Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Hinn dæmigerði borgari gerir sér enga grein fyrir hvað hið opinbera er stórt og hve mikið fjármagn það tekur til sín. Enn erfiðara er fyrir venjulegt fólk að reyna að leggja eitthvert mat á það hvað hið opinbera býr til mikinn kostnað í hagkerfinu og hve mikil verðmætasköpun gæti átt sér stað ef ekki væri fyrir inngrip og afskipti af stóru og smáu.
Í fyrra reiknaði ég í gamni út samanlagðar tekjur ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar, deilt á hvern borgarbúa, og fékk út að fyrir hvert fjögurra manna heimili megi reikna með að hið opinbera taki til sín meira en 18 milljónir króna ár hvert. Mig grunar sterklega að þeim lesendum sem eiga dæmigerða íslenska vísitölufjölskyldu þyki heimilismeðlimir ekki fá árlega 18 milljóna króna virði til baka í þjónustu, velferð og innviðum. Talan er svo há að það er ekki nema von að lesendur spyrji: hvað í ósköpunum er verið að eyða öllum þessum peningum í?
Það er erfitt að finna svarið við spurningunni, því peningarnir hverfa ofan í ótalmargar glufur hér og þar. Aðhaldið og hvatarnir eru einfaldlega af allt öðrum toga hjá hinu opinbera en hjá einkageiranum, og því engin furða ef opinberir starfsmenn eru ekkert sérstaklega skilvirkir í störfum sínum og að fjármagni sé varið í alls konar vitleysu. Margt smátt gerir eitt stórt og braggastráin eru víða.
Ég held ég eigi eftir að segja lesendum frá skemmtilegum drykkjuleik sem ég fann upp, til að varpa ljósi á hvað hið opinbera hefur blásið út. Mér hefur ekki tekist að finna nógu gott nafn á leikinn, en hann gengur út á að fólk einfaldlega velur sér opinbera stofnun og giskar á starfsmannafjöldann. Því næst er kíkt á heimasíðu stofnunarinnar og yfirleitt má þar finna langan lista af starfsfólki. Til að gera leikinn spennandi má miða við að drekka eitt skot fyrir hverja tíu starfsmenn umfram það sem giskað var á. Held ég að það komi flestum á óvart – a.m.k. ef þeir starfa í einkageiranum – hversu mörg stöðugildi þarf til að reka stofnun með ósköp einfalt og takmarkað hlutverk.
Hér er kominn samkvæmisleikur sem ætti heldur betur að geta lífgað upp á jólaboðin í desember!
Fyrr í mánuðinum bárust af því fréttir að Donald Trump hefði valið Elon Musk og Vivek Ramaswamy til að leiða átak til að hagræða og skera niður í ríkisrekstri Bandaríkjanna. Það er ögn á reiki hvað þeir Musk og Ramaswamy hyggjast ná fram miklum niðurskurði: á einum stað talaði Musk um að lækka útgjöldin um 2.000 milljarða dala en í grein sem þeir birtu hjá Wall Street Journal segja athafnamennirnir tveir að það sé mjög gerlegt, og innan ramma laganna, að ráðast í 500 milljarða dala niðurskurð nánast með einu pennastriki – svo að kannski á 2.000 milljarða talan við um allt kjörtímabil Trumps.
En gefum okkur að stefnt verði að 2.000 milljarða dala hagræðingu: Það myndi jafngilda því að lækka alríkisútgjöldin um nærri því þriðjung, og er ef til vill ekki eins ógerlegt og gagnrýnendur verkefnisins vilja meina.
Benda gagnrýnendurnir á að af nærri 6.750 milljarða dala fjárlögum fari 21% til lífeyriskerfisins sem erfitt verður að hrófla við. Þá fara 18% til varnarmála, og varla hægt að skera niður þar ef hugmyndir Trumps um að stórefla Bandaríkjaher eiga að verða að veruleika. Um 15% renna til heilbrigðismála og 13% til viðbótar fara í sjúkratryggingar Medicare, en 14% þarf að nota til að borga af himinháum skuldum ríkissjóðs.
Aðrir útgjaldaflokkar, s.s. atvinnuleysisbætur, stuðningur við fyrrverandi hermenn og útgjöld til menntamála, samgangna og landbúnaðarmála mynda síðan samanlagt um 20% af fjárlögunum.
Þeir Musk og Ramaswamy vilja ráðast að vandanum frá ýmsum hliðum: Fyrir það fyrsta mun niðurskurðarverkefnið dreifa fulltrúum sínum um allt stjórnkerfið og fela þeim að áætla þann lágmarksfjölda starfsmanna sem hver stofnun þarf til að sinna lögmætu meginhlutverki sínu, og verður stefnt að því að skera niður að því marki – sem í sumum tilvikum myndi þýða að enginn starfsmaður yrði eftir og hægt að loka sjoppunni.
