Innherji: Loforð um hækkun fjármagnstekjuskatts

Innherji | 27. nóvember 2024

Innherji: Loforð um hækkun fjármagnstekjuskatts

Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.

Innherji: Loforð um hækkun fjármagnstekjuskatts

Innherji | 27. nóvember 2024

AFP/Luis Robayo

Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.

Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.

Landsmenn fá nú í aðdraganda kosninga tilkynningar um hvað stjórnmálaflokkarnir ætla að gera vel við land og þjóð eftir kosningar. Það eina sem almenningur þarf að gera er að ljá viðkomandi stjórnmálaflokki atkvæði sitt og þá blasir lífið við. Það er hins vegar alveg merkilegt hvað lítið hefur verið um efndir á þessum loforðum í gegnum tíðina. Eftir kosningar virðast stjórnmálamennirnir frekar einbeita sér að eigin stólum og frama innan stjórnkerfisins.

Eitt loforð stjórnmálamannanna til kjósenda nú er hækkun fjármagnstekjuskatts. Ólíkt mörgum öðrum loforðum stjórnmálamannanna er full ástæða til að taka mark á þessu loforði því vinstri flokkarnir keppast um að telja þennan skatt sértækan á þá sem meira eiga, breiðu bökin eins og sagt er. Það er auðvitað rangt enda á þessi skattur við ýmis stig atvinnulífs.

Samtök atvinnulífsins bentu á það í vikunni að þessi sýn stjórnmálamanna um að færa þennan skatt í átt að Norðurlöndunum sé í raun hugvilla, enda eru Norðurlöndin fyrir það fyrsta ekki eitt samræmt kerfi. Þar er mismunandi samspil skattprósentu og frádráttarliða og ýmsar undanþágur sem allt spilar saman. Skattprósentan sem slík segir því ekki allt og samanburður flókinn.

Samfylkingin vill hækka þennan skatt úr 22% í 25%. Svipaðar hugmyndir hafa Vinstri græn og Píratar. Rökin fyrir því hjá forystu Samfylkingar eru sáralítil nema benda á Norðurlönd og að þetta sé skattur á yfirstéttina. Reyndar vildi Kristrún Frostadóttir helst setja hagnað sinn í gegnum þennan skatt þegar hún fékk kaupréttina í Kviku um árið, sem augljóslega voru launahlunnindi, en það er önnur saga.

Samtök atvinnulífsins benda á að fjármagnstekjuskattur sé beinlínis skaðlegur að því leytinu til að hann ívilnar neyslu á kostnað sparnaðar og fjárfestinga. Því ætti að stilla þessum skatti í hóf. Sparnaður og fjárfesting er grundvöllur verðmætasköpunar og bættra lífskjara.

Af hverju geta stjórnmálamenn ekki sleppt því að tala til kjósenda eins og þeir séu kjánar, sérstaklega yngri kjósendur? Þarf virkilega að dansa, syngja og baka til að fá atkvæðin? Þetta sama fólk og er hvað mest áberandi á hinum ýmsu miðlum nú fyrir kosningar og leikur trúðinn er einmitt fólkið sem er hvað leiðinlegast þegar þær eru liðnar.

Ef ríkið væri fyrirtæki þá myndi ekki þýða að framkvæma öll þau verkefni sem stjórnendunum kæmi til hugar (og þá oft í heimasveit sinni) hvort sem það er hagkvæmt eða ekki gegn því að ýta kostnaðinum út í verðlagið. Láta almenning greiða meira.

Stjórnmálamenn þurfa og eiga að taka til í ríkisrekstrinum. Af nægu er að taka. Ef þeir þora ekki, skilja ekki verkefnið eða geta ekki einhverra hluta vegna tekist á við það eiga þeir ekkert erindi í þessa 63 stóla Alþingis.

mbl.is