Fréttaskýring: Hin fjölmörgu vandamál Þýskalands

Fréttaskýringar | 16. nóvember 2024

Hin fjölmörgu vandamál Þýskalands

Ásgeir Ingvars­son kaf­ar ofan í frétt­ir af er­lend­um vett­vangi í ViðskiptaMogg­an­um á miðviku­dög­um.

Hin fjölmörgu vandamál Þýskalands

Fréttaskýringar | 16. nóvember 2024

Erfitt er að spá fyrir um hvernig kosningarnar í febrúar …
Erfitt er að spá fyrir um hvernig kosningarnar í febrúar fara en mörgum þykir líklegast að Scholz sé á leiðinni út. AFP/Ralf Hirschberger

Ásgeir Ingvars­son kaf­ar ofan í frétt­ir af er­lend­um vett­vangi í ViðskiptaMogg­an­um á miðviku­dög­um.

Ásgeir Ingvars­son kaf­ar ofan í frétt­ir af er­lend­um vett­vangi í ViðskiptaMogg­an­um á miðviku­dög­um.

Fyrir nokkrum árum skoðaði ég af fullri alvöru þann möguleika að setjast að í Þýskalandi.

Ég er svolítið þýskur inn við beinið (ófélagslyndur, alvörugefinn og bara hársbreidd frá því að vera á einhverfurófinu) og hef agalega gaman af bæði há- og lágmenningu Þýskalands. Fátt þykir mér líka betra en að spana eftir þýsku hraðbrautunum, og strudel gæti ég borðað í hvert mál.

Ekki þurfti samt mikla rannsóknarvinnu til að leiða í ljós að það væri lítið vit í því fyrir mig að flytja til Þýskalands. Þar þarf að greiða allt of mikið í skatta og skyldugreiðslur, dýrt að búa í stórborgunum og allt of mikið flækjustig á einföldustu hlutum. Þess utan getur hið daglega líf í Þýskalandi orðið svolítið litlaust: söfnin eru fögur og listasenan í blóma en göturnar eru auðar á daginn því allir eru svo önnum kafnir við að vinna, og ekkert sem heitir að slæpast og fíflast.

Svona kaldranalegum borgarísjökum eins og mér er miklu hollara að vera sunnar í álfunni innan um lífsglaðara og óábyrgara fólk sem er laust við þessa djúpstæðu þýsku þörf fyrir að setja reglur um stórt og smátt og fylgja þeim öllum upp á hár.

Hagkerfið siglir í strand

Þjóðverjar eru auðvitað í algjörum sérflokki þegar kemur að reglum og skriffinnsku, og greip frjálshyggjuhugveitan INSM til þess ráðs í sumar að vekja fólk til umhugsunar með því að opna í Berlín lítið safn helgað þýsku skrifræði.

Þar gátu gestir m.a. gengið í gegnum risastóran trjástofn sem holaður hafði verið að innan, til að tákna þau 52 fullvöxnu tré sem þarf að fella hvern einasta dag til að fullnægja pappírsþörf þýska skrifræðisins. Þar mátti líka finna verk tileinkað faxtækjunum sem enn eru í mikilli notkun á skrifstofum hins opinbera í Þýskalandi; og biðstofu tileinkaða þeim ótalmörgu klukkustundum sem fara í vaskinn þegar Þjóðverjar þurfa að sækja hvers kyns skírteini og skilríki til hins opinbera, en slíkum erindum verður fólk að sinna í eigin persónu og hefur það verið mælt að hver heimsókn taki að jafnaði 2 klst. og 21 mínútu.

Er það þó frekar léttvægt þegar haft er í huga að áætlað er að í hverri einustu viku þurfi hið dæmigerða litla og meðalstóra þýska fyrirtæki að verja að jafnaði 13 vinnustundum í pappírsvinnu.

Tilraunir til að laga ástandið hafa engan árangur borið enda hefur stjórnsýslan lítinn áhuga á að breytast og enn minni áhuga á að létta landsmönnum lífið, en sérfræðingar fullyrða að sá skortur á þjónustulund og liðlegheitum sem einkennir starfslið þýskra ríkisstofnana eigi sér sögulegar rætur sem nái allt aftur til tíma Prússlands.

Lesendur geta rétt ímyndað sér hversu fráhrindandi svona umhverfi er fyrir frumkvöðla og erlenda fjárfestingu. Með hverju árinu hefur regluverkið orðið flóknara; ekki lækka skattarnir og ekki fækkar byrðunum og segir INSM að í meira en helmingi tilvika nefni fjárfestar skrifræðið eitt og sér sem ástæðu til að beina fjármagni sínu eitthvað annað.

Það eru ekki bara sprotarnir og smáfyrirtækin sem eru að sligast því á dögunum tilkynnti Volkswagen – kjölfesta þýska hagkerfisins – að fyrirtækið mundi neyðast til að loka að minnsta kosti þremur verksmiðjum í Þýskalandi, segja upp tugum þúsunda starfsmanna og lækka launin á alla línuna um 10%. Það hefur gengið á ýmsu í 87 ára sögu Volkswagen en aldrei fyrr hefur félagið þurft að leggja niður verksmiðju í Þýskalandi.

Eins og lesendur vita eru þýsk verkalýðsfélög hörð í horn að taka og má búast við verkfallsaðgerðum og alls konar leiðindum á komandi mánuðum en raunin er að Volkswagen er í vanda statt og þýsku starfsstöðvarnar svo dýrar í rekstri að það þyrfti að lækka rekstrarkostnað sumra þeirra um helming til að standa jafnfætis keppinautum VW, m.a. vegna þess hvað launakostnaður í Þýskalandi er hár og orkan dýr.

