Greiningardeild ríkislögreglustjóra telur ekki ástæðu til að lögregluyfirvöld aðhafist í hlerunarmáli ísraelska njósnafyrirtækisins Black Cube, sem starfrækt er af fyrrverandi starfsmönnum ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad, og gerði að sögn Jóns Gunnarssonar, alþingismanns Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra, upptöku af samtali sonar hans við mann sem villti á sér heimildir.
Greiningardeild ríkislögreglustjóra telur ekki ástæðu til að lögregluyfirvöld aðhafist í hlerunarmáli ísraelska njósnafyrirtækisins Black Cube, sem starfrækt er af fyrrverandi starfsmönnum ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad, og gerði að sögn Jóns Gunnarssonar, alþingismanns Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra, upptöku af samtali sonar hans við mann sem villti á sér heimildir.
Greiningardeild ríkislögreglustjóra telur ekki ástæðu til að lögregluyfirvöld aðhafist í hlerunarmáli ísraelska njósnafyrirtækisins Black Cube, sem starfrækt er af fyrrverandi starfsmönnum ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad, og gerði að sögn Jóns Gunnarssonar, alþingismanns Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra, upptöku af samtali sonar hans við mann sem villti á sér heimildir.
Þetta staðfestir Helena Rós Sturludóttir upplýsingafulltrúi ríkislögreglustjóra við mbl.is.
Eins og mbl.is hefur fjallað um gaf maðurinn, sem gerði upptökuna, sig út fyrir að vera fjárfestir og hafði samband við son Jóns, sem er fasteignasali. Kvaðst hann vilja kaupa ákveðnar eignir á Íslandi og fundaði um það með syninum á hótelherbergi í Reykjavík.
Samtalið tók hins vegar fyrr en varði að snúast um hvalveiðar og skrifaði Jón síðar um það á Facebook, eftir að upptökunni hafði verið dreift til íslenskra fjölmiðla, að haft væri eftir syni hans að hann (Jón) hefði tekið baráttusætið á lista Sjálfstæðisflokksins gegn því að fá að fara inn í matvælaráðuneytið og gefa þar út leyfi til hvalveiða.
„Um þetta hefur verið mikið slúðrað, en á sér að sjálfsögðu enga stoð í raunveruleikanum. Þar þarf ekki að nefna annað en að lögum samkvæmt hafa aðstoðarmenn engar heimildir til að taka stjórnsýsluákvarðanir eða gefa út leyfi af nokkru tagi,“ skrifaði Jón sem gerður var tímabundið að aðstoðarmanni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra í matvælaráðuneytinu.
Sór Bjarni það af sér í viðtali við mbl.is 12. nóvember að um einhvers konar hrossakaup væri að ræða með stöðu Jón í matvælaráðuneytinu.
„Það var auðvitað opinbert að Jón var fenginn til þess að vera aðstoðarmaðurinn minn í ráðuneytinu og það mál snýst ekki um neitt annað en nákvæmlega það að hann er að veita mér liðsinni þennan tíma sem ég ber ábyrgð á matvælaráðuneytinu í starfsstjórn. Það ætti að vera öllum ljóst að ég hef beðið hann um að gera það og því fylgja engin hrossakaup um eitt eða neitt. Allt annað er ekkert nema hugarburður,“ sagði Bjarni.
Þá ræddi Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur við mbl.is sama dag og Bjarni og kvaðst helst halda að hvalveiða- eða náttúruverndarsamtök með digra sjóði stæðu að baki meintum njósnum Black Cube.
„Mér finnst líklegt að mesti krafturinn hafi verið settur í þetta þegar stjórnin féll og Jón var settur inn í matvælaráðuneytið. Þá hlýtur einhvern veginn krafturinn að koma fram. Vafalítið til þess að grafa undan þessari ákvörðun með einhverjum hætti, enda er búið að koma þessari upptöku á framfæri við fjölmiðla og rúmlega tvær vikur í kosningar.
Að koma í veg fyrir þessa ákvörðun, það hlýtur að vera markmiðið og ég býst við því að það muni takast því að nú eru hendur manna miklu bundnari,“ sagði Helgi og bætti við:
„Þá hefur þessum aðilum tekist ætlunarverkið sitt, að hafa áhrif á stjórnmál á Íslandi.“