Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og öðrum frambjóðendum Miðflokksins var gert að yfirgefa Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA) eftir að hafa krotað á varning annarra flokka, að sögn skólastjóra skólans.
Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og öðrum frambjóðendum Miðflokksins var gert að yfirgefa Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA) eftir að hafa krotað á varning annarra flokka, að sögn skólastjóra skólans.
Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og öðrum frambjóðendum Miðflokksins var gert að yfirgefa Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA) eftir að hafa krotað á varning annarra flokka, að sögn skólastjóra skólans.
Sigmundur segir aftur á móti að enginn starfsmaður skólans hafi vísað honum á dyr og telur að um pólitískan ásetning sé að ræða.
„Formaðurinn [Sigmundur] sat þarna í hópi með nokkrum ólögráða nemendum og okkur fannst þetta nú ekki vera til fyrirmyndar og báðum þau um að fara. Þetta væri orðið gott,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is en Vísir ræddi fyrst við hana um málið.
Sigmundur skrifaði í kjölfarið færslu á Facebook:
„Ég ræddi ekki við kennara og ekki við skólastjórann (og Samfylkingaraktívistann) sem lét hafa ýmislegt eftir sér í frétt á Vísi. Hvorki hún né nokkur annar starfsmaður báðu mig að fara út,“ segir Sigmundur.
Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, var í 21. sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningar á Akureyri árið 2022.
Hún kom einnig inn sem aðalfulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarráði Akureyrarbæjar árið 2016 í stað Loga Más Einarssonar.
Sigríður segir í samtali við mbl.is að aðstoðarskólameistarinn hafi rætt við hina frambjóðendurna sem voru með Sigmundi í för, en ekki Sigmund beint.
Í morgun var framboðsfundur í skólanum þar sem nemendur fengu að spyrja frambjóðendurna spurninga.
Eftir klukkan 14 mætti svo Sigmundur aftur í VMA, að sögn Sigríðar, ásamt Þorgrími Sigmundssyni, sem skipar annað sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi, og Ágústu Ágústsdóttur sem skipar þriðja sæti.
Þau voru í alrýminu, en VMA hefur almennt leyft fólki að vera þar. Sigmundur ræddi við mbl.is um málsatvik:
„Þangað til þetta kom [viðtal Vísis við skólameistarann] þá var ég bara himinlifandi með þessa heimsókn þarna í VMA. Ég hef sjaldan fengið eins góðar móttökur. Jú, þetta er ungt fólk og menn vildu sprella,“ segir hann og heldur áfram:
„Komu með hugmyndir um hvernig mætti laga kosningaáróður annarra, það var skorað á mig í sjómann, það var rætt um heilbrigðiskerfið, tollamál og allt mögulegt. En ég varð ekki var við nein leiðindi. Ég veit ekki hvaða samtöl áttu sér einhvers staðar en ég talaði ekki við nokkurn einasta kennara eða þennan skólastjóra.“
Sigríður kveðst hafa rætt við Þorgrím og segir að hún hafi tjáð honum að skólastjórnendur hefðu viljað fá að vita af heimsókninni fyrir fram og bað frambjóðendurna um að fara ekki á aðra staði í skólanum en alrýmið.
„Þá fóru þau strax að tala um fundinn sem var í morgun, sem sagt framboðsfundinn, og fannst að nemendur hefðu verið með ómálefnalegar spurningar og þau hefðu verið dónaleg,“ segir Sigríður og bætir við að hún og aðrir sem hún ræddi við taki ekki undir það að börnin hafi verið dónaleg eða spurt ómálefnalegra spurninga.
Inga Dís Sigurðardóttir, sem skipar 4. sæti á lista, var fulltrúi Miðflokksins á fundinum.
Sigmundur segir á facebook að hann hafi keypt sér samloku og um leið og hann hafi verið búinn að setja hana í grillið hafi hressir og kátir nemendur heilsað upp á.
„Hreint stórkostlegar móttökur! Sumir vildu taka myndir, aðrir ræða stjórnmál og enn aðrir báðu mig, samkvæmt leiðsögn, að skreyta kosningavarning sem þeir komu með til mín,“ skrifar hann og bætir við:
„Ætli ég hafi ekki hitt hátt í 100 nemendur sem allir voru hressir (enda eru heimsóknir í VMA alltaf skemmtilegar).“
Spurð hvort að þetta sé ekki niðurlægjandi framkoma gagnvart Sigmundi og hvernig farið var að því að vísa honum á dyr segir Sigríður:
„Ég var ekki sjálf á staðnum, ég var nýfarin út úr rýminu, þegar aðstoðarskólameistari sér þetta og biður þau um að fara – þetta sé komið nóg. Þetta sé ekki málefnalegt hjá þeim að vera að krota á varning annarra framboða og svo bara fóru þau,“ segir Sigríður.
Hvernig brugðust þau við?
„Þau bara fóru. Ég held að það hafi reyndar þurft að segja þeim það oftar en einu sinni, en þau fóru. Samtalið var ekki beint við formann flokksins heldur þau sem voru þarna með honum og það voru þau sem sögðu við hann að þau skyldu fara. Það voru ekki leiðindi eða læti eða eitthvað svoleiðis,“ svarar hún.
Í samtali við mbl.is er Sigmundur spurður hvort hann telji að pólitískur ásetningur sé að baki orðum skólastjórans:
„Já, ég held að það hafi verið pólitískur ásetningur á bak við þetta. Því lýsingin í þessari frétt og þessi frábæra stund sem ég átti þarna óvænt í morgun eru bara sitt hvor heimurinn. Þannig að ég get ekki dregið aðra ályktun,“ segir Sigmundur.