Berfættur gutti sem bætti heiminn

Fréttaskýringar | 2. október 2024

Berfættur gutti sem bætti heiminn

Að mati margra náðu þættirnir um Simpson-fjölskylduna hápunkti árið 1993 þegar fimmta þáttaröðin fór í loftið. Í einum þættinum er Marge handtekin fyrir búðarhnupl, óðara dæmd til 30 daga fangelsisvistar og snupruð af bæjarbúum Springfield eins og hún væri ótíndur glæpamaður. Fljótlega kemur það samt í ljós að Marge reynist vera límið í samfélaginu því smám saman taka bæjarbúar að ganga af göflunum. Kökubasar góðborgara í Springfield mislukkast vegna þess að ljúffenga bakkelsið frá Marge vantaði og fyrir vikið tekst ekki að fjármagna kaupin á styttu af Abraham Lincoln svo í staðinn þarf að láta styttu af Jimmy Carter nægja.

Berfættur gutti sem bætti heiminn

Fréttaskýringar | 2. október 2024

Jimmy Carter frelsaði undirstöðugreinar bandarísks atvinnulífs og tókst að leysa …
Jimmy Carter frelsaði undirstöðugreinar bandarísks atvinnulífs og tókst að leysa nokkuð vel úr erfiðum vandamálum jafnt heima sem erlendis.

Að mati margra náðu þættirnir um Simpson-fjölskylduna hápunkti árið 1993 þegar fimmta þáttaröðin fór í loftið. Í einum þættinum er Marge handtekin fyrir búðarhnupl, óðara dæmd til 30 daga fangelsisvistar og snupruð af bæjarbúum Springfield eins og hún væri ótíndur glæpamaður. Fljótlega kemur það samt í ljós að Marge reynist vera límið í samfélaginu því smám saman taka bæjarbúar að ganga af göflunum. Kökubasar góðborgara í Springfield mislukkast vegna þess að ljúffenga bakkelsið frá Marge vantaði og fyrir vikið tekst ekki að fjármagna kaupin á styttu af Abraham Lincoln svo í staðinn þarf að láta styttu af Jimmy Carter nægja.

Að mati margra náðu þættirnir um Simpson-fjölskylduna hápunkti árið 1993 þegar fimmta þáttaröðin fór í loftið. Í einum þættinum er Marge handtekin fyrir búðarhnupl, óðara dæmd til 30 daga fangelsisvistar og snupruð af bæjarbúum Springfield eins og hún væri ótíndur glæpamaður. Fljótlega kemur það samt í ljós að Marge reynist vera límið í samfélaginu því smám saman taka bæjarbúar að ganga af göflunum. Kökubasar góðborgara í Springfield mislukkast vegna þess að ljúffenga bakkelsið frá Marge vantaði og fyrir vikið tekst ekki að fjármagna kaupin á styttu af Abraham Lincoln svo í staðinn þarf að láta styttu af Jimmy Carter nægja.

Þegar styttan er afhjúpuð fer allt úr böndunum: „Hann er mesta skrímsli sögunnar!“ hrópar einn gesta að styttunni og hátíðleg athöfnin leysist upp í óeirðir.

Bæjaryfirvöld sjá sér þann kost vænstan að leysa Marge úr haldi og tekst henni að koma á friði og spekt, elskuleg og snjöll sem hún er. Þættinum lýkur með því að bæjarbúar þakka Marge með því að afhjúpa styttu af henni – sem reynist vera gamla styttan af Carter nema búið er að fegra hann með hárgreiðslunni sem Marge er þekkt fyrir.

„Vegnar þér betur í dag?“

Er ég nokkuð einn um það að verða mun mýkri í garð þjóðarleiðtoga þegar þeir eru farnir frá völdum?

Þegar þeir standa ekki lengur í eldlínunni virðist auðveldara að gera upp störf pólitíkusa á sanngjarnan hátt, fyrirgefa þeim mistökin, þakka fyrir fórnirnar og lofsama afrekin. Þegar storminum slotar stendur yfirleitt eftir manneskja af holdi og blóði sem gerði sitt besta.

