„Ég held að réttur klæðaburður geti hjálpað fólki til að komast þangað sem það vill fara“

Fatastíllinn | 8. nóvember 2024

„Ég held að réttur klæðaburður geti hjálpað fólki til að komast þangað sem það vill fara“

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur er með ólæknandi fatadellu. Hún passar fötin sín eins og gull og lætur stagla í þau þangað til þau eiga ekkert eftir. Hún segist hafa fengið mikinn skvísu-innblástur frá Vigdísi Finnbogadóttur og segir að fataáhugi hafi hjálpað henni að klæða sögupersónur í gegnum tíðina, ekki síst í nýjasta verki sínu, Skálds sögu, en hún hefur þeyst um ritvöllinn í 60 ár.

„Ég held að réttur klæðaburður geti hjálpað fólki til að komast þangað sem það vill fara“

Fatastíllinn | 8. nóvember 2024

Steinunn kynntist Vigdísi Finnbogadóttur þegar hún var unglingur og segir …
Steinunn kynntist Vigdísi Finnbogadóttur þegar hún var unglingur og segir að hún sé stakasta smekkmanneskja. Myndin var tekin í útgáfuboði hjá Steinunni árið 2005. Morgunblaðið/Golli

Stein­unn Sig­urðardótt­ir rit­höf­und­ur er með ólækn­andi fata­dellu. Hún pass­ar föt­in sín eins og gull og læt­ur stagla í þau þangað til þau eiga ekk­ert eft­ir. Hún seg­ist hafa fengið mik­inn skvísu-inn­blást­ur frá Vig­dísi Finn­boga­dótt­ur og seg­ir að fata­áhugi hafi hjálpað henni að klæða sögu­per­són­ur í gegn­um tíðina, ekki síst í nýj­asta verki sínu, Skálds sögu, en hún hef­ur þeyst um rit­völl­inn í 60 ár.

Stein­unn Sig­urðardótt­ir rit­höf­und­ur er með ólækn­andi fata­dellu. Hún pass­ar föt­in sín eins og gull og læt­ur stagla í þau þangað til þau eiga ekk­ert eft­ir. Hún seg­ist hafa fengið mik­inn skvísu-inn­blást­ur frá Vig­dísi Finn­boga­dótt­ur og seg­ir að fata­áhugi hafi hjálpað henni að klæða sögu­per­són­ur í gegn­um tíðina, ekki síst í nýj­asta verki sínu, Skálds sögu, en hún hef­ur þeyst um rit­völl­inn í 60 ár.

„Nú spyrðu mig í þaula, eins og mamma hefði sagt. Ég tek svo lítið eft­ir þessu fæðing­ar­ári mínu, held bara áfram að gera það sem ég hef alltaf gert. Bara leitt ef ár­talið flæk­ist fyr­ir öðrum en mér þegar kem­ur að því að meta verk mín. Al­mennt sýn­ist mér ekk­ert í líf­inu vera eins og maður hugs­an­lega sér það fyr­ir. Svo ég nefni það að missa for­eldri. Al­veg sama hvað viðkom­andi for­eldri væri gam­alt, örvasa, þetta eru stór og sorg­leg kafla­skil fyr­ir af­kvæmið, miklu stærri og meiri en hægt er að gera sér í hug­ar­lund fyr­ir fram. Og þegar bæði eru far­in er af­kvæmið munaðarlaust, sama hvað það er ríg­full­orðið,“ seg­ir Stein­unn spurð að því hvernig það sé að eld­ast, en hún er fædd 1950 og varð 74 ára í ág­úst.

Ætlar þú að skrifa enda­laust?

„Ég hef aldrei ætlað mér neitt á minni skáld­skapar­ævi. Annað en að gera hvert verk úr garði eins vel og ég get, þótt það ætli að gera mig vit­lausa. Ýmis­legt ætlaði ég mér ekki. Ég ætlaði mér til dæm­is ekki að verða skáld út í eitt þótt ég væri orðin þriggja bóka höf­und­ur, eins og ég segi frá í Skálds sögu. Núna ætla ég mér ekki að halda áfram að skrifa, ekk­ert sér­stak­lega, en það bend­ir allt til þess að ég muni gera það samt si­sona, þangað til ég dett um koll, af því að mig lang­ar til þess, af því að það ger­ir lífið þess virði að lifa því.“

Stein­unn hlaut Íslensku bók­mennta­verðlaun­in fyr­ir skáld­sög­una BÓL sem kom út í fyrra, fyrst skrif­andi kvenna til að fá verðlaun­in öðru sinni.

