Sýrlendingar fagna því almennt að stjórn Bashar al-Assads sé fallin í Sýrlandi, en á sama tíma er sorglegt að allir þeir fjölmörgu sem hafa fallið í baráttunni við stjórnina fái ekki að upplifa nýja landið. Þetta er meðal þess sem Ali Faisal Al Hammadah segir í samtali við mbl.is.
Sýrlendingar fagna því almennt að stjórn Bashar al-Assads sé fallin í Sýrlandi, en á sama tíma er sorglegt að allir þeir fjölmörgu sem hafa fallið í baráttunni við stjórnina fái ekki að upplifa nýja landið. Þetta er meðal þess sem Ali Faisal Al Hammadah segir í samtali við mbl.is.
Sýrlendingar fagna því almennt að stjórn Bashar al-Assads sé fallin í Sýrlandi, en á sama tíma er sorglegt að allir þeir fjölmörgu sem hafa fallið í baráttunni við stjórnina fái ekki að upplifa nýja landið. Þetta er meðal þess sem Ali Faisal Al Hammadah segir í samtali við mbl.is.
Hann er 21 árs gamall rafvirki sem kom til Íslands fyrir tæplega níu árum með systkinum sínum og móður, en áður höfðu faðir hans og bróðir látið lífið vegna stríðsins. Í dag segist hann engan eiga lengur að í Sýrlandi, en tugir fjölskyldumeðlima létust í stríðinu.
Undanfarna daga hafa honum borist fréttir af því að nokkrir vina hans sem handteknir voru á barnsaldri hafi losnað úr hryllilegum fangelsum Assad-stjórnarinnar, en þeir höfðu verið í fangelsi og ekki séð sólina í yfir áratug.
Hann segir óvissu ríkja um framhaldið og hvað taki við þegar kemur að stjórn landsins, en að háværasta krafan sé að Sýrlendingar fái sjálfir að stjórna eigin málum án þess að önnur lönd reyni að stýra eða hafa áhrif. Þá leggi hann áherslu á að ekki verði gerður greinarmunur á fólki eftir trúarbrögðum eða þjóðflokkum og segir hann að fyrir borgarastríðið hafi slíkt skipt almenning í Sýrlandi litlu máli.
Ali er fæddur í borginni Homs í Sýrlandi. Þar bjó hann ásamt foreldrum sínum og þremur systkinum. Þegar hann var um 9 ára brýst borgarastríðið út. Homs var ekki fyrsta borgin til að verða fyrir árásum, en Ali segir að síðar hafi komið að því og þá hafi stjórnarherinn farið fram með miklum krafti.
Rifjar hann upp að faðir sinn hafi gengið til liðs við svokallaðar hvíthúfur þegar stríðið braust út, en það er sjúkraflutninga- og björgunarfólk. Nótt eina þegar árásin stóð sem hæst yfir hafi pabbi hans verið að aðstoða eigin fjölskyldu og aðra nágranna að koma sér frá mestu átökunum. Hann hafi sagt fjölskyldunni að halda áfram meðan hann athugaði með bróður sinn sem var aðeins aftar. Þá hafi faðir hans orðið fyrir skoti og daginn eftir fékk fjölskyldan að vita að hann væri látinn.
Elsti bróðirinn hvarf einnig þessa sömu nótt og í raun heyrði fjölskyldan ekkert af honum fyrr en tveimur árum síðar þegar þau heyrðu frá félögum hans sem töldu að bróðirinn hafi fallið þessa nótt. Fjölskyldan hefur þó aldrei fengið nánari staðfestingu og viðurkennir Ali að nú þegar fangelsin hafi verið opnuð hafi örlítil veik von komið fram um að vita meira um afdrif bróður síns. Hann telji slíkt þó ólíklegt úr því sem er komið.
