Fall sýrlensku höfuðborgarinnar Damaskus á örfáum dögum, eftir að uppreisnarhópar Hayat Tahrir al-Sham réðust til atlögu og steyptu Bashar al-Assad forseta af stóli og með honum harðstjórn hans, varð fleirum tilefni til furðu en forsetanum fallna og stjórn hans.
Fall sýrlensku höfuðborgarinnar Damaskus á örfáum dögum, eftir að uppreisnarhópar Hayat Tahrir al-Sham réðust til atlögu og steyptu Bashar al-Assad forseta af stóli og með honum harðstjórn hans, varð fleirum tilefni til furðu en forsetanum fallna og stjórn hans.
Fall sýrlensku höfuðborgarinnar Damaskus á örfáum dögum, eftir að uppreisnarhópar Hayat Tahrir al-Sham réðust til atlögu og steyptu Bashar al-Assad forseta af stóli og með honum harðstjórn hans, varð fleirum tilefni til furðu en forsetanum fallna og stjórn hans.
Að sögn Andreas Krieg, sérfræðings í öryggismálum við King's College í London, bjuggust fæstir í öllu landinu – og umheiminum – við því að afleiðingarnar af vel útfærðri leiftursókn uppreisnarmanna al-Sham á borgina Aleppo og fleiri hernaðarlega mikilvæg skotmörk yrðu aðrar eins, en al-Assad er sagður hafa flúið land og vera staddur í Moskvu í Rússlandi, í ranni einnar þeirra þjóða sem stutt hafa við bakið á forsetanum og stjórn hans.
Með bakhjarl í Írönum, Rússum og líbönsku Hisbollah-hreyfingunni þótti allt benda til þess að al-Assad héldi styrkum höndum um stjórnartaumana. Höfðu ýmis nálæg arabaríki jafnvel tekið að styrkja tengsl sín við hið stríðshrjáða Sýrland sem tóku að bresta upp úr því er borgarastyrjöld braust út í landinu árið 2011. Tök al-Assads reyndust er upp var staðið ekki svo haldbær er almennt var talið.
Hisbollah-samtökin hafa sætt mikilli blóðtöku frá því á haustdögum er árásir Ísraelsmanna hjuggu þau skörð í raðir þeirra er seint verða fyllt, með sprengjutilræði í tveimur hrinum er fjarskiptatæki Hisbollah-liða sprungu fyrirvaralaust í höndum þeirra auk meðal annars loftárásar á höfuðstöðvar samtakanna í Haret Hreik-hverfinu í úthverfinu Dahieh í líbönsku höfuðborginni Beirút. Í þeirri síðartöldu tókst Ísraelsher að ráða leiðtogann Hassan Nasrallah af dögum.
Segir Krieg það líklegt, í samtali við fréttastofuna AFP, að þar með sé tekið að hrikta verulega í stoðum helstu stuðningsaðila Sýrlendinga. Enn fremur telur hann ólíklegt að bandamenn Írana í Jemen og Írak séu í stakk búnir til að knýja fram nokkrar breytingar á þeirri nýju stöðu mála sem nú er komin upp með nýjum stjórnarherrum í Damaskus.
Samtímis þessu eigi Rússar í vök að verjast þar sem þeir beini meginþorra hernaðarlegra krafta sinna að átökunum við Úkraínu í því innrásarstríði sem þeir hafa háð í nágrannalandinu í brátt þrjú ár auk þess sem stærsta flotastöð Rússa er staðsett í Tartus við Miðjarðarhafsströnd Sýrlands.
„Þeir koma líkast til með að tapa henni,“ segir Krieg við AFP. „Ég fæ ekki séð hvernig nýir stjórnendur [í Sýrlandi] muni geta heimilað Rússum veru á svæðinu eftir alla þeirra viðleitni til stuðnings við al-Assad,“ segir hann og bendir á að Tyrkland sé það ríki á svæðinu sem hve mest beri úr býtum með falli Sýrlandsforsetans enda hafi það stutt uppreisnarmennina með ráðum og dáð. „En þrátt fyrir að Tyrkland hafi áhrif stjórnar það ekki uppreisnarmönnunum,“ segir sérfræðingurinn.
Ný komandi ríkisstjórn Donalds Trumps í Bandaríkjunum er svo, að sögn Arons Lund, sérfræðings og greinanda hugveitunnar Century International, örlagavaldur víða um miðaustrið.
„Á stund fullkominnar óvissu gerir sú áhrifamikla breyting stöðuna svo ófyrirsjáanlega. Fall al-Assads er ekki það eina sem hér er undir, þar hvílir einnig spurningin um hvað taki við og hve langan tíma sú breyting taki í gerjun,“ segir Lund við AFP. Sú staða sem verði ofan á í Sýrlandi blasi ekki við.
Bendir hann á að margar ríkisstjórnir á svæðinu séu felmtri slegnar vegna fylkinga súnnímúslima á borð við Bræðralag múslima, eina elstu, stærstu og áhrifamestu íslömsku hreyfingu Egyptalands. Ekki muni nýir stjórnarherrar í Damaskus verða til þess að draga úr óttanum.
„Þetta er Bræðralag múslima á sterum, eitthvað mun herskárra og óvinveittara þeim,“ segir Lund og vísar þar til þeirra sem kvíðboga bera fyrir nýfengnum völdum Hayat Tahrir al-Sham í Sýrlandi. Nú bindi Ísraelar – og fjandmenn þeirra sem bandamenn – trúss sitt við flutning Trumps inn í Hvíta húsið í janúar.
Ríki allt frá Marokkó til Sádi-Arabíu og Ísraels munu að sögn sérfræðingsins kappkosta að tryggja sér velvilja nýja forsetans í krafti annálaðs samningsvilja hans.
Andreas Krieg leggur enn fremur til málanna að atburðarásin í Sýrlandi ætti að vera stjórnarherrum í Lýbíu, Egyptalandi og Túnis aðvörun. Þeim ætti að vera mótmæla- og uppþotabylgjan Arabíska vorið haustið 2010 í fersku minni.
„Leiknum er lokið hvað draumsýnina um stöðugleika stjórnvalda snertir,“ segir Krieg að lokum, „honum er lokið fyrir gagnuppreisnarmenn í Rússlandi, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Íran.“