„Mér finnst það vera nokk­urs kon­ar sig­ur fyr­ir okk­ur, ekki bara mig. Í fyrra skiptið var verðlauna­bók­in Hjart­astaður. Þess­ar skáld­sög­ur báðar eiga það sam­eig­in­legt, reynd­ar eins og flest­ar mín­ar, að sögu­hetj­an er kona í kröpp­um dansi. En mig lang­ar til að trúa því að ég hafi á minn hátt lagt af mörk­um til að kort­leggja kven­dóm­inn. Von­andi smá lóð á vog­ar­skál­ar kven­frels­is,“ seg­ir Stein­unn, sem klædd­ist við verðlauna­af­hend­ing­una kím­onó sem keypt­ur var í Tókýó 1993.

Þessi mynd tók Árni Sæberg af Steinunni þegar Tímþjófurinn kom …
Þessi mynd tók Árni Sæ­berg af Stein­unni þegar Tímþjóf­ur­inn kom út 1986. Morg­un­blaðið/Á​rni Sæ­berg

„Ég þurfti að láta lappa upp á kím­onó­inn hér í Sen­l­is, laga saum­sprett­ur,“ seg­ir Stein­unn, sem býr í þess­um franska smá­bæ hluta af ár­inu. „Ég sæki stíft til skradd­ara, svo stíft að það hef­ur komið fyr­ir oft­ar en einu sinni og tvisvar að þeir hafi neitað mér um þjón­ustu þar sem viðkom­andi flík væri of langt geng­in fyr­ir viðgerð. Það er ekki bara af aðsjálni sem ég læt gera við föt­in okk­ar hjóna. Mér finnst gam­an að veita skradd­ar­an­um vinnu og svo spar­ar það tím­ann í búðinni. Ég hef nú orðið tals­vert minna gam­an af því að froðsa í fata­búðum held­ur en hér fyrr meir. Þor­steinn minn er al­gjör­lega frá­bit­inn slík­um stofn­un­um og rifjar upp með hrolli þegar ég nán­ast ýtti hon­um inn í eina út­söl­una hér í Sen­l­is. En þaðan fór hann með fata­bunka á niður­settu verði sem ent­ist svo árum sam­an. Varðandi minn klæðnað er Þor­steinn svo óhepp­inn að hafa mjög glöggt auga fyr­ir því hvað klæðir mig og hvað ekki, þannig að hann hef­ur stund­um þurft að kvelj­ast sem dóm­ari í kven­fata­búðum,“ seg­ir Stein­unn og held­ur áfram:

„Nú, áfram með Bessastaðakím­onó­inn, und­ir hon­um var ég líka í sögu­legri flík, plíseruðum síðkjól sem ég keypti í COS í Strass­borg, þegar ég bjó þar. Svo kom út­sala og ég keypti mér tvo í viðbót fyr­ir kanil, og á nú svona kjól bæði í Frans og á Íslandi. Ég hef notað þá grimmi­lega í mörg ár, bara hent ein­hverju yfir sem mér leist á, peysu, jakka, híalíni. Það er fín strategía að kaupa meira en eitt af því sem maður veit að muni nýt­ast. Spar­ar tíma. Spar­ar pen­inga,“ seg­ir hún.

Varstu lengi að velja þér klæðnað fyr­ir kvöldið?

„Ég hugsaði mig nú um því ég vildi ekki vera Bóli til minnk­un­ar og var sátt þegar mér hafði dottið þessi dýrðar­inn­ar kím­onó í hug. Sem er þar að auki ekki ófrum­leg hug­mynd. Svo höfðu mér áskotn­ast Chanel-eyrna­lokk­ar úr skran­búðinni og ég ákvað að tjalda þeim við þetta hátíðlega tæki­færi.“

Steinunn klæddist japönskum kímonó og kjól úr COS þegar hún …
Stein­unn klædd­ist japönsk­um kím­onó og kjól úr COS þegar hún hlaut Íslensku bók­mennta­verðlaun­in fyrr á þessu ári.