Þessa umræddu nótt náði stjórnarherinn Homs og fjölskyldan flúði daginn eftir ásamt frændfólki sínu til Líbanon þar sem þau voru í nokkurn tíma áður en íslensk stjórnvöld buðu þeim að koma til landsins. Það var í janúar 2016, en Ali segir að þá hafi þau hvorki kunnað íslensku né ensku, en hann hafi þó kunnað smá í frönsku.
Fyrstu dagarnir og vikurnar hafi verið erfiðar í óvissunni hér, en þau hafi fengið úthlutað alveg frábærum íslenskum tengiliðum eða fjölskyldum, sem hafi stutt við bakið á þeim. Kalli þau fólkið, hjónin Pál Bragason og Guðbjörgu Hjörleifsdóttur, auk Gyðu Þórisdóttur, fjölskylduna sína í dag.
Spurður út í þá þróun sem hefur orðið í Sýrlandi síðustu vikuna segir Ali að almenna hugsunin sé að gleðjast yfir því að Assad og fjölskylda hans séu ekki lengur við stjórn. Hann segist telja að einhverjir kraftar sem eigi eftir að koma betur í ljós síðar séu á bak við þessa miklu sókn, en að aðalmálið í dag sé að það taki eitthvað betra við en Assad.
En á sama tíma og gleðin ríkir þá segir Ali að sorgin sé honum einnig ofarlega í huga. „Ég get ekki lýst gleði minni yfir því sem er að gerast í Sýrlandi núna. Við erum mjög glöð núna, en það er líka sorglegt að það fólk sem hefur dáið fái ekki að sjá þessi tímamót. Það hafði dreymt um að þetta myndi gerast einn daginn.“
Ali segir að hann heyri nú helst frá Sýrlendingum að þeir leggi áherslu á að önnur lönd muni ekki halda áfram með þau miklu ítök sem þau höfðu í Sýrlandi áður. „Loksins er Rússland út, Íran út, Tyrkland út og Bandaríkin út,“ segir hann og bætir við að fyrir þessi ríki hafi Sýrlendingar aldrei skipt máli, heldur hafi pólitík, völd og náttúrulegar auðlindir skipt mestu máli.
„Við viljum hafa Sýrland eins og það var í gamla daga. Ég vissi aldrei þegar ég var 13 ára að ég væri súnní. Ég vissi að ég væri múslimi, ég fór í mosku, en vinur minn fór í kirkju og ég var aldrei að hugsa um þetta þegar ég var krakki,“ segir Ali um hvernig hann sjái fyrir sér draumaniðurstöðu í Sýrlandi. Bendir hann á að í hverfinu hans hafi verið fjölskyldur með mjög mismunandi bakgrunn; súnní- og sjíamúslimar, kristnir, gyðingar og Kúrdar.
Segir hann þetta hafa breyst eftir að stríðið braust út, en að hann trúi því að þetta geti orðið staðan á ný.
Sá hópur sem leiddi atlöguna gegn stjórn Assads er íslamistahópur sem kallast HTS. Hópurinn á sér langa sögu í Sýrlandsdeilunni og var upphaflega stofnaður undir nafninu Jabhat al-Nusra árið 2011 í borgarastyrjöld Sýrlands og var nátengdur al-Kaída-samtökunum. Skilgreina vestræn ríki flest hver og Sameinuðu þjóðirnar hópinn sem hryðjuverkahóp.
Ali segir að sér líði ekki vel með það ef þessi hópur muni stjórna öllu í Sýrlandi. Fyrstu orð leiðtoga hópsins veki hins vegar upp von um að reyna eigi að byggja brýr milli mismunandi minnihlutahópa í landinu. „Ég er ekki með þeim 100% og ég er ekki með öðrum 100%, ég get ekki ákveðið með hverjum maður á að standa,“ segir Ali og vísar þar til þess hversu flóknir hagsmunir og áherslur eru meðal þeirra fjölmörgu hópa sem nú munu væntanlega koma að stjórnun landsins með einhverjum hætti.
