Mun minni atvinnutekjur vegna loðnubrests

Loðnuveiðar | 25. nóvember 2024

Mun minni atvinnutekjur vegna loðnubrests

Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa atvinnutekjur í sjávarútvegi á landinu öllu skroppið saman um tæp 9% frá sama tímabili í fyrra og má rekja samdráttinn til loðnubrests, að því er fram kemur í greiningu Radarsins.

Mun minni atvinnutekjur vegna loðnubrests

Loðnuveiðar | 25. nóvember 2024

Atvinnutekjur í sjávarútvegi drógust verulega saman í Fjarðabyggð og Vestmananeyjum …
Atvinnutekjur í sjávarútvegi drógust verulega saman í Fjarðabyggð og Vestmananeyjum vegna loðnubrests. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa atvinnutekjur í sjávarútvegi á landinu öllu skroppið saman um tæp 9% frá sama tímabili í fyrra og má rekja samdráttinn til loðnubrests, að því er fram kemur í greiningu Radarsins.

Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa atvinnutekjur í sjávarútvegi á landinu öllu skroppið saman um tæp 9% frá sama tímabili í fyrra og má rekja samdráttinn til loðnubrests, að því er fram kemur í greiningu Radarsins.

Verulegur munur er á þróuninni eftir landshlutum og varð 21% samdráttur á Austurlandi og 19% á Suðurlandi. Ef litið er til sveitarfélaga má sjá að atvinnutekjur af sjávarútvegi í Fjarðarbyggð hafa minnkað um 25%, í Vestmannaeyjum um 28% og í sveitarfélaginu Höfn í Hornafirði um 17%.

„Af þessu má sjá að loðnubrestur leiðir ekki einungis til tekjumissis fyrir fyrirtækin heldur einnig starfsfólk þess. Áhrifin eru jafnframt mun víðtækari í þessum samfélögum. Hér er nærtækt að nefna að þau áhrif sem þetta hefur á fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn og á fjárhagsstöðu sveitarfélaga til dæmis útsvar. Það er ljóst að annað loðnulaust ár í röð, sem nú virðist vera yfirvofandi, yrði þungt högg fyrir samfélögin, en það yrði jafnframt hið fjórða frá árinu 2019,“ segir í greiningunni.

Af þessu má álykta að verulegir hagsmunir séu undir þegar ákvörðun verður tekin um það hvort loðnuveiðar verði heimilaðar að lokinni vetrarmælingu Hafrannsóknastofnunar í janúar.

Mynd/Radarinn

Bent er á að ótal skýringar geta verið að baki landfræðilegrar dreifingu atvinnutekna í sjávarútvegi og hvers vegna þær kunna að aukast á einu sviði og dragast saman á öðru.

„Til að mynda eru aflabrögð og afurðaverð mun sveiflukenndari á uppsjávarfiski en botnfiski. Í þessu sambandi er nærtækt að nefna áhrif loðnubrests á atvinnutekjur í ár. Stærsti hluti uppsjávargeirans er á Austurlandi, Hornafirði og í Vestmannaeyjum. Þar skiptir nálægð við fiskimið meira máli en nálægð við markaði.“

Mikilvægar fjárfestingar

„Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa ráðist í verulegar fjárfestingar á undanförnum árum. Þau hafa fjárfest í nýjum skipum og búnaði um borð, í húsnæði og hátæknibúnaði fyrir vinnslu, í nýsköpun og vöruþróun, í dreifileiðum og markaðssetningu. Allar þessar fjárfestingar eru nauðsynlegar og hafa verið ráðandi þáttur í að tryggja samkeppnishæfni greinarinnar, stuðlað að aukinni verðmætasköpun, dregið úr kolefnisfótspori, treyst áframhaldandi atvinnu hér á landi og stuðlað að auknum tekjum hins opinbera af sjávarútvegi,“ segir í greiningunni.

Fullyrt er að fjárfestigarnar séu þjóðhagslega mikilvægar og vísað til þess að sjávarútvegurinn er ein af undirstöðuatvinnugreinum landsins.

