Móðir ungrar stúlku í 2. bekk gagnrýnir viðbrögð Helgafellsskóla við ítrekuðu ofbeldi og líflátshótunum af hálfu bekkjarbróður stúlkunnar.
Móðir ungrar stúlku í 2. bekk gagnrýnir viðbrögð Helgafellsskóla við ítrekuðu ofbeldi og líflátshótunum af hálfu bekkjarbróður stúlkunnar.
Móðir ungrar stúlku í 2. bekk gagnrýnir viðbrögð Helgafellsskóla við ítrekuðu ofbeldi og líflátshótunum af hálfu bekkjarbróður stúlkunnar.
„Við erum búin berjast með kjafti og klóm við stórgallaðan skóla og skólakerfi og umfram allt skólastjórnendur sem eru gjörsamlega vanhæfir í sínu starfi,“ segir Marta Eiríksdóttir móðir stúlkunnar í Facebook-færslu í dag þar sem hún rekur söguna alla.
Í samtali við blaðamann segir Marta það skjóta skökku við að dóttir hennar hrökklist úr námi en drengurinn hafi ekki misst einn dag úr skóla eða frístund vegna málsins.
Hún segir sex ára dóttur sína Soffíu vera skelina af sjálfri sér í dag og að þau foreldrarnir hafi ákveðið að senda hana ekki aftur í skólann.
Hún segist vita um fjölda tilfella í skólanum þar sem börn hafi hrökklast þaðan vegna aðgerðarleysis skólastjórnenda í alvarlegum eineltismálum. Brýnt sé að skólinn myndi sér aðgerðaráætlun í slíkum málum.
Segir Marta börnin tvö í upphafi hafa verið góða vini en drengurinn hafi byrjað að vera harkalegur og síðar að meiða stúlkuna í leik. Kennari barnanna hafi sömuleiðis sett sig í samband við Mörtu vegna áhyggna af Soffíu.
„Hún fer að koma heim með marbletti og segist vera orðin hrædd við hann. Einn daginn kemur hún heim með stóra marbletti á bakinu og segir að hann hafi meitt hana, hann sé farinn að segja við hana að hann ætli að drepa hana og hún sé virkilega hrædd.“
Kveðst Marta þá hafa haft samband við móður drengsins og biðlað til hennar að leysa málið í sameiningu. Móðirin hafi tvívegis lofað að ræða við drenginn en Marta segir ofbeldið einungis hafa ágerst.
Þann 1. maí hafi hún fengið símtal frá deildarstjóra yngsta stigs sem biðji hana að rekja samskipti barnanna frá sínu sjónarmiði.
„Hún tilkynnir mér þá ástæðu símhringingarinnar, drengurinn hafi mætt í skólann með hníf. HNÍF! Hann nær ekki að beita hnífnum en út frá öllu sem á undan er gengið með Soffíu er gengið út frá því að hann ætlaði sér eitthvað illt,“ segir hún í færslu sinni á Facebook.
Í kjölfarið hafi hún og maður hennar spurt skólann hvert planið væri og fengið þau svör að skólinn myndi tryggja öryggi dóttur þeirra og að drengurinn fengi ekki aðgengi að henni. Marta kveðst sjálf hafa tilkynnt málið til barnaverndarnefndar. Ekki sé hægt að víkja honum úr skóla.
„Soffía hættir að sofa, vaknar í sífellu með martraðir. Getur ekki verið ein, ekki einu sinni til að fara á salernið. Treystir sér ekki út að leika af ótta við að rekast á hann. Óörugg, hrædd við allt og kvíðin.“
Dóttirin hafi í kjölfarið lifað við stanslausan ótta og verið einangruð í kjölfarið. Til að mynda hafi hún verið látin fara ein út í port að leika og kennarar og samnemendur hafi tekið að sér að vernda hana öllum stundum frá drengnum. Hún hafi því í raun þurft að líða enn meira fyrir hegðun drengsins.
Daginn eftir atvikið með hnífinn hafi elsta dóttir þeirra hjóna sótt Soffíu í skólann og þá hafi kennari látið þær fela sig þar sem drengurinn var nálægur og beðið þær um að nota annan útgang úr skólanum. Þá hafði drengurinn sömuleiðis ráðist á stúlkuna fyrr um daginn þrátt fyrir loforð kennara um að tryggja öryggi hennar.
