Innherji: Grunar að við séum ekki lengur í Kansas

Innherji | 11. desember 2024

Grunar að við séum ekki lengur í Kansas

Inn­herji er skoðana­dálk­ur ViðskiptaMogg­ans.

Grunar að við séum ekki lengur í Kansas

Innherji | 11. desember 2024

Inga Sæland, Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Inga Sæland, Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Eyþór

Inn­herji er skoðana­dálk­ur ViðskiptaMogg­ans.

Inn­herji er skoðana­dálk­ur ViðskiptaMogg­ans.

Skór leikkonunnar Judy Garland úr kvikmyndinni um Galdrakarlinn í Oz frá 1939 seldust á uppboði 7. desember síðastliðinn fyrir um 4,5 milljarða króna. Myndir af skónum eru í ViðskiptaMogganum.

Í stuttu máli fjallar myndin, sem byggist á bók frá 1900, um litla stelpu frá Kansas sem vaknar eftir höfuðhögg í draumaveröld þar sem ráða ríkjum galdrakarl og þrjár nornir. Inn í söguna flækjast þrjár aðrar persónur eða verur sem allar vantar eitthvað, heila, hjarta og hugrekki. Litla stúlkan þráir að hitta galdrakarlinn sem öllu stýrir og getur aðstoðað hana við að komast heim til sín.

Að lokum kemur í ljós að þau sem töldu sig vanta eitthvað höfðu það sem þau þráðu allan tímann. Galdrakarlinn reyndist lítið annað en mannlegur þegar skyggnst var á bak við tjaldið sem hann faldi sig í. Litla stelpan, í nú milljarða skónum, vissi sem er að best væri að vera heima í faðmi fjölskyldunnar.

Þrjár konur, ekki nornir þó, skilgreina nú verkefni sín á milli og útdeila verðmætum samfélagsins. Almenningur bíður í eftirvæntingu hvort skattar hækki, samt bara á suma eða breiðu bökin eins og sagt er. Aðrir eiga að fá meira úr sameiginlegum sjóðum. Þeir sem hafa unnið sér eitthvað inn eða skapað verðmæti þurfa að greiða meira til ríkisins.

Tilkynnt er um góðan gang í viðræðum flokkanna, líklega eins lengi og Flokkur fólksins bakkar með sín stefnumál enda flest óraunhæf eins og þau voru kynnt í kosningunum. Svipað og draumaveröldin í Oz, sem var síðan ekki til þegar betur var að gáð, því litla stúlkan fékk bara höfuðhögg. Neyðarlögin á Seðlabankann verða því aldrei lögð á, ekki frekar en 90 milljarða tilfærslan á ári af eignum lífeyrisþega sem Inga Sæland fullyrti að myndi vera hennar fyrsta og reyndar árlega verk. Áhugavert er að lesa í líkamstjáningu þeirra þriggja síðustu daga og þar er það nú reyndar ekki Inga Sæland sem virðist þurfa að bakka, frekar er það Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem bókstaflega er ýtt úr mynd.

Einkageirinn, fyrirtæki landsins, myndar verðmætin sem stjórnmálamenn telja sig geta eytt og endurúthlutað að vild. Stjórnmálamenn skapa engin verðmæti. Kristrún Frostadóttir virðist hafa gert það þegar hún vann hjá Kviku banka og hagnaðist um 100 milljónir vegna kaupauka, sem sem hún reyndar vildi ekki telja sem umbun fyrir vinnu því réttara væri að taka þetta í gegnum fjármagnstekjur enda lægri prósenta. Nú vill Kristrún hækka skattinn á aðra sem geta myndað álíka verðmæti.

Stjórnmálamenn eru að mörgu leyti eins og galdrakarlinn, raunverulega valdalaus en fela sig á bak við reyk, tjald og spegla. Leiðtogarnir þrír bera vonandi gæfu til að finna hugrekki til að kynna niðurskurð í ríkisrekstrinum sjálfum. Niðurskurð sem stjórnmálamennirnir og ríkisstofnanir sjálfar finna fyrir. Ágætt er að byrja á því að afnema styrki til stjórnmálaflokka.

mbl.is