„Þær eru þó ekki síður mikilvægar út frá byggðasjónarmiði enda er sjávarútvegur ein fárra atvinnugreina sem er umfangsmeiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Öflug sjávarútvegsfyrirtæki er að finna á hverjum einasta landshluta hér á landi. Og í raun er engin atvinnugrein með jafnari dreifingu atvinnutekna um landið en sjávarútvegur.“

Ef litið er til þess hvernig atvinnutekjur í veiðum og vinnslu dreifast um landið á fyrstu níu mánuðum hvers árs, má sjá að um 80% af atvinnutekjum í sjávarútvegi koma í hlut einstaklinga sem búa á landsbyggðinni.

Mynd/Radarinn

Áhrif af aukninni ferskfiskvinnslu

Í greiningunni segir jafnframt að veiðar og vinnsla á botnfiski eru mun dreifðari um landið en á uppsjávarfiski.

„Sú aukna áhersla sem fyrirtækin hafa lagt á ferskfiskvinnslu undanfarin ár hefur talsverð áhrif á hvernig atvinnutekjur í sjávarútvegi, þá einkum í vinnslu, dreifast um landið. Sú áhersla er fyrst og fremst drifin áfram af því að hámarka verðmæti úr takmörkuðum afla, en í þeim efnum skiptir nálægðin við markaði og neytendur sífellt meira máli. Samgöngur og nálægð við flutningsleiðir gerir Suðvesturhornið að ákjósanlegum stað fyrir botnfiskvinnslu. Keflavíkurflugvöllur hefur gert Suðurnes að fýsilegum kosti fyrir vinnslu á botnfiski og skýrir að svæðið hefur verið stærst þegar kemur að atvinnutekjum í vinnslu. Suðurnes er jafnframt eini landshlutinn þar sem heildaratvinnutekjur í vinnslu hafa verið umfram tekjur í veiðum.“

Tekjur af veiðum mestar á höfuðborgarsvæðinu

Ef litið er til þess hvernig atvinnutekjur í veiðum og vinnslu dreifðust um landið á árunum 2018 til 2022 má sjá að stærstu hluti atvinnutekna í fiskveiðum kemur í hlut einstaklinga sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

„Það má meðal annars rekja til þess að sjómenn eru síður bundnir af því að búa í nálægð við útgerðastað. Þar má jafnframt sjá að stærsti hluti atvinnutekna í vinnslu hefur verið á Suðurnesjum, en þar er vægi veiða öllu minna. Það væri þó áhugavert að sjá þessa sundurliðun nær í tíma og þá sér í lagi vegna þeirra áhrifa sem jarðhræringar hafa haft á atvinnustarfsemi í Grindavík.“

Á Suðurnesjum hafa atvinnutekjur af sjávarútvegi í heild dregist saman um 12% á milli ára og má það einkum rekja til Grindavíkur, þar sem atvinnutekjur af sjávarútvegi hafa dregist saman um 29%.

Mynd/Radarinn

Veiðigjöld falla mest á landsbyggðina

Dreifing atvinnutekna og greiddra veiðigjalda er nokkuð svipuð og var á árunum 2019 til 2023 langstærsti hluti fjárhæðar veiðigjalds greidd af fyrirtækjum á landsbyggðinni, eða sem nemur um 82%.

„Nú í aðdraganda þingkosninga hafa stigið fram frambjóðendur sem vilja jafnvel tvöfalda veiðigjaldið, en það er nú 33% af hagnaði fiskveiða. Það gefur auga leið að slík hækkun, kæmi hún til framkvæmda, myndi leggjast mun þyngra á landsbyggðina en á höfuðborgarsvæðið, þar sem flestir búa.  Sé það eitt markmiða við stjórnun fiskveiða að treysta byggð í landinu, þá má telja að svo verulega auknar skattbyrðar landsbyggðar gangi gegn því markmiði,“ segir að lokum í greiningunni.

Mynd/Radarinn
mbl.is