Daníel Orri Einarsson, formaður Bifreiðastjórafélagsins Frama, segir Bandalag íslenskra leigubílstjóra hafa reynt að vara stjórnvöld við þeim afleiðingum sem myndu fylgja í kjölfar lagabreytingar um leigubifreiðaakstur.
Daníel Orri Einarsson, formaður Bifreiðastjórafélagsins Frama, segir Bandalag íslenskra leigubílstjóra hafa reynt að vara stjórnvöld við þeim afleiðingum sem myndu fylgja í kjölfar lagabreytingar um leigubifreiðaakstur.
Daníel Orri Einarsson, formaður Bifreiðastjórafélagsins Frama, segir Bandalag íslenskra leigubílstjóra hafa reynt að vara stjórnvöld við þeim afleiðingum sem myndu fylgja í kjölfar lagabreytingar um leigubifreiðaakstur.
Lögin voru samþykkt í desember 2022 og tekin upp í apríl 2023 en til stendur að hefja endurskoðun á þeim í haust og vill Daníel að leitað verði til félagsins um ábendingar.
Segir hann að sér og öðrum forsvarsmönnum leigubílstjóra hafi verið lofað fundi með ráðherra þegar samþykkja átti lögin fyrir tæpum tveimur árum. Að sögn Daníels hafi ekki mátt breyta lögum um fjöldatakmörkun án samráðs við Bandalag íslenskra leigubílstjóra. Félagið hafi hins vegar verið sniðgengið af Sigurði Inga Jóhannssyni sem var innviðaráðherra á þeim tíma.
„Hann lofaði okkur fundi 16. desember. Þá vorum við með ákall sem átti að berast í hendur Katrínar Jakobsdóttur [þáverandi forsætisráðherra]. Við stóðum í 40 mínútur úti í 11 stiga frosti fyrir utan Ráðherrabústaðinn til þess að geta afhent þetta ákall. Sigurður Ingi tók við því og það hvarf og hann lofaði okkur fundi, en við fengum hann ekki.“
Í ákallinu, sem mbl.is hefur undir höndunum og berast átti til Katrínar Jakobsdóttur, kemur m.a. fram að Noregur hafi á þeim tíma verið að fara í endurupptöku á lagabreytingum eftir að hafa lent í vandræðum með leigubílamarkað sinn þegar lögum þar var breytt.
„Þeir voru búnir að fara í gegnum þetta í Noregi og niðurstöðurnar voru komnar frá starfshópi á vegum ríkisins að svona gæti þetta ekki haldið áfram. Þetta á að vera alvöruvinna – menn eiga að geta lifað á vinnunni sinni og haldið þannig upp almennilegri þjónustu,“ segir Daníel og nefnir einnig Finnland sem dæmi.
„Stjórnvöld bjuggust við því að nú yrði frjáls markaður og að framboð og eftirspurn myndi ráða og menn myndu vera með sanngjarnt verð. Að verð myndi lækka. Við vöruðum við því – að fenginni reynslu – að þegar það kæmi frjáls leigubílamarkaður þá hækkaði verð. Í Finnlandi hafði það hækkað um 30%,“ segir Daníel og bætir við:
„Finnska samkeppniseftirlitið og neytendastofa gerðu úttekt á þessu og komu með skýrslu og sendu mér þetta árið 2020. Þeir breyttu lögunum hjá sér árið 2018. Í september 2020 kemur skýrsla frá Finnska samkeppniseftirlitinu sem sagði „samkeppnislögum er ekki hægt að beita á leigubifreiðaakstur eðlis starfseminnar vegna. Verðið lækkar ekki – það hækkar.“
Segir Daníel að Bandalag íslenskra leigubílstjóra hafi þá viljað koma umsögnum sínum til stjórnvalda sem vöruðu við því að afnumin fjöldatakmörkun myndi hefta möguleika leigubílstjóra til að geta lifað á starfi sínu og ógna öryggi almennings.
„Við vorum fyrst og fremst að verja öryggi almennings. Því um það snýst okkar atvinnuöryggi. Um leið og fólk er óöruggt í leigubílum þá skilar það sér í óánægju í garð okkar og ómögulegu vinnuumhverfi – og við erum farnir að upplifa það núna,“ segir Daníel og nefnir að félaginu Frama hafi borist tilkynningar og kvartanir vegna hegðunar útlenskra leigubílstjóra en mikil fjölgun varð á þeim eftir að fjöldatakmörkun um leigubílstjóra var afnumin.