Samhliða þessu vilja þeir einfalda regluverkið, og má hreinlega byrja með forsetatilskipun um að stofnanir skuli hætta að framfylgja þeim reglum sem þykja gera meira ógagn en gagn. Eftir það má sjá hvað gerist og stíga nokkur skref til baka ef kemur í ljós að of langt var gengið. Einfaldara regluverk minnkar þörfina fyrir skýrslugerð, eftirlit og þjónustu enn frekar, og mörg verk ætti að vera hægt að afgreiða nógu vel með sjálfvirkum lausnum og gervigreindartækni.
Musk og Ramaswamy hafa tekið það sérstaklega fram að það þurfi að hugsa vel um þá sem lenda undir niðurskurðarhnífnum: sumir munu glaðir þiggja rausnarlega starfslokasamninga og fagna því að geta sest í helgan stein fyrr en þeir ætluðu sér. Öðrum verður hjálpað að finna störf við sitt hæfi í einkageiranum.
Félagarnir munu líka beina sjónum sínum að innkaupahliðinni og benda þeir réttilega á að það þurfi að renna vandlega yfir þá samninga sem hið opinbera hefur gert við einkageirann. Gildir það ekki síst um kaup á alls kyns tólum, tækjum og þjónustu fyrir herinn en það er alkunna hve illa er farið með fé skattgreiðenda þegar kemur að smíði og viðhaldi hergagna.
Eins og frægt er rak Elon Musk nærri 80% af starfsliði Twitter eftir að hann eignaðist félagið, og samt er samfélagsmiðillinn enn í loftinu og í miklum blóma. Fyrst skar hann niður deildir sem þjónuðu greinilega engum hagsmunum nema sínum eigin, og smám saman grisjaði hann í burtu þá sem voru ekki að vinna fyrir kaupinu sínu.
Nú er að sjá hvort Musk og Ramaswamy geti komið einhverju svipuðu til leiðar hjá hinu opinbera. Til mikils er að vinna og myndi t.d. hagræðing upp á 2.000 milljarða dala jafngilda næstum 24.000 dala sparnaði á hverja fjögurra manna bandaríska fjölskyldu. (Sambærilegur niðurskurður hjá hinu opinbera á Íslandi myndi jafngilda 4,4 milljóna króna hagræðingu á hvert vísitöluheimili!)
Ekki nóg með það heldur yrði miklum byrðum létt af atvinnulífinu og mætti reikna með að verðmæta- og atvinnusköpun vestanhafs tæki kipp. Ekki skyldi vanmeta eyðileggingarmátt reglufargans og skrifræðis en árið 2012 skrifaði ég stuttan pistil í blaðið um bandaríska rannsókn sem reyndi að mæla tjónið af afskiptum hins opinbera. Rannsóknin skoðaði tímabilið frá 1960 til 2009 og fékk það út að 5% samdráttur í umsvifum hins opinbera væri ávísun á 376 milljarða ábata fyrir hagkerfið og myndi skapa sex milljónir nýrra starfa. Fengu rannsakendurnir það út að fyrir hvert stöðugildi sem væri skorið niður hjá hinu opinbera mætti vænta þess að hagkerfið stækkaði um 6,2 milljónir dala og að 98 ný störf yrðu til.
Trump er ekki fyrsti leiðtoginn til að fá utanaðkomandi reynslubolta til að gera niðurskurðartillögur. Margaret Thatcher fékk Derek Rainer, forstjóra Marks & Spencer, til að leiða sérstakt skilvirkniteymi árið 1979 og varð það til þess að 16.000 stöðugildi lentu undir niðurskurðarhnífnum, en í heildina rak Thatcher um það bil 100.000 opinbera starfsmenn fyrstu fjögur ár sín í embætti forsætisráðherra.
Ronald Reagan fékk athafnamanninn J. Peter Grace til að gera slíkt hið sama snemma á 9. áratugnum en þrátt fyrir góða vinnu skilaði það verkefni ekki miklu. Árið 2010 gerði Barack Obama sams konar tilraun sem breytti sama sem engu.
Musk kallar ekki allt ömmu sína, og Ramswamy er enginn vitleysingur heldur og ljóst að augu heimsbyggðarinnar verða á þeim næstu misserin. Trump hefur sterkt umboð frá kjósendum, auk þess að vera með þingmeirihluta og með hæstarétt með sér í liði ef andstæðingar niðurskurðarins reyna að beita dómstólum fyrir sig. Ef einhvern tímann verður hægt að koma í gegn róttækum breytingum þá er það núna, og ekki seinna vænna því ríkið er löngu búið að missa tökin á fjármálunum og skuldasöfnun Bandaríkjanna komin á hættustig.
Auðvitað mun kerfið berjast um á hæl og hnakka, enda sleppa fólk og fyrirtæki ekki takinu af spenanum þegar þau hafa bitið sig föst á annað borð.
Best af öllu er að ef niðurskurðurinn heppnast vel þá mun það senda öðrum þjóðum skýr skilaboð um að það sé hægt að ná aftur stjórn á bákninu. Verða það lítil gleðitíðindi fyrir alla þá sem hafa náð að hreiðra vel um sig á þægilegum kontórum hins opinbera.
Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sl. miðvikudag.