Þrátt fyrir fjölmörg ódæðisverk sem Assad framdi gagnvart eigin þegnum og ógnarstjórn í 24 ár segir Ali að hann hefði ekki viljað að hann yrði drepinn heldur að hann yrði leiddur fyrir dómara og dæmdur þar. Niðurstaðan var hins vegar sú að Assad flúði til Rússlands þar sem hann fékk hæli.
Sem dæmi um grimmdarverk Assads hefur heimsbyggðin fengið að fylgjast með því undanfarna daga þar sem Sýrlendingar brjótast inn í fangelsi þar sem tugþúsundum pólitískra fanga var haldið, en margir sem þar eru inni hafa verið þar í yfir áratug. Hefur föngum verið haldið neðanjarðar við skelfilegar aðstæður og án þess að fjölskyldur þeirra vissu um afdrif þeirra.
Ali nefnir að hann hafi sem barn þekkt nokkra stráka sem voru handteknir þegar þeir voru 12-13 ára og með honum í skóla. Voru þeir grunaðir um að skrifa hvatningarorð fyrir uppreisnina. Ekkert hafi spurst til þeirra þangað til núna í vikunni, en hann segir að fréttir hafi birst í hópum á samfélagsmiðlum frá gamla hverfinu hans um að þeir væru á meðal þeirra sem losnuðu úr fangelsi. Segir Ali þá hafa verið meðal þeirra fjölmörgu sem voru geymdir niðri í jörðinni án sólarljóss í fjölda ára.
Þá vísar hann einnig til þess að undanfarna daga hafi þeir sem losnuðu út upplýst um fólk sem hafi dáið í fangelsunum. Með því hafi fjöldi fjölskyldna í fyrsta skipti fengið endanlega vitneskju um afdrif ástvina sinna.
Spurður hvort ekki sé líklegt að farið verði í hefndaraðgerðir gegn þeim sem hafi unnið fyrir stjórnvöld og Assad segir Ali að til að byrja með virðist allavega eiga að setja þá línu að þeir sem leggi niður vopn og gefist upp verði ekki sóttir til saka.
Segir hann að það þurfi að horfa til aðstæðna flestra í þessum aðstæðum þar sem unnið var fyrir ríkið í einræðisríki þar sem leyniþjónusta fylgdist með íbúum. Segir hann að þegar fólk vinni fyrir ríkið og einhver yfirmaður segir þér að gera eitthvað geti óhlýðni sett þig á svartan lista og ekki bara þig heldur alla fjölskylduna þína. Það geti leitt til handtöku, pyndingar og jafnvel þess að verða drepinn.
Ali tekur þó fram að dæmi séu um fólk sem jafnvel sé landsþekkt fyrir grimmd og hrylling og að hafa drepið marga eða kerfisbundið stýrt pyndingum og nauðgunum. Ali segir ólíklegt að horft verði fram hjá slíku.
Spurður hvað taki við hjá Ali og fjölskyldu hans nú ef ástandið í Sýrlandi mun batna til muna segir Ali að hann telji ekki að hann muni flytja aftur til Sýrlands. Rifjar hann upp að í það heila hafi hann misst 47 ættingja í stríðinu og flestir aðrir hafi flúið landið. Einhverjir séu því í Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi og Líbanon. „Ég á engan lengur að í Sýrlandi.“
Ítrekar Ali að hann sé vonsvikinn að þeir sem hafi látist hafi ekki getað séð þessa sögulegu stund. „Ég er ánægður en vildi að þau hefðu getað upplifað þetta.“
Hann tekur fram að hann hefði áhuga á að heimsækja Sýrland aftur, en að ljóst sé að allir sem hann þekki séu látnir eða hafi flúið. Hann eigi erfitt með að sjá það fyrir sér að flytja aftur þangað þar sem stórfjölskyldan kom saman á hverju föstudagskvöldi og borðaði saman í garðinum. Ef hann færi til Sýrlands yrði hann einn þar og engin fjölskylda.