Eva Helgadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík segir ýmislegt geta spilað inn í sem veldur því að kjörsókn fer hægar af stað nú en í síðustu alþingiskosningum. Árstíðin meðal annars.
Eva Helgadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík segir ýmislegt geta spilað inn í sem veldur því að kjörsókn fer hægar af stað nú en í síðustu alþingiskosningum. Árstíðin meðal annars.
Eva Helgadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík segir ýmislegt geta spilað inn í sem veldur því að kjörsókn fer hægar af stað nú en í síðustu alþingiskosningum. Árstíðin meðal annars.
„Auðvitað spilar árstíð og ýmislegt inn í svona. Þegar við vorum að kjósa 2021 þá vorum við mánuði fyrr og vorum ekki á aðventunni. Mögulega hefur það eitthvað að segja,“ segir Eva í samtali við mbl.is.
Hugsanlega hafi einhverjir verið á jólahlaðborði eða gleðskap í gær og því lengur að koma sér af stað. Það sé því ekki útséð með að kjörsókn taki við sér eftir hádegi.
„Vonandi erum við ekki að sjá minni kjörsókn þegar upp er staðið, maður vonar það alltaf,“ segir Eva.
Líkt og greint hefur verið frá er kjörsókn í Reykjavík nú lakari en á sama tíma í alþingiskosningunum 2021 og virðist það sama eiga við í fleiri kjördæmum.
„Þetta virðist vera gegnumsneytt í gegnum öll kjördæmin miðað við fréttir.“
Klukkan 13 í dag höfðu 15,87 prósent kjósenda á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi norður greitt atkvæði, en á sama tíma árið 2021 höfðu 17,39 prósent kjósenda í kjördæminu greitt atkvæði.
Svipað er uppi á teningnum í Reykjavíkurkjördæmi suður, en þar höfðu 17,08 prósent kjósenda á kjörskrá greitt atkvæði klukkan 13. Árið 2021 höfðu 18,22 prósent greitt atkvæði á sama tíma.