Marta og maður hennar voru boðuð á fund með skólastjórnendum í kjölfarið og segir Marta skólastjórann hafa verið kaldan, tilfinningalausan og dónalegan í þeirra garð.
Skólastjóri hafi spurt þau hvað þau vildu að hún gerði í málinu. Hnífnum hefði ekki verið beitt og að öll börn ættu rétt á skólagöngu. Tekur Marta fram að þetta hafi verið fyrsti og eini fundurinn sem skólastjóri Helgafellsskóla hafi setið út af þessu máli.
Að lokum kveðst Marta hafa haft samband við Mosfellsbæ til að leita aðstoðar. Þá loks hafi hjólin farið að snúast og barnasálfræðingur verið settur í málið. Búið hafi verið til plan þar sem börnin tvö væru aðskilin í skólanum, Soffía fái að ganga frjáls og hann fái viðeigandi stuðning.
Soffía hafi einnig byrjað að fara í frístund eftir að bæjaryfirvöld kröfðust þess að plan yrði gert svo hún gæti sótt frístundina örugg.
Hægt og bítandi hafi foreldrarnir tekið eftir því að verið væri að mjaka börnunum saman á ný í frístundinni og í skólanum. Tóku foreldrarnir og deildarstjóri frístundar sömuleiðis eftir því að dóttirin var orðin afar ólík sjálfri sér.
„Þessi lífsglaða, káta stelpa okkar er allt í einu orðin döpur, síþreytt. Áhugalaus um gjörsamlega allt. Reið, finnst erfitt að vera til. Vill ekki vera í þessum heimi. Finnst allt asnalegt, finnst hún asnaleg. Hausverkur, illt í heilanum. Þegar við nefnum að skólinn fari að byrja kemur kvíði og allar tilfinningar magnast,“ segir móðir hennar í færslunni.
Þegar Marta hafi komið að sækja dótturina í frístund einn daginn hafi börnin setið að leik saman. Hún hafi þá beðið Soffíu um að leika ekki við drenginn. Hún hafi engu að síður viljað það og sagt drenginn orðinn góðan við sig. Líðan hennar hafi aftur á móti haldið áfram að versna.
„Við göngum á hana og loks brotnar hún alveg og segir að hún verði að leika við drenginn því annars muni hann drepa hana eða meiða hana.“
Barnasálfræðingur hafi í kjölfarið rætt við Soffíu og staðfest að aðstæðurnar væru henni óboðlegar og líðan hennar mjög slæm.
Við hafi tekið tölvupóstasamskipti við skólann sem hafi skilað litlu sem engu, ýmist hafi verið fátt um svör eða einhverju lofað en ekkert efnt. Marta hafi þá farið á fund með deildarstjóra sem hafi sagt að kenna þyrfti stúlkunni að setja drengnum mörk.
Í millitíðinni hafi ofbeldið byrjað á ný. Þau foreldrarnir hafi í kjölfarið sent tölvupóst á skólann um að stúlkan stigi ekki fæti þangað inn aftur.
Spurð hvað taki við segir Marta það enn óráðið. Þrátt fyrir góðan stuðning frá bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ sé traustið til stjórnenda skólans brostið, enda hafi ófá plön verið gerð sem ekki hafi verið framfylgt.
„Mosfellsbær segist styðja okkur sama hvað við ákveðum, hvort sem það verður að finna lausn í skólanum eða þá að hún fari í nýjan skóla innan hverfisins.“
Hún kveðst ekki skilja hverju skólinn sé að bíða eftir. Ástandið hafi þegar gengið svo langt. Hún ítrekar sömuleiðis að þau hjónin óski þess að drengurinn fái þá hjálp og ást sem hann eigi skilið. Engu barni sem líði vel beiti ofbeldi eða gangi með hníf.
„Þetta er búið að breyta dóttur minni. Breyta hennar karakter og hafa varanleg áhrif á hana og guð minn góður hvað ég vona að það verði ekki til frambúðar,“ segir Marta.