Hið ytra skipt­ir máli

Það er alltaf ákveðinn hóp­ur, svo­lítið há­vær hóp­ur, sem vill alls ekki að það sé verið að tala um klæðaburð fólks þrátt fyr­ir að hann sé stór hluti af leikn­um. Þú hefðir vænt­an­lega ekki mætt í nátt­föt­um á Bessastaði?

„Ég er meðvituð um að hið ytra skipt­ir máli. Ef það koma mynd­ir af manni sem eru ekki í lagi, ef maður er asna­lega til fara, þá fær það at­hygl­ina sem aflaga fer. Tek­ur at­hygl­ina frá aðal­atriðum. Það sem skipt­ir máli fer um leið for­görðum. Þannig lagað eru föt ekki hé­gómi. Það er spurs­mál um lífs­gæði að vera í þægi­leg­um föt­um sem eru pass­lega heit eða köld. Get­ur forðað manni frá lungna­bólgu og sól­sting,“ seg­ir Stein­unn.

Stein­unn seg­ir að það þurfi að tala um fatnað og ját­ar að vera með fata­dellu.

„Sjálf er ég með fata­dellu. Það segi ég bein­lín­is í nýju bók­inni minni Skálds sögu og að það hafi komið sér vel þegar ég er að konstrú­era sögu­per­són­ur. Að geta lýst þeim, líka gegn­um klæðaburðinn. Ég lýsi því til dæm­is í ræm­ur hvaða föt­um Lín­Lín klæðist í sinni ör­laga­ríku ferð aust­ur í Ból, al­veg út­hugsaður klæðnaður hjá henni fyr­ir þenn­an leiðang­ur. Ég þarf að hitta rétt á það hverju sögu­per­són­urn­ar mín­ar klæðast, eft­ir hug­ar­ástandi, árstíðum. Hvað smekk­ur þeirra seg­ir um per­són­una. Varðandi mína fata­dellu get ég bætt því við að hún hef­ur nú ekki hald­ist al­veg konst­ant. Til dæm­is er ég núna kom­in niður á það að nota sömu úti­föt­in meira og minna á viðkom­andi árstíð, það spar­ar um­hugs­un, spar­ar tíma. Að talað sé um hvað föt og skór kosta, þá hef ég ekki at­huga­semd við það. Um leið, þótt ég ætti alla heims­ins pen­inga finnst mér að mér myndi ekki líða vel með að kaupa eitt­hvað utan á mig sem kostaði formúu nema bara að það væri verið að gera mig að for­seta al­heims­ins og ég ætti allt und­ir því að skáka ein­hverj­um keppi­naut­um í glysi og gulli. Ég vona að ég yrði alltaf þannig þenkj­andi að ég myndi þá frek­ar gefa fá­tæk­um af­gang­inn,“ seg­ir hún og ját­ar að hún geti horft á Rear Window eft­ir Hitchcock bara til að sjá unaðsföt­in sem ynd­isþokka­dís­in Grace Kelly klæðist.

Hér er Steinunn í ullarkápu með belti. Myndin var tekin …
Hér er Stein­unn í ull­ar­kápu með belti. Mynd­in var tek­in í kring­um 1980. Morg­un­blaðið/Ó​laf­ur K. Magnús­son

Hvað hríf­ur þig við fal­leg­ar flík­ur?

„Fal­leg flík er lista­verk. Eitt ein­kenn­ir hana sem al­vöru­lista­verk, og það er ná­kvæmni. Flík­in er ná­kvæm­lega út­hugsuð í formi og lit, og frá­gang­ur­inn er óaðfinn­an­leg­ur. Öll smá­atriði smellpassa. Ég vil vera í föt­um sem eru úr góðum efn­um. Nátt­úru­efn­um eins og ull, silki, hör, bóm­ull. Ég not­ast aðeins við gervi­efni þegar ég er að ferðast og þarf að koma fram, og passa að vera ókrumpuð, en það er fer­legt að vera í föt­um úr gervi­efni sem þarf að þvo eft­ir hvert skipti út af svita­lykt,“ seg­ir Stein­unn og nefn­ir að hún þoli ekki lit­leysi, hvort sem það er í fata­vali eða í inn­an­húss­mál­um. „Varðandi svart, þá hef ég átt nokkr­ar úr­vals­flík­ur í þeim lit, en ég er minna og minna fyr­ir að klæða mig í svart. Svo er það húm­or­inn, hann má ekki vanta þegar maður set­ur eitt­hvað utan á sig. Ekki að hafa allt of mikið sam­ræmi, hafa eitt­hvað sem sting­ur í stúf, þó ekki um of kannski.“

