„Mér finnst ég alltaf vera borðandi“

Skemmtilegar matarvenjur | 11. september 2024

„Mér finnst ég alltaf vera borðandi“

Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt opinberlega sem Ragga nagli, flettir ofan leyndarmálinu sem varðar matarvenjur hennar. Hún tekur vel til matar síns og borðar í raun miklu meira en marga grunar.

„Mér finnst ég alltaf vera borðandi“

Skemmtilegar matarvenjur | 11. september 2024

Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt undir nafninu Ragga nagli, opinberar matarvenjur …
Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt undir nafninu Ragga nagli, opinberar matarvenjur sínar. Samsett mynd

Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt opinberlega sem Ragga nagli, flettir ofan leyndarmálinu sem varðar matarvenjur hennar. Hún tekur vel til matar síns og borðar í raun miklu meira en marga grunar.

Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt opinberlega sem Ragga nagli, flettir ofan leyndarmálinu sem varðar matarvenjur hennar. Hún tekur vel til matar síns og borðar í raun miklu meira en marga grunar.

Hún er mikil áhugamanneskaj um allt sem við kemur andlegri og líkamlegri heilsu. Hún er sálfræðingur, pistlahöfundur, fyrirlesari og hlaðvarpari í Heilsuvarpinu svo fátt sé nefnt.

„Í hlaðvarpinu mínu fjalla ég um allt sem viðkemur andlegri og líkamlegri heilsu sem er mér hugleikið efni. Hvaða varðar matarvenjur mínar þá er það á hreinu að mér finnst skipti máli að nærast vel. Mér finnst ég alltaf vera borðandi. Það fyrsta sem ég geri þegar ég vakna er að borða, og það síðasta sem ég geri áður en ég fer að sofa er að borða.“

Ekki sleppa kolvetnum

„Ég hvet til að mynda allar konur á breytingaskeiði til að passa vel upp á matarvenjur sínar, borða reglulegar máltíðir og passa upp á prótínneyslu og ekki sleppa kolvetnum. Jafnframt hafa í huga að ýmislegt er prédikað á samfélagsmiðlum sem okkar taugakerfi og hormónakerfi ræður engan veginn við og gerir bara illt verra,“ segir Ragga nagli.

„Það er gríðarlega mikilvægt að njóta matar með núvitund og taka sér góðan tíma í máltíðir, með að borða hægar, tyggja vel, leggja frá sér hnífapörin milli bita og vera ekki umkringd áreitum sem draga athyglina frá matnum. Mitt markmið er að losa fólk við matarkvíða og að það eigi í heilbrigðu sambandi við mat,“ segir Ragga nagli ákveðin. 

Ragga er dugleg að hreyfa sig utan dyra og spilar …
Ragga er dugleg að hreyfa sig utan dyra og spilar meðal annars golf. Ljósmynd/Snorri Steinn

Hún sviptir hér leyndarmálinu bak við matarvenjur sínar en Ragga nagli leggur sig fram við að borða vel og njóta matarins.

Algjör morgunmatsperri

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Ég er algjör morgunmatsperri og vakna yfirleitt hungruð eins og kettlingur í húsasundi. Svo morgunmaturinn minn er mjög stór máltíð og ég dúllast í því í alveg 45 mínútur. Ég borða mjög hægt og í mikilli núvitund.“

„Þetta er hafragrautur með NOW maple stevía dropum og heitum kanileplum og Good Good hnetusmjörinu er í miklu uppáhaldi. Yfir grautinn myl ég MUNA karamellu maískökur til að fá kröns undir tönn. Ég er nefnilega áferðarperri þegar kemur að mat. Með þessu borða ég eggjaköku til að fá prótín og í hana hendi ég sveppum og kalkúnabeikoni og löðra vel af sykurlausri tómatsósu yfir. Svo eru það vítamínin sem ég tek inn daglega: Omega-3, EVE fjölvítamín fyrir konur og D-vítamín.“

„Eftir þessa gleði fer ég í ræktina að lyfta og eftir átökin við járnið þrykki ég í mig hnausþykkum prótínsjeik úr NOW Plant protein complex því ég er með mjólkuróþol og svo einhverjum einföldum kolvetnum eins og morgunkorni, hvítum beyglum eða Oreo kexi til að keyra upp insúlínið sem þrýstir prótíni í hungraða vöðvana sem eru eins og fuglsungar með opinn gogginn á þessum tímapunkti og viðgerðarferlið hefst á núll einni.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst? 