„Það eru þrír bílar í röðinni og viðskiptavinur kemur labbandi og er að leita að einhverjum bíl frá ákveðinni stöð og velur þarna einn og hefur það frelsi. Viðskiptavinurinn ræður hvaða bíl hann tekur. Þá koma hinir tveir út og eru ekki sáttir við það. Snúa sér bæði að farþeganum og bílstjóranum og það eru tvær þannig sögur sem hafa komið til okkar þar sem fólk bara lenti í átökum við útlendinga. Einn tók bara töskur úr bílnum hjá viðkomandi. Farþeginn var bara reiður og upplifir náttúrulega bara árás á sig og þarna urðu átök sem voru kærð til lögreglu en lögreglan hafði ekki tíma til að sinna því.“
Segir Daníel að oft sé líka erfitt að hafa uppi á þeirri nýju kynslóð leigubílstjóra sem keyri í borginni að sökum þess að hægt sé að keyra án merkingar og séu þeir margir með erlenda færsluhirða.
„Þú ferð og færð kvittun og á posanum stendur Taxi Túnis. Eða Taxi London. Hvernig ætlarðu að hafa uppi á þeim? Bankinn veit ekkert hvaðan þetta er. Þá eru þeir með posa með erlendan færsluhirði.“
Nefnir Daníel að málið hafi ekkert með útlendinga að gera, enda eru margir útlendingar sem starfi sem leigubílstjórar undir félaginu og eru til fyrirmyndar í stéttinni. Segir hann málið snúa að því að starfsnám sé ekki lengur skilyrði til úthlutunar rekstrarleyfis áður en viðkomandi hefur rekstur og hegðar sér án þekkingar um sómasamleg viðskipti greinarinnar. Leigubifreiðaakstur sé samgönguakstur sem tengi aðra samgöngumáta þegar annað bregst.
„Það á að vera starfsnám eins og var í lögum. Menn voru búnir að keyra í að minnsta kosti 1.200-1.300 daga áður en þeir fengu leyfi. Það heitir starfsnám undir leiðsögn reyndra manna í starfi undir stöð sem veitir þjónustu allan sólahringinn og símsvörun. Símsvörun er líka öryggi,“ segir Daníel og tekur sem dæmi að oft hafi komið upp tilfelli þar sem aldrað eða veikt fólk tók leigubíl en þá gátu fjölskyldur fólksins haft upp á því í gegnum rekjanleikann sem fylgir símsvörun.
Hann segir að tekjur þeirra sem starfi við greinina hafi einnig lækkað mikið eftir að fjöldatakmarkanir voru afnumdar og segir Daníel það einnig bitna á öryggi almennings.
„Hvernig eiga menn að lifa á sinni vinnu? Á hvernig bílum eru menn þegar þeir hafa engar tekjur? Þeir eru á druslum. Þeir eru á gatasigtum og þeir láta það mæta afgangi að skipta um dekk og bremsur og sinna viðhaldi. Eins og einn sem rann út í Tjörnina. Var á sumardekkjum að hausti.“
Nefnir þá Daníel að það bitni á stéttinni að ekki hafi verið leitað til bandalagsins á sínum tíma.
„Rót vandans er að það var ekki hlustað á okkur. Stjórnvöld fóru eftir eigin höfði. Þau fóru eigin leið í þessu og það þýðir bara það að það er enginn að fara að finna upp hjólið. Þau eru bara að hlaupa á vegg,“ segir Daníel og bætir við.
„Hvað á það að kosta mörg slys? Hvað á þetta að kosta þegar kemur að mannorði okkar sem stétt? Hvað á þetta að skaða stéttina lengi? Á að stoppa þetta núna með lagabreytingum í janúar? Á loksins að tala við okkur þá? Eða á að halda áfram að reyna að finna upp hjólið og skaða fólk?“
Eins og fyrr hefur komið fram mun endurskoðun á lögunum fara fram í haust og vill Daníel að Bandalag íslenskra leigubílstjóra fái aðkomu að málinu. Segir hann að harkið og spennan á markaðnum muni aðeins aukast ef ekki verður gripið í taumana.
„Sá sem keyrir á ekki bílinn heldur getur eigandinn búið í Evrópu. Rekstrarleyfishafi getur búið í Evrópu. Hann getur verið bara þýskur námsmaður og tyrkneskur bílstjóri sem er að keyra á Íslandi – heldur þú að hann sé að spá í því að skipta um bremsur og dekk á bílnum? Honum er bara alveg sama því hann á ekki bílinn. Hann er bara að keyra fyrir pening. Jafnvel til að senda peninginn úr landi. Enda er hann með posa sem er ekki á Íslandi,“ segir Daníel og bætir við.
„Það mun taka langan tíma að vinda ofan af þessu frelsi.“