Steinunn notaði þessa vínrauðu kápu upp til agna en hún …
Stein­unn notaði þessa vín­rauðu kápu upp til agna en hún var svo dýr að hún þurfti að skipta Visa-greiðsl­un­um í tvennt til að hafa efni á káp­unni, sem þó var á út­sölu. Morg­un­blaðið/​Ein­ar Falur Ing­ólfs­son

Það reyn­ir kannski ekki mikið á það hjá rit­höf­und­um dags­dag­lega hvernig þeir eru til fara en svo koma bók­mennta­hátíðir og kynn­ing­ar á verk­um. Þá þarf höf­und­ur­inn að vera sóma­sam­leg­ur. Hvernig hef­ur þú masterað þetta?

„Það get­ur verið átak að finna sér eitt­hvað rétt til að fara í og því­lík plága að pakka í tösk­una. Ég legg upp úr því að vera í lagi þegar ég kem fram. Sænski út­gef­and­inn minn hafði orð á þessu og hrósaði mér. Var greini­lega pirruð á höf­und­um sem skeyttu ekk­ert um út­gang­inn á sér. Fyr­ir mér fjall­ar þetta um fag­mennsku, að hafa hugs­un á því sem maður er að gera, að skilja hvað maður er að gera. Ef maður mæt­ir úf­inn og krumpaður lít­ur það ekki vel út. Í út­land­inu þá, ekki bara fyr­ir mig, held­ur líka fyr­ir landið mitt. Ég get al­veg viður­kennt það að ég er hald­in ólækn­andi föður­lands­ást og ég vil vera land­inu mínu til sóma þar sem ég get komið því við, ekki bara verk­un­um mín­um. Vig­dís Finn­boga­dótt­ir talaði stund­um á þess­um nót­um, en sjálf er hún stak­asta smekk­mann­eskja. Ég kynnt­ist henni fyrst þegar ég var sex­tán ára að hoppa ut­an­skóla yfir 5. bekk í MR og var hjá henni í frönsku­tím­um á Ara­götu. Hún skar sig úr fyr­ir klæðaburð og fór eig­in leiðir. Ég man til dæm­is vel eft­ir henni á þess­um tíma í app­el­sínu­gulri v-háls­málsullarpeysu við skota­pils og svo var hún í mokkasín­um með lág­um hæl. Ég er nú ekki viss um litagleði hafi verið áber­andi í klæðaburði okk­ar kven­fólks­ins þarna kring­um 1967. Svo fylgd­ist ég náið með henni í for­seta­embætt­inu þegar ég safnaði efni í sann­sög­una Ein á for­seta­vakt 1987-1988. Og aft­ur nokkr­um árum síðar þegar ég gerði heim­ild­ar­mynd fyr­ir sjón­varp um hana. Þetta var auðvitað allt sam­an mik­ill skóli fyr­ir mig, og þá líka hvað smekk­leg­heit í klæðaburði áhrær­ir.“

Steinunn er hér í Meze í Suður-Frakklandi.
Stein­unn er hér í Meze í Suður-Frakklandi. Ljós­mynd/Þ​or­steinn Hauks­son

„Þú get­ur per­for­merað í þessu“

Spurð hvort hún hafi skipu­lagt fata­stíl sinn sér­stak­lega fyr­ir þetta jóla­bóka­flóð kem­ur í ljós að vin­kona veitti hjálp­ar­hönd. „Hlín Agn­ars­dótt­ir vin­kona mín hjálpaði mér að finna flík, sem mér þótti ósenni­leg við fyrstu sýn, þegar ég heim­sótti hana í Upp­söl­um í haust. En hún sagði: „Þú get­ur per­for­merað í þessu.“ Og það gerði ég svo, finnsk eðal­flík, ekki endi­lega hugsuð til sviðsverka reynd­ar en ég hlustaði á smekk­mann­eskj­una. Svo fiskaði ég upp eitt­hvað ónotað og ódýrt glimmer um háls­inn frá upp­á­halds­eyj­unni minni Madeira. Þar hef ég reynd­ar skrifað um­tals­vert, bæði ljóð og kafla úr skáld­sög­um, en til­vilj­un­in sendi okk­ur Þor­stein snemma til þeirr­ar para­dísareyj­ar og þar höf­um við oft leikið okk­ur, hann við tón­smíðarn­ar, ég við ritstörf­in.“

Steinunn hefur fengið góða fataráðgjöf frá vinkonum sínum í gegnum …
Stein­unn hef­ur fengið góða fataráðgjöf frá vin­kon­um sín­um í gegn­um tíðina. Ljós­mynd/Þ​or­steinn Hauks­son

Stein­unn seg­ir frá einu besta tískuráði sem hún hef­ur fengið.

