„Nú þarf bara að taka einn dag í einu“

Börn og uppeldi | 21. nóvember 2024

„Nú þarf bara að taka einn dag í einu“

„Ég ákvað að taka þátt í baráttunni með kennurum en finn það að ég er búin að gera það sem ég get og þarf núna bara aðeins að fá að hlúa að sjálfri mér og börnunum,“ segir söng- og leikkonan Salka Sól Eyfeld í samtali við Smartland. Hún er stödd í Hörpu að æfa fyrir þrenna tónleika með Helga Björns sem verða nú um helgina.

„Nú þarf bara að taka einn dag í einu“

Börn og uppeldi | 21. nóvember 2024

Þrátt fyrir allt lítur Salka á jákvæðu hliðar verkfallsins, m.a. …
Þrátt fyrir allt lítur Salka á jákvæðu hliðar verkfallsins, m.a. að geta varið meiri tíma með börnunum sínum. Ljósmynd/Aðsend

„Ég ákvað að taka þátt í baráttunni með kennurum en finn það að ég er búin að gera það sem ég get og þarf núna bara aðeins að fá að hlúa að sjálfri mér og börnunum,“ segir söng- og leikkonan Salka Sól Eyfeld í samtali við Smartland. Hún er stödd í Hörpu að æfa fyrir þrenna tónleika með Helga Björns sem verða nú um helgina.

„Ég ákvað að taka þátt í baráttunni með kennurum en finn það að ég er búin að gera það sem ég get og þarf núna bara aðeins að fá að hlúa að sjálfri mér og börnunum,“ segir söng- og leikkonan Salka Sól Eyfeld í samtali við Smartland. Hún er stödd í Hörpu að æfa fyrir þrenna tónleika með Helga Björns sem verða nú um helgina.

Salka og maðurinn hennar, Arnar Freyr Frostason, eru meðal foreldra þeirra barna á leikskólum og í skólum sem nú eru í verkfalli, sem hefur varað í um fjórar vikur. Börn Sölku og Arnars eru tveggja og fjögurra ára og eru á leikskólanum Drafnarsteini í Reykjavík.

Jólavertíðin framundan og nóg að gera

Nú er að fara í gang svokölluð jólavertíð tónlistarmanna og segir Salka að hún muni syngja á um þrjátíu tónleikum á næstu 25 dögum. Auk tónleikanna með Helga Björns tekur Salka þátt í sýningunni Vitringarnir þrír ásamt Friðriki Ómari, Eyþóri Inga, Jógvan, Regínu Ósk og Selmu Björns. Þá syngur hún einnig á tvennum fjölskyldutónleikum með Stórsveit Reykjavíkur þann 1. desember.

Álagið er því mikið og æfingar eru daglega. „Þar sem ég er sjálfstætt starfandi listamaður get ég stýrt mörgu en samt ekki öllu. Á jólavertíðinni eru tónlistaræfingar alla daga og ég verð bara að mæta, það er ekkert annað hægt,“ segir hún og bætir við að staðan geti á köflum verið ansi snúin.

Arnar starfar í dagvinnu hjá STEF og hafa þau reynt að skipta með sér að vera heima með börnin en þá þarf hann að taka sér launalaust frí eða klippa af sumarfríinu sínu.

„Ég er í alls konar verkefnum og með egg í mörgum körfum. Sumu þarf ég einfaldlega að sleppa og annað er í algerri pattstöðu, sem er ógeðslega erfitt líka því mér finnst rosa gott að vera í flæði í mínum verkefnum.“

Salka Sól og Arnar Freyr ásamt börnunum sínum í sumarblíðu.
Salka Sól og Arnar Freyr ásamt börnunum sínum í sumarblíðu. Ljósmynd/Aðsend

Tekjutap og kvíðavaldandi aðstæður

Tengdamóðir Sölku flutti til þeirra, að norðan, síðastliðinn mánudag og býr nú á heimilinu til að hlaupa undir bagga með þeim. Salka segir foreldra sína geta verið með börnin á föstudögum og þá sé verkefnunum raðað niður á föstudagana sem eru pakkaðir. Verkefni sem Salka dreifði áður yfir vikuna.

