggingum mæta djúpbláu Atlantshafinu þar sem hvítar skútur spóka sig um.
Þegar komið er úr kláfinum er ómissandi að heimsækja Monte Palace Tropical Garden þar sem framandi flóra, dýralíf og list gleður augað. Í garðinum eru um 100 þúsund plöntutegundir frá öllum heimshornum ásamt spennandi söfnum sem gaman er að ganga í gegnum, en þeir sem eru á heilsuvagninum munu eflaust líka vera hrifnir af því hve auðvelt er að safna skrefum með því að rölta um garðinn!
Eins og fram hefur komið er Madeira mekka útivistarunnenda, en þar er vinsælt að stunda hina ýmsu útivist – allt frá því að fara á brimbretti og í köfun yfir í jeppaferðir, fjallgöngur, hjólaferðir og klifur. Það besta er að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi þegar kemur að afþreyingu og útivist.
Það er ógleymanleg upplifun að fara í jeppaferð og keyra upp á þriðja hæsta tind eyjunnar, Pico de Ariero, sem er í um 1.818 metra hæð yfir sjávarmáli. Sjónarspilið á toppnum er engu líkt, enda ekki á hverjum degi sem maður horfir yfir ótrúlega fjallatinda gægjast upp fyrir skýin.
Fjallagarpar sem eru minna fyrir að sitja í bíl, jafnvel þó það sé gullfallegur Land Rover Defender eða Discovery, munu heldur ekki verða vonsviknir því það er líka vinsælt að ganga upp fjallið þar sem ótal gönguleiðir leiða ferðalanga á magnaða útsýnisstaði.
Þegar búið var að dáðst að eyjunni frá þriðja hæsta toppi hennar, úr kláfnum, miðborginni og hinum skrúðuga Monte Palace Tropical Garden var komið að því að virða eyjuna fyrir sér frá allt öðruvísi sjónarhorni.
Ferðinni var heitið á bryggjuna þar sem hvít skúta beið eftir að sigla frá fagurbláum og tærum Funchal-flóa meðfram eyjunni, en í siglingunni sér maður mismunandi svæði og fjölbreytileika eyjunnar í nýju ljósi.
Það eru því ótal ástæður fyrir því að Madeira ætti að falla vel í kramið hjá ferða- og sólþyrstum Íslendingum, enda býður hún upp á milt og sólríkt veðurfar allan ársins hring.
Það er ein eftirminnileg setning sem kom frá heimamanni sem var að fræða ferðalanga um eyjuna í upphafi ferðarinnar, og það var: „The weather is our blessing“ eða „veðrið er blessun okkar“ – orð sem vekja strax áhuga og hljóma sérstaklega ljúf í eyrum Íslendinga eftir langan og kaldan vetur.
Rúsínan í pylsuendanum kom svo óvænt á flugvelli eyjunnar þegar ferðinni var heitið heim. Það er alltaf erfitt að kveðja sólina, en það er sérstaklega erfitt þegar maður hefur fylgst með sjókomu og hagléli geysa yfir landið í byrjun júní.
Þá var afar notalegt að geta notið síðustu sólargeislanna á svölum flugvallarins, en í stað þess að þurfa að sitja inni og bíða óþreyjufullur eftir fluginu geta farþegar borðað og sólað sig á svölunum með fallegu útsýni upp gróskumiklar hlíðar eyjunnar. Þar er hægt að fylgjast með flugvélum í flugtaki og lendingu, sem gerir sjónarspilið enn skemmtilegra. Þess má geta að í haust mun Play hefja beint flug til eyjunnar fögru.