„Að vera í ein­hverju nógu klæðilegu og þægi­legu, ein­hverj­um lit helst, og að vera alltaf í því sama. Að vera alltaf í því sama er lyk­il­atriði sem Mer­ete Ries, fyrsti út­lendi for­leggj­ar­inn minn, í Dan­mörku kenndi mér. Þannig að maður væri frek­ar þekkj­an­leg­ur aft­ur. Það er ótrú­legt hvað vin­kon­ur geta hjálpað manni mikið að kaupa rétt föt, af því að þær sjá mann öðru auga en maður ger­ir sjálf­ur. Þannig til dæm­is var mér smekk­leg vin­kona inn­an­hand­ar við að kaupa úr­vals­föt hjá Mari­mek­ko í Hels­inki, en ég hef átrúnað á Mari­mek­ko, ekki út af merkjasnobbheit­um, held­ur af því að merkið er ein­stakt fyr­ir praktíska og fag­ur­fræðilega hönn­un úr úr­vals­efn­um. Þessi vin­kona fiskaði til dæm­is upp fyr­ir mig túrkís­l­itaðan þunn­an ull­ar­jakka, sem mér hefði aldrei dottið í hug að kaupa upp á mitt ein­dæmi. Ég tróð oft upp í hon­um, tók slíku ást­fóstri við hann að ég gat ekki skilið við hann þegar hann fór að fella af, held­ur lét lita hann dökk­blá­an og hann hang­ir nú þannig á mínu herðatré. Þrjá­tíu árum síðar eða svo. Hún fann líka út fyr­ir mig of­ur­flotta svarta silki­dragt frá Mari­mek­ko, með síðum jakka, kraga­laus­um, sem ég klædd­ist svo í ná­vígi við Gúst­af Ad­olf Sví­a­kon­ung þegar ég var að lesa upp í þröng­um kreðs í Stokk­hólmi. Ég hafði átrúnað á Mari­mek­ko frá upp­hafi, átti að minnsta kosti tvo kjóla sem ég lét sauma, fyr­ir 1970. Ég er í öðrum þeirra á mynd­inni frá Sí­fellu­tím­an­um 1969, sem er aft­an á káp­unni á Skálds sögu. Mjög fal­legt efni í blágræn­um sjatter­ing­um en mynd­in er svart­hvít. Sem bet­ur fer geymdi ég hinn Mari­mek­ko-kjól­inn frá þess­um tíma. Í rauðum sjatter­ing­um. Svo að ég hef þá ekki verið frá­bit­in litagleði, á þess­um tím­um sem mig minn­ir að hafi verið frem­ur drunga­leg­ir hvað kven­föt varðaði.“

Á leið til Fanö að heimsækja Mette Fanö þýðandavinkonu.
Á leið til Fanö að heim­sækja Mette Fanö þýðanda­vin­konu. Ljós­mynd/Þ​or­steinn Hauks­son

Og rit­höf­und­ur er alltaf að skoða fólk, lýsa fólki, lýsa klæðaburði og lykt. Hvernig set­ur þú þig inn í þetta? Hvernig skoðar þú fólk?

„Ég held að ég hafi nokkuð næmt auga. En hvort ég er alltaf að skoða fólk, það er ég ekki viss um. Ég held að tré og hús og lands­lag stimplist enn meira inn hjá mér. Það er svo sniðugt að þegar þú spyrð núna kann­ast ég ekki við að hafa klætt fólkið mitt í föt sem ég sá úti á götu. Ég get svarið að ég held ég hanni skáld­sögu­föt­in sjálf. Það væri þá í stíl við það að ég nota ekki neitt sér­stakt út­lit sem ég kann­ast við á per­són­urn­ar mín­ar. Eins og ég lýsi í Skálds sögu á ég ekki fyr­ir­mynd­ir að þeim á neinn hátt, held­ur ekki á þessu ytra plani. Þær koma upp úr ein­hverju djúpi sem ég þekki ekki sjálf,“ seg­ir hún.

