„Ég fæddist gráðug og svöng“

Uppskriftir | 9. desember 2024

„Ég fæddist gráðug og svöng“

Margrét Ágústa Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Bændasamtakanna býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni. Margrét er mikil matkona og elskar fátt meira en mat. Eins og hún segir sjálf snýst lífið hjá henni meira og minna um mat, bæði heima og í vinnunni.

„Ég fæddist gráðug og svöng“

Uppskriftir | 9. desember 2024

Margrét Ágústa Sigurðardóttir og framkvæmdastjóri Bændasamtakanna á heiðurinn af vikumatseðlinum …
Margrét Ágústa Sigurðardóttir og framkvæmdastjóri Bændasamtakanna á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Ágústa Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Bændasamtakanna býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni. Margrét er mikil matkona og elskar fátt meira en mat. Eins og hún segir sjálf snýst lífið hjá henni meira og minna um mat, bæði heima og í vinnunni.

Margrét Ágústa Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Bændasamtakanna býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni. Margrét er mikil matkona og elskar fátt meira en mat. Eins og hún segir sjálf snýst lífið hjá henni meira og minna um mat, bæði heima og í vinnunni.

Hringdi linnulaust í vinnuna til mömmu sinnar

„Ég fæddist svöng og gráðug. Dagar mínir lituðust og litast enn af því hvað var í matinn. Ég var óþolandi krakki og byrjaði að tuða strax um morguninn ef ég vissi að það væri eitthvað í matinn um kvöldið sem mér líkaði ekki,“ segir Margrét og glottir.

„Þá hringdi ég linnulaust í vinnuna hennar mömmu og það endaði meira að segja á því að hún þurfti fyrst allra að fá sér borðsíma því að það var orðið að hálfu starfi fyrir samstarfsfólk hennar að svara mér í símann. Þá fór dagurinn eftir skóla í það að reyna að snúa mömmu frá því að hafa eitthvað í matinn sem mér líkaði ekki. Ég náði líklegast ákveðnum lágpunkti þegar hún var á ráðstefnu í Norræna húsinu og hringdi í 03 og fékk númerið hjá húsverði Norræna hússins, ég var aðeins 7 ára gömul. Hann kom inn á fundinn og kallaði nafn mömmu, sem líklegast hélt að eitthvað hræðilegt hefði gerst heima fyrir, en þá var ég bara á hinni línunni að reyna að fá hana frá því að hafa eitthvað sem mig langaði ekki í í matinn,“ segir Margrét og skellihlær.

Kaupir íslenskt kjöt og grænmeti

„Ég er í dag mun meðvitaðri um heilnæmi matvara og framleiðsluhátta þeirra. Þá er ég alin upp við tal um sýklalyfjaónæmi og á seinni árum loksins byrjuð að gera mér grein fyrir því hvað það þýðir og þeirri ógn sem því fylgir. Íslensk matvæli, hvort sem um ræðir kjöt eða grænmeti, eru þar í algjörri sérstöðu enda eru sýklalyf bara notuð í læknisfræðilegum tilgangi hér á landi á búfénað en ekki í fyrirbyggjandi eða vaxtaberandi tilgangi eins og víðast hvar annars staðar úti í heimi. Búfénaðurinn skilar svo frá sér, þannig að það fer í jarðveginn, þar á meðal í grænmetið. Ég reyni því eftir fremsta megni að kaupa íslenskt kjöt og grænmeti.“

Margrét setti saman draumavikumatseðilinn sinn fyrir lesendur sem á vel við á aðventunni áður en allar jólakræsingarnar verða bornar fram.

Mánudagur – Heimagerðar fiskibollur

„Ég er alin upp við að það var alltaf fiskur á mánudögum. Þess vegna fannst mér líka mánudagar einstaklega leiðinlegir. Ég er mjög kressin á fiskmeti, vægast sagt ekki gikkur heldur með eitthvað óþol sem enginn trúir að ég sé hins vegar með. Þess vegna var mamma alltaf með fiskibollur fyrir mig til að koma ofan í mig fiski, meðan hinir í fjölskyldunni fengu bara þann fisk sem var í boði. Amma mín gerði ávallt fiskibollur og mér fannst þær alltaf bestar með bræddu smjöri, tómatsósu og soðnum kartöflum. Ég hef ekki lagt það í vana minn að gera mitt eigið hakk og kaupi yfirleitt úti í fiskbúð en ef ég færi í það að gera hakkið sjálf þá væri ég til í að prófa eftirfarandi uppskrift.“

