„Ég braut loforðið og kyssti hann“

Mamman | 24. nóvember 2024

„Ég braut loforðið og kyssti hann“

Sesselja Borg Snævarr Þórðardóttir var 24 ára gömul þegar hún varð ófrísk að sínu fyrsta barni. Óléttan kom henni algjörlega á óvart en gladdi hana meira en allt annað. Sesselja segir meðgönguna hafa gengið vel þrátt fyrir að hafa upplifað hræðslu til að byrja með. 

„Ég braut loforðið og kyssti hann“

Mamman | 24. nóvember 2024

Sesselja og Arnar ásamt Hrafntinnu Rán.
Sesselja og Arnar ásamt Hrafntinnu Rán. Samsett mynd

Sesselja Borg Snævarr Þórðardóttir var 24 ára gömul þegar hún varð ófrísk að sínu fyrsta barni. Óléttan kom henni algjörlega á óvart en gladdi hana meira en allt annað. Sesselja segir meðgönguna hafa gengið vel þrátt fyrir að hafa upplifað hræðslu til að byrja með. 

Sesselja Borg Snævarr Þórðardóttir var 24 ára gömul þegar hún varð ófrísk að sínu fyrsta barni. Óléttan kom henni algjörlega á óvart en gladdi hana meira en allt annað. Sesselja segir meðgönguna hafa gengið vel þrátt fyrir að hafa upplifað hræðslu til að byrja með. 

Sesselja unir sér vel í móðurhlutverkinu og hefur búið sér til fallegt heimili í Hafnarfirði ásamt Arnari Snæ Þórssyni kærasta sínum og dóttur parsins, henni Hrafntinnu Rán, sem fagnar eins árs afmæli sínu þann 29. nóvember. 

Hvernig kynntist þú maka þínum?

„Við kynntumst í menntaskóla, vorum að vísu ekki í sama skólanum, en hittumst reglulega í partíum og á böllum. Mér fannst Arnar frekar pirrandi í fyrstu en í einu partíi breyttist allt og það var þá sem vinskapurinn breyttist í eitthvað meira. Við byrjuðum saman í byrjun heimsfaraldursins. Í fyrsta samkomubanninu bauð hann mér á stefnumót en móðir mín leyfi mér ekki að fara, kannski ekkert skrýtið. Mér tókst þó einhvern veginn að sannfæra hana og fékk því á endanum leyfi til að hitta hann. Ég mátti þó undir engum kringumstæðum kyssa hann. Ég braut loforðið og kyssti hann. Eftir það varð ekki aftur snúið.“

Hvernig leið þér þegar þú komst að því að þú værir ófrísk?

Mér brá! Við vorum ekki beint að reyna að eignast barn á þessum tíma, enda bæði í háskólanámi, og ég var á getnaðarvörn. Ég var komin tæpar sjö vikur á leið þegar ég komst að því að ég væri ófrísk að dóttur okkar.

Ég var á næturvakt með samstarfskonu minni þegar það kviknaði á ljósaperunni. Hún var að segja mér að hún og sambýlismaður hennar væru á fullu að reyna. Í miðjum samræðum fattaði ég að það voru liðnir tólf dagar frá því að ég átti að byrja á blæðingum. Ég ákvað því að taka óléttupróf og sá strax tvær mjög áberandi línur. 

Þetta var auðvitað mikið sjokk fyrir okkur bæði en Arnar var svo glaður og jákvæður strax frá byrjun. Við fórum í snemmsónar til að fullvissa okkur um að ég væri ófrísk. Við hlýddum á hjartsláttinn og sáum dóttur okkur á skjánum, það var ógleymanlegt augnablik. Ég og Arnar gáfum henni gælunafnið „Trítill“ og kölluðum hana því í gegnum allt meðgöngutímabilið af því að hún leit út eins og lítill hlauptrítill.“

Parið var í skýjunum með tíðindin.
Parið var í skýjunum með tíðindin. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig var að deila gleðitíðindunum? 

„Það var stressandi en ótrúlega gaman. Dóttir okkar er fyrsta barnabarnið í fjölskyldu Arnars og annað í minni fjölskyldu. Það vissu allir í kringum mig að ég yrði ung mamma en fjölskyldur okkar voru ekki endilega að búast við þessum tíðindum akkúrat á þessum tímapunkti. Móðir mín brást mjög skemmtilega við tíðindunum. Ég sýndi henni sónarmynd og hún fattaði í fyrsta ekkert hvað hún var að horfa á. Ég sagði því: „Þetta er barnabarnið þitt“. Hún hoppaði upp af einskærri gleði og sagði: „Ertu ófrísk?“.

Hvernig gekk meðgangan?

