Hugi Rafn Stefánsson er búinn að fullkomna jólaeftirréttinn sinn sem hann ætlar að bjóða fjölskyldunni upp á um hátíðirnar. Það er þristamús með kryddbrauðsís, toffíkaramellu og piparkökumulningi sem á engan sinn líka.
Hugi Rafn Stefánsson er búinn að fullkomna jólaeftirréttinn sinn sem hann ætlar að bjóða fjölskyldunni upp á um hátíðirnar. Það er þristamús með kryddbrauðsís, toffíkaramellu og piparkökumulningi sem á engan sinn líka.
Hugi er matreiðslumaður og starfar á veitingastaðnum OTO ásamt því að vera partur af íslenska kokkalandsliðinu og mun sjá um eftirréttinn fyrir komandi heimsmeistaramót í matreiðslu árið 2026 sem liðið mun keppa á. Hann gerði sér litið fyrir í vetur og sigraði í keppninni um Eftirrétt ársins 2024. Hugi er afar listræn í eftirréttagerð og kann að bera fram rétti sem fanga bæði augu og munn.
Jólabarnið leynist í honum og sérstaklega þegar kemur að matarhefðum. Fjölskyldan hans er fastheldin á gamla góða siði og fylgir þeim yfirleitt í matargerð og bakstri.
Hugi Rafn er mikill sælkeri og elskar að þróa nýja eftirrétti, sérstaklega fyrir hátíðirnar.
mbl.is/Árni Sæberg
Kalkúnn um jólin
„Það er alltaf kalkúnn um jólin hjá okkur fjölskyldunni og meðlæti eins og sykurbrúnaðar kartöflur, waldorfsalat, sætkartöflupæ með karamelluðu kornflexi og kremaðri villisveppasósu. Held því verði seint breytt,“ segir Hugi.
Jólasmákökur eru nokkuð sem Hugi Rafn hefur mikið dálætið á og er hluti af hans jólahaldi. „Ég elska allar jólakökur og finnst það mikill partur af jólunum. Konan bakar alltaf fullt af sortum fyrir jólin og ég nýt þeirra fríðinda að borða þær,“ segir Hugi og brosir breitt. „Sörur eru mínar uppáhalds og mér finnst þær alveg ómissandi yfir jólin en tengdamamma mín gerir bestu sörurnar.“
„Ég fæ þann heiður að gera eftirréttinn á jólunum þetta árið og verður eftirrétturinn hjá okkur fjölskyldunni eins og áður sagði þristamús með kryddbrauðsís, toffíkaramellu og piparkökumulningi sem ég er búinn að fullkomna. Ég verð illa svikinn ef hún hittir ekki í mark,“ segir Hugi sposkur á svip.
Þristamúsin með kryddbrauðsís, toffíkaramellu og piparkökumulningi sem bráðnar í munni.
mbl.is/Árni Sæberg
Þristamús með kryddbrauðsís, toffíkaramellu og piparkökumulningi
- 270 g þristar (súkkulaðiþristarnir)
- 500 ml rjómi
- 30 g flórsykur
- 5 eggjarauður
Aðferð:
- Skerið allan þristana niður í litla bita og bræðið 250 g af þeim í potti á vægum hita með 150 ml rjóma.
- Látið þristablönduna kólna vel áður en öðrum hráefnum er blandað saman við.
- Léttþeytið 350 ml af rjóma og leggið til hliðar.
- Blandið eggjarauðum og flórsykri saman þar til blandan verður létt og ljós.
- Blandið þristablöndunni varlega saman við eggjarauðublönduna.
- Blandið að lokum þeytta rjómanum varlega saman við blönduna.
- Setjið restina af skorna þristinum í botninn á litlum skálum og setjið blönduna ofan í.
- Látið kólna í að minnsta kosti klukkustund áður en bera á músina fram.
- Setjið kryddbrauðsís yfir hverja mús rétt áður en þið berið hana fram, sjá uppskrift fyrir neðan, og skreytið með toffíkaramellusósunni og piparkökumulningi að eigin vali.
Kryddbrauð
- 140 g púðursykur
- 3 egg
- 195 g hveiti
- 1 tsk. matarsódi
- 1 tsk. kanill
- ½ tsk. engifer
- ½ tsk. negull
- 146 g brætt smjör
- 50 g hunang
- 65 ml mjólk
Aðferð:
- Þeytið saman sykur og egg. Blandið þurrefnum saman við.
- Setjið svo mjólk og rjóma rólega út í, og að lokum bráðna smjörið.
- Hellið deiginu í smurt klassískt bökunarform.
- Bakið við 175°C hita í 40 mínútur.
Kryddbrauðsís
- 1,5 l mjólk
- 300 ml rjómi
- 255 g sykur
- 120 g eggjarauður
- 450 g kryddbrauð (rifið niður, sjá uppskrift fyrir ofan)
- 2 stk. matarlímsblöð
Aðferð:
- Rifið kryddbrauðið niður með rifjárni.
- Sjóðið síðan saman mjólk, rjóma, sykur og kryddbrauð, varlega.
- Takið af hita og setið eggjarauður og matarlím út í og hrærið vel saman.
- Sigtið síðan blönduna yfir í annað ílát, kælið og setjið í ílát með loki og frystið.
Toffíkaramella
- 1 bolli rjómi
- 1 bolli púðursykur
- ½ bolli ósaltað smjör
- örlítið af salti
- 1 tsk. vanilludropar
Aðferð:
- Setjið rjóma, púðursykur, salt og smjör í meðalstóran pott á vægum hita og látið púðursykurinn leysast alveg upp.
- Hrærið eins lítið og mögulegt er til að forðast að sykurkorn slettist upp á hliðar pottsins, það getur valdið kornóttri karamellusósu.
- Þegar sykurinn hefur leyst upp, hækkið þá hitann í meðalháan. Forðist að hræra of mikið á fyrstu stigum þar til karamellusósan byrjar að taka lit.
- Þá megið þið auka kraftinn við að hræra í sósunni til að koma í veg fyrir að hún brenni.
- Haldið því áfram þar til sósan hefur þykknað. Takið þá pottinn af hitanum og hrærið vanilludropunum saman við.
- Ef sósan verður of þykk má bæta við smá smjöri og/eða rjóma og hita aftur.