Þriðjudagur – Indverskur lambapottréttur

„Á þriðjudögum var ávallt fínni matur heima hjá mömmu og pabba því að það var dagurinn sem var alltaf erfiður í vinnunni hjá pabba. Mamma reyndi því að létta stemninguna með því að hafa aðeins betri hversdagsmat. Matargatið sem ég var, og er, elskaði því þriðjudaga og þá var yfirleitt undantekningarlaust eitthvað kjöt en ég get borðað kjöt á við fílefldan sjóara. Ég er meira að segja orðin að sér mælieiningu: „Já, við erum fimm í mat og svo Magga.“ Ég hef reynt að halda í þá hefð að hafa fínni mat á þriðjudögum, svona eins og ég get. Matseðillinn þessar vikurnar einkennist mikið af lambakjöti en ég er tiltölulega nýbúin að kaupa skrokk og fylla frystinn fyrir veturinn. Ég elska lambapottrétti og þessi hér hefur verið í uppáhaldi um langa hríð.“

Miðvikudagur – Grjónagrautur með krækiberjasafti úr smiðju Húsó

„Miðvikudagar eru yfirleitt annasamir í heimilishaldinu, krakkarnir á æfingum og mikið um að sækja og skutla, síðan gefa upp í hesthúsi o.s.frv. Ég er því oft með eitthvað fljótlegt og einfalt þá daga. Nýlega hef ég verið að notast við þessa grjónagrautsuppskrift að mestu en viðurkenni að ég hef aldrei gert krækiberjasaftið. Ég kaupi oft sláturkepp með en ólíkt mér þá elska krakkarnir mínir að fá lifrarpylsu með grjónagrautnum. Síðan geri ég oft bananabrauð til að hafa með og þá með smjöri og osti.“

Fimmtudagur – Rjómalagað vodkapasta

„Ég prófaði um daginn vodka-pastaréttinn sem allir voru að tala um og hann hitti vel í mark hjá mínu fólki. Þetta er líka einstaklega hentugt þar sem ég á alltaf til vodka, vandræðalega oft Tinda vodka, heima hjá mér en bið fólk nú ekki um að lesa of mikið í þá staðreynd. Einfalt, fljótlegt og gott.“

Föstudagur – Kjúklingaréttur með mangó-chutney

„Ég er alltaf að reyna að prófa mig eitthvað áfram með kjúklingarétti þar sem ég enda of oft að gera það sama. Mangó-kjúklingaréttir eru mjög vinsælir á mínu heimili, ekki síst hjá dóttur minni þar sem hún myndi helst vilja hafa mangó og kjúkling á borðum alla daga. Ég ætla að prófa þennan í vikunni, sjálfsagt við mikinn fögnuð. Ég reyni síðan að hafa ferskt salat með öllum mat og myndi klárlega bæta því við þarna sem meðlæti og keyptu tilbúnu nan-brauði þar sem ég baka bara vandræði, án gríns.“

Föstudagur – Marokkóskar kjötbollur

„Ég elska kjötbollur. Allra helst elska ég kjötbollurnar hennar mömmu í brúnni. Ég prófaði hins vegar þessa uppskrift fyrir nokkrum árum og hún er mjög reglulega á boðstólunum heima. Þær eru virkilega góðar og mjög vinsælar hjá börnunum. Ég er sammála Tobbu Marínós um að þær slá þeim ítölsku við.“

Laugardagur – Tacos með hægelduðu svínakjöti

„Mér finnst gaman að hægelda mat og hef verið dugleg að gera það kvöldið áður og hef þá kjötið í ofninum á lágum hita yfir allan daginn. Áður fyrr var gert mikið grín að mér í vinnunni þar sem ég skaust heim í hádegishléinu til að marínera eða byrja að hægelda þetta eða hitt. Ég er oft með svínakjöt á boðstólunum og er líka byrjuð að nota meira svínahakk en ég gerði áður. Þessa uppskrift ætla ég að prófa og ég efa ekki að hún slái í gegn.“

Sunnudagur – Lambaskankar í rauðvínssósu

„Ég er æ oftar að vinna með lambaskanka í eldamennskunni. Hægeldunaráráttan mín fær væntanlega útrás við þessa uppskrift. Síðan get ég líka notað afgangana daginn eftir og sett í vefjur, ég elska að geta nýtt afganga frá því deginum áður og er farin að líkjast mömmu minni óheyrilega mikið hvað það varðar enda eru afgangar uppáhaldsmaturinn hennar.“

 

mbl.is