„Það fer enginn tími í neitt annað.“

Það þarfnast ákveðins skipulags að velja úr verkefnum og bitnar það einnig á heimilistekjunum þegar verkefnum er sleppt. „Nú þarf bara að taka einn dag í einu.“

Salka segir þau finna fyrir tekjutapi og að helst sé það óvissan um hvenær verkfallið taki enda sem sé kvíðavaldandi. Hún bætir við að aðstæður geti vissulega verið verri hjá öðrum í sömu stöðu og nefnir dæmi um þá foreldra sem ekki eru með íslensku sem fyrsta mál og eiga þar með að erfiðara að átta sig á hlutunum og skilja kannski ekki allan fréttaflutning. Þeir foreldrar hafi jafnvel ekkert bakland sem hleypur í skarðið.

Enn aðrir fá ekki frí úr vinnu en eiga erfitt með að taka börnin með í vinnuna, sem getur skapað ákveðna togstreitu og ýmis vandamál hjá fólki.

Þau Arnar höfðu planað fjölskylduferð til útlanda í febrúar en hafa þurft að hætta við þá ferð þar sem Arnar getur ekki tekið meira frí með góðri samvisku sökum verkfallsins.

Allir láti verkfallið sig varða

Salka hvetur alla foreldra til að láta sig kjarabaráttu kennara varða þótt aðeins lítill hluti foreldra beri hitann og þungann af verkfallinu.

„Ég hef ekkert fullan skilning á allri kjarabaráttu en það sem ég veit er að fólkið sem hugsar um börnin mín kaus það að fara í verkfall og ég styð það,” segir Salka, en þrátt fyrir að einungis hluti barna komist ekki í skóla og leikskóla þá eigi baráttan að snerta alla foreldra.

Til að halda dampi segist hún að öðru leyti hafa lagt þá hugsun til hliðar um hve óvanalegar verkfallsaðgerðirnar eru og segist ekki ætla að velta sér meira upp úr því.

„Ég vona bara að það þurfi ekki að grípa til frekari verkfallsaðgerða því þetta er ógeðslega erfitt.“

Salka segir börnunum sínum líða vel í leikskólanum og að …
Salka segir börnunum sínum líða vel í leikskólanum og að í verkfallinu biðji þau um leikskólasögur á kvöldin. Ljósmynd/Aðsend

Leikskólasögur á kvöldin

Salka segist finna mikinn mun á börnunum sínum, sem þykir svo gaman í leikskólanum. Það sé einnig erfitt að útskýra fyrir þeim af hverju þau fái ekki að fara á leikskólann.

Foreldrar barna á Drafnarsteini hafa tekið sig saman og skipulagt söngstundir á bókasafninu og aðra samveru. Þeir fengu sal lánaðan á elliheimilinu við Aflagranda þar sem fólk hittist með börnin í söng og leik. En þrátt fyrir létta stund sé vel hægt að finna fyrir að foreldrar séu sorgmæddir yfir stöðunni.

Á kvöldin segir Salka börnunum sínum sögur af leikskólanum því þau óska eftir því.

Mest krefjandi hluti verkfallsins í augum Sölku er hve tíminn er langur fyrir svo lítil kríli. Það sé einnig mikið sem börnin fái í gegnum skólana og leikskólana sem foreldrar geta ekki kennt, eins og tengslamyndun og vinskap, ásamt annarri fræðslu. Þar læri þau einnig ýmislegt sem venjulegt foreldri hefur ekki endilega kunnáttu í að kenna þeim.

Þrátt fyrir allt segist hún líta á jákvæðu hliðarnar sem eru að fá að verja meiri tíma með börnunum og eins að þau fái gæðastund með ömmu Siggu, afa Hjálmari og ömmu Lóu.

„Við erum heppin að hafa gott fólk í kringum okkur og að við eigum bæði foreldra sem hjálpa.“

mbl.is