Meðalaldur barna sem komast að í leikskóla í Reykjavík er nú um 22 mánuðir. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, vekur athygli máls á þessu.
Meðalaldur barna sem komast að í leikskóla í Reykjavík er nú um 22 mánuðir. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, vekur athygli máls á þessu.
Meðalaldur barna sem komast að í leikskóla í Reykjavík er nú um 22 mánuðir. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, vekur athygli máls á þessu.
Þá séu á hverju hausti á bilinu 700 til 1.000 börn á biðlista eftir leikskólarými í Reykjavík.
Hildur segir í samtali við mbl.is að til samanburðar sé meðalaldur barna sem fá leikskólapláss í nágrannasveitarfélögunum um 12-15 mánuðir.
Að sögn Hildar var meðalaldur þeirra sem komust að á leikskólum í Reykjavík um 19 mánuðir í upphafi kjörtímabilsins og staðan fari því sífellt versnandi.
Í gögnum um stöðu leikskólamála, í greinargerð skóla- og frístundasviðs með fjárhagsáætlun fyrir árið 2025, kemur fram að til hafi staðið að innleiða 650 ný leikskólapláss árið 2024 en þeim hafi í reynd aðeins fjölgað um 50.
Árið 2023 hafi staðið til að innleiða 252 ný leikskólapláss en niðurstaðan hafi orðið 60 pláss.
„Þetta er ófremdarástand. Það virðist ríkja andvaraleysi í þessum málaflokki og hann hefur ekki verið í forgangi hjá þessum meirihluta í borginni. Þannig virðist það hafa verið að minnsta kosti síðasta áratuginn og það birtist okkur í þessum veruleika,“ segir Hildur.
„Ofan á allt þetta eru öll plássin sem ekki nýtast vegna myglu og raka en það eru í kringum 370 pláss um þessar mundir.“
Hildur nefnir að frá árinu 2014 hafi leikskóla- og daggæslurýmum í Reykjavík fækkað að minnsta kosti um tæplega eitt þúsund. Á sama tímabili hafi börnum á leikskólaaldri í höfuðborginni fækkað um tæp 10%.
Hildur segir ekki vera laust við að foreldrar ungra barna viðri þessi mál reglulega við borgarfulltrúa.
„Starf borgarfulltrúa er þess eðlis að fólkið í borginni hefur samband við okkur. Flestir sem hafa samband eru foreldrar barna sem bíða eftir leikskólaplássi. Að loknu fæðingarorlofi á fólk engin úrræði og því eru margir í afar þröngri stöðu.
Ég hef heyrt af fólki sem lendir í vandræðum á sínum vinnustað og missir jafnvel vinnuna. Það eiga ekki allir einhverja að sem geta aðstoðað við barnapössun. Ætla má að þessi leikskólavandi í Reykjavík komi verst niður á fólki með lítið bakland, fólki af erlendum uppruna, fólki með litlar tekjur fyrir utan hið augljósa sem eru vinnandi mæður.“