Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barni.
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barni.
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barni.
Honum er enn fremur gert að greiða móður stúlkunnar, fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, 500.000 kr. í miskabætur og gert að greiða allan sakarkostnað, eða 1,3 milljónir kr.
Héraðssaksóknari gaf út ákæru á hendur manninum í maí en brotið átti sér stað í desember 2022. Segir í ákæru að hann hafi áreitt stúlku kynferðislega um nótt á þáverandi heimili mannsins. Hann fór upp í rúm sem stúlkan svaf í og vaknaði hún eftir það. Þá snerti maðurinn og káfaði á rassi hennar utanklæða og snerti síðan og káfaði á rassi hennar og kynfærum innanklæða. Lét maðurinn ekki af háttseminni fyrr en stúlkan stóð upp og gekk í burtu.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 13. desember en var birtur í dag, að samkvæmt frumskýrslu lögreglu sé upphaf málsins það að móðir stúlkunnar kom á lögreglustöð sömu nótt og brotið átti sér stað. Þar greindi hún frá því að dóttir hennar hefði verið misnotuð kynferðislega af manninum á heimili hans. Móðir stúlkunnar kvað dóttur sína hafa varið aðfangadagskvöldi með fjölskyldu föðursystur sinnar og fengið að gista hjá þeim, sem hafi ekki verið óvanalegt. Stúlkan hefði svo hringt og beðið með titrandi röddu um að verða sótt strax.
Lögreglan fór í kjölfarið að heimili mannsins þar sem hann var handtekinn. Hann kvað við skýrslutöku kvöldið hafa verið í þoku og að hann myndi ekki mikið sökum ölvunar, en hann kvaðst hafa drukkið mikið um kvöldið og einnig um daginn. Hann neitaði sök og taldi háttsemi samkvæmt ákæru ósannaða.
Héraðsdómur segir að framburður stúlkunnar fái stuðning í framburði bæði móður og föður hennar sem hafi borið um að hún hafi verið titrandi og skjálfandi í símtalinu frá heimili mannsins, auk þess sem framburður móður styðji frásögn stúlkunnar í öllum aðalatriðum.
Þá fái framburður stúlkunnar ekki síst stuðning í framburði fyrrverandi eiginkonu mannsins um að hann hafi áður sýnt af sér slíka háttsemi, og að nokkru leyti í framburði mannsins, sem kveðst ekki rengja framburð stúlkunnar að neinu leyti og ekki hafa ástæðu til.
„Ákærði kom sér sjálfur í ölvunarástand og lagðist upp í rúm við hlið brotaþola vitandi af því að hafa í slíku ástandi áreitt þáverandi eiginkonu kynferðislega. Samkvæmt gögnum málsins og vætti vitna var ákærði ölvaður en alls ekki ofurölvi á þeim tíma sem atvikið átti sér stað. Ákærði kveðst einnig ekki hafa neina minningu af atburðinum og er því ekki við hans frásögn að styðjast heldur einvörðungu frásögn brotaþola, sem að öllu framangreindu gættu er af dóminum metin mjög trúverðug og verður lögð til grundvallar,“ segir í dómnum.