Þrátt fyrir alla stælana stóð Trump sig t.d. alveg prýðilega í embætti forseta. Finna má að ýmsu við valdatíð Obama, en heilt á litið skilaði hann af sér ágætu búi. Það er eitthvað afar manneskjulegt við það hvernig George W. Bush hefur leitað inn á við og notað málaralistina til að vinna úr þeim áföllum sem fylgdu því að leiða heila þjóð inn í tvö stríð sem kostuðu tugi og hundruð þúsunda mannslífa.

Vinsældir Jimmys Carters voru með minnsta móti þegar hann tapaði forsetakosningunum 1980 og þegar Reagan flutti inn í Hvíta húsið sýndu viðhorfskannanir að Carter mældist í hópi þeirra forseta sem Bandaríkjamenn hefðu minnstar mætur á. Það var á vakt Carters að starfsmenn sendiráðsins í Teheran voru teknir í gíslingu og bandarísk heimili þurftu að þola kyrrstöðuverðbólgu og ört hækkandi orkuverð. Reagan vann stórsigur m.a. vegna þess að hann sagði við kjósendur, í frægri ræðu, að þegar þeir stigju inn í kjörklefann ættu þeir að spyrja sig hvort þeim vegnaði betur í dag en fyrir fjórum árum: „Er auðveldara fyrir þig nú en fyrir fjórum árum að fara út í búð og kaupa það sem þig vantar? Er atvinnuleysi meira eða minna núna en það var fyrir fjórum árum? Njóta Bandaríkin sömu virðingar og áður í samfélagi þjóðanna – erum við jafn örugg og voldug í dag og við vorum fyrir fjórum árum?“

Í 44 ríkjum var svar kjósenda hátt og snjallt „nei“.

En viti menn: í dag er Carter í hópi þeirra forseta sem eru best þokkaðir og oft haft á orði að hann sé langbesti „fyrrverandiforseti“ Bandaríkjanna.

Næstum of mikill sómamaður

Fyrir fjórum árum kom út afbragðsgóð bók um lífshlaup 39. forseta Bandaríkjanna: His Very Best: Jimmy Carter, a Life eftir Jonathan Alter. Ævisögur af þessu tagi þarf oft að nálgast af hæfilegri tortryggni enda sýn höfunda á viðfangsefnið jafnan lituð af mikilli aðdáun og hrifningu, en Alter segir frá því strax í innganginum að hann hafi einmitt ekki haft neitt sérstakt álit á Carter þegar hann hóf rannsóknir sínar, og það hafi ekki verið fyrr en eftir á að það rann upp fyrir honum hvers konar afburðamaður Jimmy Carter er og var.

Frásögnin af lífshlaupi Carters er hrífandi. Hann ólst upp í Suðurríkjunum á miklum átakatímum og var af ósköp venjulegu fólki kominn. Hann var fyrsti Bandaríkjaforsetinn sem fæddist á spítala og var líka sá fyrsti og eini sem hefur búið í félagslegu húsnæði. Kreppan mikla litaði samfélagið, lífsbaráttan var hörð í dreifbýlinu, og Carter vandist því sem barn að fara allra sinna ferða berfættur.

En Carter fékk samt ágætis veganesti í gegnum uppeldið og tamdi sér m.a. mikinn bókalestur. Gestum á æskuheimili hans þótti það skrítið að þegar fjölskyldan settist niður við kvöldverðarborðið voru þau öll niðursokkin í bækur á meðan þau mötuðust.

Carter lærði verkfræði og fór því næst í sjóherinn þar sem hann varð sérfræðingur í kjarnorkukafbátatækni, en síðar þurfti hann að taka við fjölskyldurekstrinum og vegnaði vel sem hnetubónda. Hann fékk það með uppeldinu að vera hreinn og beinn, og í sjóhernum lærði hann að leggja sig allan fram.

