„Fólk þarf ekki að eiga langa sögu um geðsjúkdóma“

Menntun er máttur | 1. september 2024

„Fólk þarf ekki að eiga langa sögu um geðsjúkdóma“

Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman geðhjúkrunarfræðingur segir að fólk fæðist með missterkt taugakerfi og sumir þurfi meiri stuðning vegna sterkra og þungbærra tilfinninga. Í haust verður hún með námskeið í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands, annars vegar fyrir fagfólk um tilfinningavanda og aðferðir sem beitt er í DAM-meðferð, og hins vegar fræðslu fyrir almenning um hvað einkennir tilfinningalegan óstöðugleika og hvernig hægt er að hlúa að eigin tilfinningalífi.

„Fólk þarf ekki að eiga langa sögu um geðsjúkdóma“

Menntun er máttur | 1. september 2024

Ragnheiður með hundinn sinn sem heitir Moli.
Ragnheiður með hundinn sinn sem heitir Moli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman geðhjúkrunarfræðingur segir að fólk fæðist með missterkt taugakerfi og sumir þurfi meiri stuðning vegna sterkra og þungbærra tilfinninga. Í haust verður hún með námskeið í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands, annars vegar fyrir fagfólk um tilfinningavanda og aðferðir sem beitt er í DAM-meðferð, og hins vegar fræðslu fyrir almenning um hvað einkennir tilfinningalegan óstöðugleika og hvernig hægt er að hlúa að eigin tilfinningalífi.

Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman geðhjúkrunarfræðingur segir að fólk fæðist með missterkt taugakerfi og sumir þurfi meiri stuðning vegna sterkra og þungbærra tilfinninga. Í haust verður hún með námskeið í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands, annars vegar fyrir fagfólk um tilfinningavanda og aðferðir sem beitt er í DAM-meðferð, og hins vegar fræðslu fyrir almenning um hvað einkennir tilfinningalegan óstöðugleika og hvernig hægt er að hlúa að eigin tilfinningalífi.

Eftir að hafa lært hjúkrunarfræði og útskrifast úr faginu 1995 hefur margt á daga Ragnheiðar drifið. Hún starfaði í lyfjabransanum í áratug en þá fékk hún svo mikla prjónadellu að hún fór að hanna lopapeysur, gefa út prjónabækur og selja útlendingum prjónaferðir til Íslands. Um tíma starfaði hún sem kynlífsráðgjafi og blaðamaður. Í vor útskrifaðist hún með MSc-próf í geðhjúkrun frá Háskóla Íslands en námið var sett á laggirnar fyrir tveimur árum til að efla geðhjúkrun í landinu.

Hvernig kom það til að þú ákvaðst að bæta við þig MS-prófi í geðhjúkrun?

„Ég hef unnið við geðhjúkrun síðan ég útskrifaðist úr hjúkrun þótt ég hafi tekið U-beygjur á vinnumarkaðnum. Ég vann til dæmis í áratug í lyfjabransanum og fjallaði samhliða um kynlíf á ýmsum vettvangi, fór á fullt í prjónabransann og svo í blaðamennsku í nokkur ár. Frá árinu 2017 hef ég svo alfarið starfað við geðhjúkrun,“ segir Ragnheiður og bætir við:

„Þetta nám sem ég var að útskrifast úr í vor er nýtt klínískt sérnám í geðhjúkrun. Ég var í fyrsta hópnum sem útskrifaðist en í þessu námi er meiri klínískur fókus en áður hefur verið. Þannig var mikil áhersla á þjálfun í meðferðarstarfi með skjólstæðingum á vettvangi,“ segir hún og hefur orð á því að þetta nám hafi komið á hárréttum tíma inn í líf hennar.

„Þetta var svo gaman að nú er ég að leggja drög að því að fara í doktorsnám,“ segir Ragnheiður.

Hún segir frá því að þetta nýja nám í geðhjúkrun á meistarastigi hafi verið liður í átaki stjórnvalda til að efla geðþjónustu í landinu.

