Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Síðustu daga hefur óþol gagnvart stjórnmálamönnum og opinberum aðilum sem enga ábyrgð virðast taka á þeim verkefnum sem þeim er treyst fyrir komið skýrt fram. Flokkar eins og Píratar og Vinstri-grænir horfnir af þingi. Enn eru þessir flokkar samt að í Reykjavíkurborg.
Skipulagsslysið í Breiðholtinu, þar sem yfir 11 þúsund fermetra vöruskemma virðist óvænt vera komin inn í íbúðahverfi, er gott dæmi. Þar skilur Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata og formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, ekki neitt í neinu og er að sögn miður sín. Eflaust miður sín yfir eigin getuleysi.
Nýi þingmaðurinn og fyrrverandi borgarstjóri Dagur B. Eggertsson á mikinn þátt í þessu klúðri enda var hann borgarstjóri þegar þetta verkefni var samþykkt innan borgarinnar. Hann er nú á stærra sviði og getur látið til sín taka þar, reyndar bara aukahlutverk að mati Kristrúnar leiðtoga Samfylkingarinnar.
Einar Þorsteinsson, borgarstjóri lætur hins vegar eins og flugstjóri sem á að fljúga til Kaupmannahafnar en lendir í Færeyjum. Tilkynnir í hátalarakerfinu að það sé alls ekki flugstjóranum að kenna heldur sé það farþeginn í miðjusætinu aftast sem beri ábyrgð á þessu öllu. Í þessu tilviki eru það Hagar. Auðvitað aftarlega í vélinni því framar eru ríkisstarfsmenn á leið á loftslagsráðstefnu. Gallinn fyrir Einar er sá að það var Dagur B. sem stillti kerfi vélarinnar áður en Einar tók við.
Það sem er jákvætt við þetta mál er að það sýnir algert getuleysi yfirstjórnar Reykjavíkurborgar og Búseti á íbúðarhúsnæðið sem skemman stendur við. Það er betra en ef það væru einstaklingar sem þyrftu að standa í þessari baráttu við borgina, enda hafa forsvarsmenn hennar ekkert hlustað þó bent hafi verið á mistökin.
Það er ekki einungis skemman sjálf sem er vandamálið því þungaflutningar vörubifreiða munu verða við svæðið og aksturinn leiddur um íbúðahverfið. Ekki er við byggingaraðila eða komandi rekstraraðila hússins að sakast, þeir aðilar fylgja einfaldlega þeim leikreglum sem borgin setur. Stórfyrirtækjum og einkaaðilum er reyndar ekki treystandi að mati Dóru Bjartar.
Borgin þarf að viðurkenna mistökin og húsið þarf að færa yfir á aðra lóð sem ber slíkan atvinnurekstur og þungaflutninga. Allt á kostnað borgarinnar.
Slæmt það sé ekki hægt að boða til kosninga í borginni þannig að hægt sé að losa fólk undan þeim störfum sem það ræður ekki við.