Þorsteinn og Steinunn eru hér á eyjunni Madeira í Portúgal.
Þor­steinn og Stein­unn eru hér á eyj­unni Madeira í Portúgal. Ljós­mynd/​Aðsend

Átt þú upp­á­halds­flík?

„Ég átti það, kannski í tutt­ugu ár eða meir. Þetta var kápa sem ég sá fyrst í glugga á Lauga­veg­in­um, lík­lega hét búðin Eros. Ég heillaðist af henni en hún var alltof alltof dýr. Ég hugsaði með mér, ókei, það hef­ur eng­inn vit á að kaupa þessa kápu, hún bíður bara. Svo gleymdi ég henni, en kannski hálfu ári seinna var kom­in út­sala. Ég fór inn og viti menn, káp­an beið eft­ir mér, kom­in á hálf­virði. Ennþá alltof dýr samt. Ég festi kaup á henni með því að skipta vís­anu í tvennt. Þetta var hettukápa úr alpaca-ull, smá­loðin. Í dá­sam­leg­um djúp­fjólu­blá­um lit, kannski aðeins út í brúnt. Í þess­um lang­tíma­föru­naut var ég alltaf fín og varð aldrei kalt. Svo tók loks­ins aðeins að trosna kring­um töl­ur, og komu saum­sprett­ur á fóður. Ég var staðráðin í að end­ur­lífga káp­una en lét hana hana samt dumma í geymslukjall­ar­an­um okk­ar í Strass­borg. Grann­ar okk­ar þvoðu bíl­inn sinn aðeins inn um þann opna glugga, þannig að hún varð á end­an­um fórn­ar­lamb myglu eins og fleira í geymsl­unni. Þó nokkr­ir kass­ar með enda­laus­um út­prent­un­um og kroti til dæm­is. Ein­ar Falur tók af mér svaka­lega fín­ar mynd­ir þar sem hettukáp­an er í aðal­hlut­verki, og birt­ust oft í Morg­un­blaðinu, lík­lega fyrst kring­um 1995, á Hjart­astaðar­tím­an­um.“

Hér er Steinunn í góðu veðri á Madeira.
Hér er Stein­unn í góðu veðri á Madeira. Ljós­mynd/Þ​or­steinn Hauks­son

Dreym­ir þig um að eign­ast eitt­hvað nýtt í fata­skáp­inn?

„Ég er nú far­in að svip­ast um eft­ir síðri haust- og vetr­ar­kápu sem myndi leysa mína aðal af hólmi. En hún er frá sirka 2005, keypt í Mont­p­ellier. Al­veg óupp­s­lít­an­leg. Ég ef­ast um að hún sé sér­stak­lega fal­leg en von­andi ekki ljót held­ur.“

Stein­unn er af­skap­lega höll und­ir síða kjóla eins og hún orðar það sjálf.

„Síðir kjól­ar finnst mér eitt­hvað það klæðileg­asta sem kon­ur geta sett utan á sig. Þetta eru ekki bara leif­ar af mín­um hippa­tíma, þegar ég lærði að meta þæg­ind­in við það að vera í síðum kjól. Ég hef séð nógu mörg dæmi um kon­ur sem taka sig ekki sér­lega vel út í bux­um og jakka en eru stór­glæsi­leg­ar í síðum kjól. Þar á meðal er eitt upp­á­hald, Ang­ela Merkel. Þegar hún var kom­in í græna síða flegna silkikjól­inni á óperu­hátíðinni í Bayr­euth birt­ist önn­ur kona og miklu glæsi­legri en hvers­dags Merkel. Af hverju ætti kona og þess vegna stjórn­mála­kona ekki að geta verið í síðum kjól dagligdags? Gagn­vart buxna­drögt­um hef ég bein­lín­is for­dóma. Ég má full­yrða að ég hafi aldrei átt buxna­dragt. Vin­kona mín ein sem var lengi í áhrifa­stöðu úti í lönd­um tal­ar um „jakkafa­ta­kon­ur“. Held að hún hafi sjálf verið ein af þeim á sín­um tíma. Þetta er eins og kon­ur séu að herma eft­ir jakka­föt­um karl­anna, það bæt­ir ekki mikið úr skák þótt þær séu komn­ar í ókarla­leg­an lit eins og bleikt. Mér finnst buxna­dragt­ir klæða fáar kon­ur, nema þær séu álíka í lag­inu og kall. Mér finnst þó Kamala Harris kom­ast upp með þetta, í und­an­tekn­ing­ar­til­felli. Eitt­hvað það ósmekk­leg­asta sem ég veit eru buxna­pils. Svo náði ég aldrei fídusn­um í stutt­bux­un­um sem voru í tísku á tíma­bili hér í fyrnd­inni og hefði ekki látið sjá mig dauða ná­lægt þeim – eins og maður­inn sagði,“ seg­ir hún og bros­ir og held­ur áfram:

