Bandarísk yfirvöld hafa átt í samskiptum við uppreisnarmenn HTS í Sýrlandi, nýja valdhafa í landinu.
Bandarísk yfirvöld hafa átt í samskiptum við uppreisnarmenn HTS í Sýrlandi, nýja valdhafa í landinu.
Bandarísk yfirvöld hafa átt í samskiptum við uppreisnarmenn HTS í Sýrlandi, nýja valdhafa í landinu.
Þetta tilkynnti Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna í gær eftir fund erlendra erindreka um stöðuna í Sýrlandi sem haldinn var í Jórdaníu.
Blinken fór þó ekki nánar út í þessi samskipti við uppreisnarmennina. Þess má geta að Bandaríkin skilgreindu HTS sem hryðjuverkasamtök árið 2018.
Eftir fundinn gáfu erindrekar frá Bandaríkjunum, Tyrklandi, Evrópusambandinu og Arabaríkjum út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir staðfestu fullan stuðning við Sýrland „á þessum mikilvæga tímapunkti í sögu þeirra“.
Þá hefur Tyrkland opnað sendiráð sitt í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, aðeins viku eftir að uppreisnarmennirnir steyptu Bashar al-Assad fyrrverandi forseta af stóli, en sendiráð Tyrklands í Sýrlandi var lokað fyrir um 12 árum.
Tyrknesk yfirvöld hafa tekið stóran þátt í átökunum í Sýrlandi, og verið í samstarfi við HTS.
Assad var studdur af rússneskum yfirvöldum, en hann flúði þangað eftir valdaskiptin. Auk þess studdu hann stjórnvöld Írans og Hisbollah-hópurinn í Líbanon.
Uppreisnarmennirnir hófu sókn sína 27. nóvember, sama dag og vopnahlé tók gildi í stríðinu milli Ísraels og Hisbollah í Líbanon.
Naim Qassem, leiðtogi Hisbollah, viðurkenndi í gær að með falli stjórn Assads, fái hópurinn ekki lengur vopn frá Íran eða annan hernaðarlegan stuðning í gegnum Sýrland.
Þá sagðist Qassem vona að nýir ráðamenn í Sýrlandi líti á Ísrael „sem óvin“. Ísraelar hafa framið margar hernaðarárásir innan Sýrlands frá falli Assads.
Ísraelar hafa einnig sent hersveitir inn á hlutlaust svæði í austurhluta Gólanhæða.
Leiðtogi HTS, Ahmed al-Sharaa, sagði aðgerðir Ísraels „ógna stigmögnun á svæðinu“.
Svo segir hann í yfirlýsingunni sem birt var á samfélagsmiðlum að „almenn þreyta í Sýrlandi eftir margra ára stríð leyfi þeim ekki að fara í ný átök“.