„Máltíðirnar mínar eru það stórar að ég er yfirleitt ekki svöng fyrr en eftir 3-4 klukkustundir og þá fæ ég mér heila máltíð. Lítið snarl gerir ósköp lítið fyrir mig því ég er með óendanlegt magamál og oft er það eins og að henda fjöður í í Almannagjá. En ef ég er á ferðinni og er orðin mjög svöng þá myndi ég henda í mig ávexti og MIST uppbyggingu til að fá prótín og kolvetni og fleyta mér fram að næstu máltíð.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Allar máltíðir dagsins eru ómissandi að mínu mati. Rannsóknir sýna að fólk sem borðar 3-4 staðgóðar vel samsettar máltíðir yfir daginn með nægu prótíni, trefjum og góðri fitu upplifa minni langanir og falla síður í skúffuskröltið á kvöldin í örvæntingarfullri leit að skjótri orku.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Majónes, plöntumjólk, epli, kjúklingabringur, sætar kartöflur, kúrbít og jarðarber.“

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?

„Uppáhaldsstaðirnir mínir í Kaupmannahöfn eru Boathouse, Bistro Royal, PS bar + grill og Asian Market og í Malmö fer ég á Kol & Cocktails. En á Íslandi elska ég Tapas nautabanans á Tapas barnum, steik á Fjallkonunni og Snaps Bistro og laxinn á Rub 23.“ 

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á Bucket-listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?

„Það er svo sem enginn staður á fötulistanum, en ég væri alveg til í að fara aftur á nokkra staði og þá sérstaklega asískan stað í Hamborg þar sem við pöntuðum sautján smárétti sem voru hver öðrum ljúffengari.“

Hvað vilt þú á pítsuna þína? 

Uppáhaldspítsan mín er frá stað í Kaupmannahöfn sem heitir Forno a Legna og er pitsa bianca með kartöflum, pestó, rósmarín og skinku.“

Nautasteik verður síðasta kvöldmáltíðin 

Hvað færð þú þér á pylsuna þín?

„Hef ekki borðað pylsu í næstum þrjátíu ár svo ég segi pass hér.“

Uppáhaldsrétturinn þinn?

„Nautasteik medium rare, kartöflur og hvítlauksmajó verður síðasta kvöldmáltíðin mín en ég styn upphátt þegar þessi unaður snertir tunguna. Eins finnst mér indverskt tandoori alveg tjúllað sem og grillaðar rækjur með majónesi.“

Nautasteik, kartöflur og hvítlauksmajó er uppáhaldsmáltíð Röggu nagla.
Nautasteik, kartöflur og hvítlauksmajó er uppáhaldsmáltíð Röggu nagla. Ljósmyndari/Snorri Steinn

Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn? 

„Alltaf bæði. Ef þú tekur af mér kolvetnin þá eru góðar líkur á ofbeldi, en ég þarf þau til að knýja mig áfram í rækt og daglegur lífi. Ég borða mjög mikið af bæði venjulegum kartöflum, bakaðri kartöflu og sætum kartöflum, Og allt sem er grænt grænt er vinur þinn með trefjum, vítamínum og góðri magafyllingu. Grillað brokkolí og bakað krispí rósakál eru uppáhalds.“

Hvort finnst þér skemmtilegra að baka eða matreiða? 

„Má ég segja bæði? Mér finnst ótrúlega gaman að dúlla mér í eldhúsinu og prófa mig áfram með eitthvað nýtt og spennandi. Sérstaklega sykurlaus bakstur en ég nota erythritol eða Good Good Sweet like sugar alltaf í staðinn. En ég fæ stundum kvíða yfir  bakstrinum því rými fyrir mistök er ansi lítið, meðan matreiðslan getur verið meira slump og kæruleysi sem á vel við mitt ADHD.“

mbl.is