Carter sá sem var að það veitti ekki af smá tiltekt í pólitíkinni í Georgíu og þegar hann var að nálgast þrítugt bauð hann sig fram í ríkisþingskosningum og bar sigur úr býtum þó að andstæðingar hans hefðu gripið til meiri háttar kosningasvindls. Síðar varð hann ríkisstjóri og tókst loks með eljusemi og fimi að landa forsetaembættinu í kosningunum 1976.

Þegar hlýtt er á frásögn Alters liggur við að Carter virðist á köflum næstum of mikill sómamaður. Hann lagði sig fram við að vera heiðarlegur, forðaðist pólitískar brellur og klæki, og fyrir vikið fékk hann menn upp á móti sér og tókst ekki alltaf að koma stefnumálum sínum í gegn. Í dag virðast stjórnmálamenn gæta sín á að vera bæði olíubornir og teflonhúðaðir svo að ekkert loðir við þá, en Carter hefur verið líkt við franskan rennilás sem allt límist við.

Er hér komin ein skýringin á því að Carter fékk aðeins eitt kjörtímabil í Hvíta húsinu: honum lá meira á að gera það sem honum þótti rétt og þjóðinni til gagns en að gera það sem gæti tryggt honum völd í fjögur ár til viðbótar.

Aukið frelsi leiddi til 25 ára hagsældarskeiðs

Svo má ekki gleyma að valdatími Carters lenti á afskaplega erfiðu skeiði bæði í innanlandsmálum Bandaríkjanna og á alþjóðavettvangi og fór Carter jafnan þá leið að hreinlega höggva á hnútinn frekar en að beita pólitísku prútti og smáviðgerðum.

Þannig minnir Wall Street Journal á það í nýlegri grein að Carter tók þá réttu en erfiðu ákvörðun að draga úr miðstýringu undirstöðuatvinnugreina og frelsaði t.d. fluggeirann, flutningabílageirann, lestarflutningageirann, orkumarkaðinn og fjarskiptamarkaðinn. Kjósendur nutu kannski ekki ávaxtanna þau fjögur ár sem Carter var við völd en færa má sterk rök fyrir því að hann hafi lagt grunninn að efnahagsuppsveiflunni sem ríkti í Bandaríkjunum allt frá því snemma á 9. áratugnum og fram að fjármálakreppunni 2008.

Á alþjóðasviðinu tókst Carter síðan að leiða saman þá Menachem Begin og Anwar Sadat í Camp David til að leggja grunninn að friðarsamningi Ísraels og Egyptalands. Þá sleppti Carter takinu á Panamaskurðinum, sem var hárrétt ákvörðun en mjög óvinsæl á sínum tíma.

Eftir að hann kvaddi Hvíta húsið var síðan eins og Carter tvíefldist. Hann ferðaðist um allan heiminn og lagði sitt af mörkum til að uppræta hungur og sjúkdóma, og verja mannréttindi fólks á fjarlægum slóðum. Ósjaldan hélt Carter óhræddur inn á átakasvæði til að reyna að koma vitinu fyrir fauta og harðstjóra, og alltaf var hann þess fullviss að undir niðri mætti finna eitthvað gott og göfugt í fari þeirra allra. Fyrir störf sín hlaut hann loks friðarverðlaun Nóbels árið 2002, röskum tveimur áratugum eftir að vaktinni lauk í Washington.

Stjórnmál á réttum forsendum

Eftir því sem ég eldist og þroskast minnkar álit mitt á stjórnmálamönnum almennt, og þegar ég lít yfir hið pólitíska svið finnst mér ég alls staðar sjá merki um alvarlega sálræna bresti. Flestir kjörnir fulltrúar grunar mig að sækist eftir völdum á kolröngum forsendum.

Fyrir Carter vakti það hins vegar fyrst og fremst að vera öðrum að gagni, láta gott af sér leiða og reyna ekki að ráðskast með nokkurn mann heldur freista þess að laða fram það besta í fari samlanda sinna.

Í dag virðast svona vandaðir stjórnmálamenn álíka sjaldgæfir og góðir Simpsons-þættir.

mbl.is