„Námið er samstarf á milli Landspítalans, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Sjúkrahússins á Akureyri. Það var langar undirbúningstími að þessu námi sem er tveggja ára meistaranám í heild sinni,“ segir hún.

Hvers vegna skiptir máli að fjölga geðhjúkrunarfræðingum?

„Það er mikil þörf fyrir vel menntaða geðhjúkrunarfræðinga til að efla faglegt starf, á öllum stigum heilbrigðisþjónustu, en líka annars staðar í samfélaginu, til dæmis í forvörnum. Geðhjúkrunarfræðingar geta komið að málum fólks á ýmsum stigum lífsins og því fer fjarri að skjólstæðingar þeirra eigi allir langa sögu um geðsjúkdóma. Við glímum öll við verkefni sem geta verið þungbær og þannig getur hver sem er þurft á stuðningi eða meðferð að halda. Umræðan um geðheilbrigði hefur verið að opnast mjög mikið á síðustu áratugum. Í dag þykir það sjálfsagt mál að sækja sér aðstoð í samtalsmeðferð og það er svo sannarlega nóg að gera fyrir alla sem starfa í geðþjónustu,“ segir Ragnheiður.

Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman segir að sumir fæðist með viðkvæmt …
Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman segir að sumir fæðist með viðkvæmt taugakerfi og ýmislegt í uppvextinum geti gert það að verkum að fólk á erfitt með að þola sterkar tilfinningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á launum í náminu

Þegar hún er spurð að því hvort fólk geti tekið MSc-prófið í geðhjúkrunarfræði með fullri vinnu segir Ragnheiður að þetta sé fullt nám.

„Fyrri veturinn vorum við í 80% launuðu starfsnámi og í mínu tilfelli gat ég sótt um námsleyfi frá Landspítala seinni veturinn. Þetta er í fyrsta skipti sem boðið er upp á þetta fyrirkomulag í framhaldsnámi af þessu tagi. Þetta ýtti undir að fólk færi í nám og skipti öllu máli fyrir fleiri en mig. Loksins var þetta búið þannig í haginn að fólk sem var búið að starfa lengi í faginu gat hugsað sér að fara aftur í nám. Þetta varð til þess að fyrsti hópurinn sem fór í gegnum námið var mjög reynslumikill,“ segir hún.

Á námstímanum fór Ragnheiður til Akureyrar þar sem hún var í nokkrar vikur í starfsnámi á geðdeild sjúkrahússins, en í Reykjavík lagði hún áherslu á að skoða leiðir til að bæta geðþjónustu inni á líkamlegum legudeildum á Landspítala.

„Það var ótrúlega dýrmætt að fá að vera nemi annars staðar en á mínum heimavelli, og sú reynsla hefur skilað sér inn í starf mitt svo um munar. Til dæmis var mjög áhugavert að skoða hvernig hægt væri að efla geðhjúkrun inni á hjartadeild Landspítalans. Það er nefnilega svo merkilegt að þegar fólk veikist líkamlega heldur það áfram að þurfa geðþjónustu. Svo getur verið erfið reynsla að veikjast alvarlega líkamlega og þá þurfum við að geta boðið fólki viðeigandi stuðning og meðferð. Við vitum til dæmis að þeir sem þurfa innlögn vegna hjartasjúkdóma eru í hættu á að veikjast líka af þunglyndi og kvíða, sem er í raun mjög skiljanlegt og á við um fleiri alvarlega líkamlega sjúkdóma. Með viðeigandi stuðningi getum við þannig dregið úr þjáningu þessa fólks og aðstandenda þess. Á líkamlegu deildunum er gríðarlegt álag á hjúkrunarfræðingum og öðru starfsfólki, og algjörlega skiljanlegt að það vinnist ekki tími fyrir mikið annað en það sem er bráðnauðsynlegt. En þörfin fyrir að styrkja færni og þekkingu í að veita geðþjónustu er sannarlega fyrir hendi, og á sama hátt eru mikil tækifæri á geðdeildunum til umbóta hvað varðar færni í að sinna líkamlegum sjúkdómum þeirra sem þurfa að leggjast inn vegna geðræns vanda.“

