„Það eru allir í áfalli yfir þessum hræðilega atburði. Þetta á ekki að gerast í okkar samfélagi að 17 ára stúlka láti lífið með þessum hætti.“
„Það eru allir í áfalli yfir þessum hræðilega atburði. Þetta á ekki að gerast í okkar samfélagi að 17 ára stúlka láti lífið með þessum hætti.“
„Það eru allir í áfalli yfir þessum hræðilega atburði. Þetta á ekki að gerast í okkar samfélagi að 17 ára stúlka láti lífið með þessum hætti.“
Þetta segir Guðrún Inga Sivertsen, skólastjóri Verzlunarskóla Íslands, spurð um andrúmsloftið í skólanum í kjölfar sviplegs fráfalls Bryndísar Klöru Birgisdóttur sem lést í kjölfar hnífsstunguárásar í miðbænum á Menningarnótt.
„Ég upplifi mikinn samhug og samstöðu meðal nemenda og starfsmanna,“ segir Guðrún, en Bryndís Klara var nemandi við skólann.
Nemendur og starfsmenn mættu í bleiku í skólann í dag til að minnast Bryndísar Klöru.
Nemendafélag skólans stóð fyrir því, en ástæða bleika litarins er sú að æskuvinkonur Bryndísar Klöru sögðu frá því í minningarstund í Lindarkirkju í gær að uppáhaldsliturinn hennar væri bleikur.
„Við höfum unnið með nemendum í þessu áfalli. Það var stund í hverjum bekk í dag þar sem kennari fór aðeins yfir þetta áfall. Hvernig við getum saman unnið með sorgina og unnið úr henni. Nemendur eru að skrifa í minningarbók, það er kveikt á kertum og falleg blóm í skólanum,“ segir Guðrún Inga.
„Það er frekar rólegt yfir en afskaplega mikil væntumþykja og samstaða sem maður sér meðal nemenda og starfsmanna. Það eru allir að sýna tilfinningar og bæði nemendur og starfsmenn styðja hvert annað og víða má sjá faðmlög á göngum skólans.“