„Hún var svolítið upp og niður. Á blaði var hún fullkomlega eðlileg. Ég var hraust og barnið dafnaði vel. Það skorðaði sig snemma og ég fann því fyrir miklum þrýstingi. Ég upplifði svefnörðugleika á síðari hluta meðgöngunnar og á 36. viku fékk ég klemmda taug í hægri mjöðm sem hrjáði mig alveg þar til ég fæddi. Þarna undir lokin var þetta orðið ansi erfitt, ég var illa stödd andlega sökum svefnleysis, fékk aðsvif og var bara komin í hálfgert þrot. Ég var með dásamlega ljósmóður í mæðraverndinni sem hjálpaði mér mikið.“

Með blómstrandi bumbu.
Með blómstrandi bumbu. Ljósmynd/Aðsend

Hvað gerðu fjölskylda og vinir til að hressa þig við?

„Fjölskylda og vinir voru til staðar alveg frá byrjun en ég kaus að halda mig svolítið út af fyrir mig yfir meðgöngutímabilið. Ég nennti ómögulega að hlýða á reynslusögur og ráð. Arnar var stoð mín og stytta í gegnum meðgönguna og var alltaf reiðubúinn að gefa mér knús og hughreysta mig. Mín allra besta vinkona sýndi mér einnig mikinn skilning. Hún fékk heilu hlaðvarpsþættina af, ég vil ekki segja væli, en orðræðum frá mér og hlustaði á hvert orð.

Ef ég verð svo heppin að verða ólétt aftur ætla ég að vera duglegri að heyra í móður minni, hitta vini og vandamenn og biðja fólk um aðstoð. Arnar gantaðist reglulega með það að áður en hann hélt af stað í vinnuna kom hann mér í sófann, þar sem ég gat ómögulega gengið óstudd, og þegar hann kom heim eftir heilan vinnudag var ég á sama stað. Ég var búin að gera mér hreiður í sófanum. Mér fannst erfitt að njóta þess að vera ófrísk, þetta var byrði. Barnið var stórt og ofvirkt, ég hélt stundum að það myndi brjóta í mér rifbeinin. Það hjálpaði ekki að vera með boxara í bumbunni.“

Óléttuljóminn - fannstu fyrir honum?

„Já, svona aðeins. Mér fannst ég voðalega sæt og fín svona fram að 30. viku en eftir það þá fór mér að líða eins og hval. Ég var með stórar varir, andlit eins og tungl í fyllingu og fleira skemmtilegt.“

Sesseelja var með ansi myndarlega kúlu undir lokin.
Sesseelja var með ansi myndarlega kúlu undir lokin. Samsett mynd

Varstu hrædd við að fæða?

„Nei, ég var ekki stressuð né hrædd við neitt. Við Arnar fórum á fæðingarnámskeið til að undirbúa okkur og ég var alltaf með það hugarfar að treysta sérfræðingunum. Við enduðum á að fara í gangsetningu. Í fæðingunni var ég ekki hrædd, það var vel hugsað um okkur. Meðgöngutímabilið og fæðingin er jákvæðasta upplifun mín af íslenska heilbrigðiskerfinu.“

Hvernig gekk fæðingin?

„Dóttir okkar lét alveg bíða eftir sér. Ég var sett 21. nóvember en hún lét ekki sjá sig fyrr en átta dögum síðar. Ég var skráð í gangsetningu 29. nóvember en fékk að heyra að henni yrði seinkað um einn til tvo daga, mér fannst þau skilaboð algjör heimsendir. Ljósmóðirin spurði mig hvernig mér litist á þetta og ég svaraði hreinskilningslega og sagði einfaldlega að mér þætti þetta ömurlegt. Síðan spurði hún hvort það væri ekki allt í góðu lagi með barnið og ég sagði að það færi minna fyrir hreyfingum hjá barninu. Tóninn í henni breyttist snögglega. Hjartað mitt stoppaði. Hún ráðlagði mér að fara í hjartsláttarit upp á kvennadeild, sem ég gerði.

Hjartslátturinn var fínn en það mældust engar hreyfingar hjá barninu. Ég var í ritinu í tæpan hálftíma. Ljósmóðirin reyndi að hreyfa við barninu og kalla fram hreyfingar en ekkert gerðist. Nokkrum mínútum síðar kom fæðingarlæknir og setti mig í sónar. Á þessum tímapunkti var ég orðin vel stressuð og áhyggjufull. Fæðingarlæknirinn skoðaði okkur í bak og fyrir og sá að barnið andaði. Barnið var að drekka legvatn en það sáust engar hreyfingar á útlimum. Það átti að senda okkur heim og fá okkur aftur í rit um kvöldið. Ég var ekki með neina útvíkkun, en reglulega samdrætti. Á þessum tímapunkti voru vaktaskipti á spítalanum og það var þá sem ég rakst á ljósmóður sem ég hafði hitt áður á meðgöngunni og hún las það á okkur hvað við vorum áhyggjufull, ég var með bauga niður fyrir höku, enda alveg ósofin. Ég var hágrátandi á meðan ljósmóðirin ræddi við vaktlækni. Síðan kom deildarlæknir og tilkynnti mér að ég væri á leið í gangsetningu. Léttirinn sem ég upplifði var ólýsanlegur, þrumuskýið hvarf.“

Sesselja komst að kyninu þegar barnið kom í heiminn.
Sesselja komst að kyninu þegar barnið kom í heiminn. Ljósmynd/Aðsend

Hvað tók langan tíma frá gangsetningu og þar til þú byrjaði að rembast?