„Þá hef ég al­gjöra for­dóma gagn­vart útvíðum bux­um og víðum buxna­skálm­um yf­ir­leitt. Sé bara ekk­ert ljót­ara. Mér finnst að fólk eigi að vara sig veru­lega á tískutrend­um sem geta orðið bein­lín­is af­kára­leg. Og und­ir hæl­inn lagt hvort trendið klæðir viðkom­andi kropp. En það verður þó að telj­ast aðal­atriði.“

Steinunn Sigurðardóttir og Þorsteinn Hauksson kynntust þegar þau voru bæði …
Stein­unn Sig­urðardótt­ir og Þor­steinn Hauks­son kynnt­ust þegar þau voru bæði í kring­um fer­tugt.

Finnst þér að fólk ætti að nýta klæðaburð bet­ur og huga meira að hon­um?

„Ég held að rétt­ur klæðaburður geti hjálpað fólki til að kom­ast þangað sem það vill fara í vinn­unni, í líf­inu. Svo það er nú ekki bein­lín­is auka­atriði. Hvað fata­stefn­una al­mennt varðar vil ég gjarn­an huga meira og meira að því að kaupa notuð föt. Er ný­bú­in að kaupa spari­lega síða svarta hettukápu á 3.000 krón­ur í Rauða kross­in­um í Mjódd. Ég á vin­konu sem er prinsipp­föst hug­sjóna­mann­eskja, kaup­ir bara notuð föt og er alltaf stór­glæsi­leg til fara. Þetta er svo vel til fundið á okk­ar tím­um þegar alls kon­ar neyslu­sóun er eitt af því sem er að steypa heim­in­um í glöt­un. Það fylg­ir því góð til­finn­ing finnst mér að kaupa notað, yf­ir­leitt. Mest­allt leirtauið okk­ar Þor­steins í út­land­inu og flest vínglös­in er til dæm­is úr skran­búðum og mörkuðum. Eitt af mörgu sem ég held að sé niður­lægj­andi við fá­tækt er að geta ekki verið sæmi­lega til fara. En nú er orðið auðveld­ara en var að nálg­ast notuð föt á góðu verði og ég vona að það hjálpi ekki síst þeim sem berj­ast í bökk­um. Varðandi smekk­leg­heit get ég al­veg viður­kennt að ég er viðkvæm fyr­ir því að sjá konu í föt­um sem klæða hana áber­andi illa, þótt mér komi kon­an ekki við. Ég tek síður eft­ir því með karl­menn. En ég get ekki var­ist þeirri hugs­un að kon­unni gæti vegnað bet­ur ef hún hefði meiri hugs­un á klæðnaðinum. Sjálf er ég þakk­lát fyr­ir að eiga vin­kon­ur sem leiðrétta mig, hvort sem það er á fata­sviðinu eða öðru sviði. Einu sinni kom ég til dæm­is fram í sjón­varpi í bux­um sem vin­kona dæmdi ljót­ar og bað mig um að leggja þær frá mér. Ég gerði það snar­lega, fór ekki í þær aft­ur.“

Steinunn með bláa hanska og bláa alpahúfu í Frakklandi.
Stein­unn með bláa hanska og bláa alpa­húfu í Frakklandi. Ljós­mynd/Þ​or­steinn Hauks­son
Með Tómasi Böhm eftir upplesturinn í Hamborg.
Með Tóm­asi Böhm eft­ir upp­lest­ur­inn í Ham­borg. Ljós­mynd/​Aðsend
mbl.is