Frelsi eða fjárútlát

Horfurnar eru ekki góðar og í síðustu viku sauð loksins upp úr hjá stjórnarmeirihlutanum sem Olaf Scholz hefur stýrt frá árinu 2021 þegar hann leiddi saman Jafnaðarmannaflokkinn (SDP), Frjálsa demókrataflokkinn (FDP) og Græningja. Harðar deilur um fjárlög næsta árs urðu til þess að Scholz rak Christian Lindner, formann FDP, úr embætti fjármálaráðherra og er núna útlit fyrir að kosningar verði haldnar snemma á næsta ári.

Það gerði útslagið að einhver lak til fjölmiðla 18 síðna plaggi með hugmyndum FDP um efnahagsaðgerðir til að koma Þýskalandi á rétta braut. Hugmyndir Scholz um fjárlög næsta árs snúast um að örva hagkerfið með því að auka ríkisútgjöld allhressilega, og vill hann keyra í gegn breytingu á lögum sem sett voru í tíð Merkel árið 2009 og meina stjórnvöldum að reka ríkissjóð með halla sem nemur meira en 0,35% af landsframleiðslu. Bandamenn Scholz segja hagkerfið þurfa á innspýtingunni að halda, brýnt sé að fjárfesta í ýmsum innviðum þjóðfélagsins og skuldsetning ríkissjóðs og fjárlagahalli Þýskalands sé miklu minni en hjá hinum stóru hagkerfunum.

Lindner og félagar hans í FDP vilja hins vegar koma hjólum hagkerfisins af stað með því að lækka skatta, minnka reglufarganið, auka frelsið, lækka lífeyrisgreiðslur og láta skynsemina ráða för í umhverfis- og orkumálum. FDP þykir ástandið ekki leyfa að Þýskaland sé úr hófi fram metnaðarfullt í orkuskiptum og minnkun útblásturs, og flokkurinn vill losna við mikið af þeim hluta evrópska loftslagsregluverksins sem íþyngir þýskum fyrirtækjum með alls kyns kröfum um mælingar og skýrslugerð og öðrum skyldum.

Greinendum þykir plagg FDP minna á pólitíska stefnuskrá frekar en vinnuskjal og ekki erfitt að ímynda sér að Lindner hafi séð sér þann kost vænstan að koma flokki sínum út úr stjórnarsamstarfinu og knýja fram kosningar. Kosningar áttu hvort eð er að fara fram næsta haust og um allan heim hafa kjósendur verið að gefa stjórnarflokkum rauða spjaldið vegna verðbólgu og ládeyðu í efnahagslífinu og er þá allt eins gott að leyfa Scholz og Græningjunum að svara fyrir frammistöðuna síðustu fjögur árin en tefla fram FDP sem valkosti fyrir þá sem vilja eitthvað annað og betra.

Röð meiriháttar vandamála

Úti við sjóndeildarhringinn hrannast upp óveðursský.

Þýsk stjórnvöld byggðu upp efnahagsmódel sem byggðist að stórum hluta á að sækja inn á Kínamarkað og kaupa ódýra orku frá Rússlandi. Nú hefur Kína tekist að fá alþjóðasamfélagið upp á móti sér og hefur um leið tekist að byggja upp kröftugan rafbílaiðnað sem ógnar þýsku bílarisunum. Þá hafa Rússarnir málað sig út í horn og jafnvel ef tekst að stilla til friðar í Úkraínu verður þess langt að bíða að ódýrt rússneskt eldsneyti fái að flæða aftur inn í Evrópu í því magni sem þýsku iðnfyrirtækin þurfa á að halda.

Þýskir kjósendur virðast vera orðnir opnari fyrir því að hugsa orkumálin upp á nýtt og jafnvel ræsa aftur sum af þeim kjarnorkuverum sem slökkt var á, en eins og lesendur muna fóru Þjóðverjar á taugum í kjölfar Fukushima-slyssins árið 2011 og létu stjórnvöld strax loka öllum kjarnorkuverum sem byggð höfðu verið fyrir 1980. Þremur til viðbótar var lokað 2021 en síðustu þremur skellt í lás vorið 2023, og var það gert þrátt fyrir að leitun sé að grænni, hreinni, öruggari og hagkvæmari leið til að framleiða orku.

Þá er aldurssamsetning samfélagsins löngu orðin ósjálfbær og fæðingartíðni langt undir endurnýjunarmörkum. Risastórir árgangar áranna 1955 til 1969 eru núna að komast á lífeyrisaldur og erfitt að sjá hvernig á að takast að fjármagna lífeyrisgreiðslur þeirra. Hingað til hefur tekist að halda kerfinu gangandi með miklu innstreymi innflytjenda en þökk sé batnandi hagsæld annars staðar í álfunni geta þýsk fyrirtæki ekki lengur stólað á að ryksuga til sín ungt og vel menntað fólk frá öðrum Evrópulöndum til að manna lausar stöður og fjármagna velferðarkerfið með sköttunum sínum.

Sigur Trumps í forsetakosningunum vestanhafs eykur síðan enn meira á raunir Þýskalands en Trump hefur hótað að leggja verndartolla á allan innflutning og kæmi það alveg sérstaklega illa við útflutningsdrifin hagkerfi eins og það þýska, en viðskipti við Bandaríkin mynda um 10% af útflutningstekjum Þýskalands. Á móti hafa greinendur bent á að Trump væri líklegur til að vilja koma á hagstæðum langtímasamningum um að selja Þýskalandi og öðrum Evrópulöndum kynstrin öll af jarðefnaeldsneyti ef evrópsk stjórnvöld fengjust til að endurskoða áherslur sínar í orkumálum og ná meiri jarðtengingu í þeim málaflokki.

Grein­in birt­ist í ViðskiptaMogg­an­um sl. miðviku­dag.

mbl.is