„Það tók 21 klukkustund. Ég fékk töflur til að koma af stað fæðingu og var búin að taka þrjár þegar legvatnið fór að renna. Á þessum tímapunkti var ég komin með reglulega verki. Þegar ljósmæðurnar könnuðu með útvíkkun var ég bara með 1 cm í útvíkkun. Það var ekkert að gerast. Við vorum flutt inn á fæðingarstofu. Þar var ég sett í rit, ennþá með 1 cm í útvíkkun. Þá var ákveðið að gefa mér morfín svo ég gæti sofnað. Ég fékk morfín og svefntöflur og náði að sofa í fjóra til fimm tíma, sem bjargaði fæðingunni. Síðan vaknaði ég í kringum 17:30 með mikla verki og fékk að prófa glaðloft, sem gladdi mig verulega mikið, en ég fékk aftur að heyra að ég væri með aðeins 1 cm í útvíkkun og þannig var það þar til einum klukkutíma áður en barnið kom í heiminn. Ég fékk dreypi, sem var ekkert sérstaklega þægilegt, og eftir það fóru hríðirnar að verða harðari. Þá fékk ég mænudeyfingu. Það gekk mjög illa að setja hana upp. Hríðirnar voru mjög erfiðar en að þurfa að sitja kyrr á meðan leggurinn var þræddur var einn erfiðasti parturinn af fæðingunni. Eftir þetta fékk ég að hvíla mig en stuttu síðar var ég skoðuð og þá sást í kollinn. Ég var loksins komin með 10 cm í útvíkkun. Ég rembdist í kortér áður en barnið kom í heiminn.“

Hvernig var að fá barnið í fangið?

„Þetta er, eins og allir foreldrar segja, ólýsanleg tilfinning. Algjörlega það besta sem ég hef upplifað. Ég fékk hana á bringuna og hún fór strax að gráta. Þetta var svo mikill tilfinningarússíbani, hlæjandi, brosandi og grátandi til skiptis. Fæðingin gekk vel, Arnar hjálpaði mér mikið. Þetta var ískaldur nóvemberdagur. Þetta var draumi líkast eftir erfiði daganna á undan. Við vorum bara þrjú í rembingnum; ég, Arnar og dásamlega ljósmóðirin okkar. Allt var þetta ótrúlega yfirvegað og falleg stund. Hrafntinna Rán fæddist kl 14:05, alls ekki lítil, hún var 17 merkur og 53 cm. Ég man að ég leit á hana og sagði: „Loksins ertu komin“. Við vissum ekki kynið og ég fékk því að heyra frá Arnari að við hefðum eignast stúlku. Það var dýrmæt stund.“

Litla fjölskyldan.
Litla fjölskyldan. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig stóð makinn þinn sig á hliðarlínunni?

„Hann var ótrúlega duglegur. Hann er svolítið klígjugjarn og ég var búin að undirbúa mig undir að það myndi líða yfir hann í fæðingunni, en svo fór ekki. Ég var mikið búin að skjóta á hann en hann stóð sig svo vel. Yfir meðgöngutímabilið sagðist hann alltaf ekki ætla að horfa á barnið koma út en á deginum gerði hann það og kúgaðist ekki einu sinni. Arnar hjálpaði mikið í rembingnum og það var mjög gott að hafa hann sem „peppara" á hliðarlínunni. Ég hefði ekki getað gert þetta án hans.“

Af hverju vilduð þið ekki vitað kynið fyrir fram?

„Okkur fannst bara spennandi að vita ekki kynið. Það héldu allir að barnið væri strákur, nema ég. Arnar var staðfastur alla meðgönguna um að þetta væri strákur, allt þar til hann fékk stúlkuna okkar í fangið. Í gegnum meðgönguna voru uppi getgátur um kynið og það voru margir sem pældu í stærð og staðsetningu kúlunnar. Það er líka gaman að segja frá því að ljósmæðurnar voru flestar hissa þegar við sögðum þeim að við vissum ekki kyn barnsins, enda eru flestir með þær upplýsingar og kjósa að greina frá kyninu með ýmsum ævintýralegum leiðum.“

Hrafntinna Rán er glaðlynd ung stúlka.
Hrafntinna Rán er glaðlynd ung stúlka. Ljósmynd/Dagbjört Kristín

Hvernig voru fyrstu vikurnar?

„Þær voru dásamlegar. Hún fæddist í lok nóvember, það var að detta í aðventu. Þetta var rosaleg breyting en dásamleg breyting. Hún var mjög þægileg, svaf vel fyrstu vikurnar, en það erfiðasta var að ég missti mikið blóð í fæðingunni, í kringum tvo til þrjá lítra og var í dágóðan tíma að jafna mig eftir það. Við skreyttum fyrir jólin þegar hún var nokkurra daga gömul og vorum bara í jóla-”búbblu”.“

Hvað kom þér einna helst á óvart við móðurhlutverkið?

„Ég veit að það segja þetta allir, en ég vissi ekki að það væri hægt að elska aðra manneskju svona mikið.“

mbl.is