Óviðráðanlegar tilfinningar

Í haust verður Ragnheiður með námskeiðið Tilfinningavandi og DAM-nálgun í Endurmenntun Háskóla Íslands. Hún kennir námskeiðið ásamt Gunnhildi Gunnarsdóttur sérfræðingi í klínískri sálfræði. Námskeiðið er sérstaklega ætlað fagaðilum, en þær eru báðar starfandi innan DAM-teymis á göngudeild geðsviðs Landspítala, en DAM er skammstöfun fyrir díalektíska atferlismeðferð.

„Sérhæfingin mín innan geðhjúkrunar er DAM-meðferð og tilfinningavandi. Meðferðin er sérhæfð fyrir þá sem eru með alvarlegan tilfinningalegan óstöðugleika sem getur til dæmis birst í miklum tilfinningasveiflum, samskiptavanda, óstöðugri sjálfsmynd, sjálfsskaða og sjálfsvígshegðun. Meðferð er flókin og löng og tekur að minnsta kosti hálft ár. Hún felst í færniþjálfun í hópi og einstaklingsmeðferð samhliða. Á þessu námskeiði, sem er ætlað fagfólki í heilbrigðiskerfinu og félagsþjónustu, kennum við um tilfinningavanda, hvað einkennir hann og hvernig hann þróast. Í gegnum aukinn skilning getur fagfólk orðið betur í stakk búið til að mæta fólki sem býr við alvarlegan tilfinningavanda og þjáningu vegna hans. Einnig kynnum við grunnatriði í DAM-nálgun. Fræðslan fyrir almenning leggur áherslu á sjálfsumönnun og aðferðir sem má nota til að styðja við eigið tilfinningalíf og styrkja samskipti við annað fólk.“

Hér má sjá Ragnheiði árið 2011 þar sem hún hannaði …
Hér má sjá Ragnheiði árið 2011 þar sem hún hannaði og prjónaði flíkur af miklum móð við góðan orðstír. Hún gaf út vinsælar prjónabækur og naut velgengni á prjónasviðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Áföll og viðkvæmt taugakerfi

Hvers vegna er mannshugurinn svona ófullkominn að fólk þurfi að fara á námskeið til þess að læra á eigið tilfinningalíf?

„Það fylgir engin handbók með okkur þegar við fæðumst og það er margt sem við lærum ekki í uppvextinum. Sum fæðumst við með viðkvæmt taugakerfi og ýmislegt í uppvexti og annarri reynslu getur svo ýtt undir það að við eigum erfitt með að þola sterkar tilfinningar. Góðu fréttirnar eru hins vegar að við getum lært og þjálfað nýja færni seinna í lífinu, og með því getum við bætt forsendur okkar til að eiga gott líf og öðlast hamingju.“

Finnst þér þú skilja lífið betur og líður þér sjálfri betur eftir að þú lærðir DAM-meðferð?

„DAM hefur haft mikil áhrif á mig síðan ég byrjaði að vinna í meðferðinni fyrir um fimm árum. Núvitund er sterkur þáttur í DAM, en gegnum hana æfum við okkur í að upplifa heiminn eins og hann er án þess að dæma eða þurfa að breyta, það hefur skipt miklu fyrir mig. Díalektík er líka svo falleg nálgun. Við eigum ekki formlega íslenska þýðingu fyrir hugtakið en stundum tala ég um andstæðujafnvægi – díalektík snýst um að nálgast lífið þannig að andstæður geti verið til á sama tíma í einhvers konar jafnvægi eða samruna. Ég hugsa að ég noti einhverja DAM-færni á hverjum einasta degi.“

mbl.is