Óvíst hvað veldur virkninni: Þörf á frekari vöktun

Ljósufjallakerfi | 20. desember 2024

Óvíst hvað veldur virkninni: Þörf á frekari vöktun

Ekki er hægt að staðfesta hvað veldur jarðskjálftavirkni í Ljósu­fjalla­kerf­inu. Helst kemur tvennt til greina, innflekavirkni eða kvikusöfnun á miklu dýpi.

Óvíst hvað veldur virkninni: Þörf á frekari vöktun

Ljósufjallakerfi | 20. desember 2024

Jarðskjálftavirkni hefur reglulega mælst á svæðinu síðan vorið 2021.
Jarðskjálftavirkni hefur reglulega mælst á svæðinu síðan vorið 2021. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki er hægt að staðfesta hvað veldur jarðskjálftavirkni í Ljósu­fjalla­kerf­inu. Helst kemur tvennt til greina, innflekavirkni eða kvikusöfnun á miklu dýpi.

Ekki er hægt að staðfesta hvað veldur jarðskjálftavirkni í Ljósu­fjalla­kerf­inu. Helst kemur tvennt til greina, innflekavirkni eða kvikusöfnun á miklu dýpi.

Sumt bendir þó til þess að um kvikusöfnun á miklu dýpi sé að ræða, eins og stuttar jarðskjálftahviður sem hafa mælst undanfarið og dýpi virkninnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Morgunblaðið og mbl.is hafa fjallað ítarlega um jarðhræringar á svæðinu, en þær hafa reglulega mælst á svæðinu síðan vorið 2021.

Undanfarna mánuði hefur virknin farið vaxandi. Jarðskjálfti af stærð 3,2 mældist nærri Grjótárvatni að kvöldi 18. desember.

Frá því að virknin hófst á svæðinu vorið 2021 er jarðskjálftinn sem mældist 18. desember sá stærsti. Í tilkynningu Veðurstofunnar segir að fyrir 2021 hafi síðast mælst markverð skjálftavirkni þarna árið 1992, en þá mældust tveir skjálftar um 3 að stærð.

„Þörf er á frekari greiningu til að meta með vissu hvaða ferli er í gangi við Grjótárvatn og frekari rannsóknir verða gerðar. Núverandi vöktunargögn sýna þó engar vísbendingar um að kvika sé á ferðinni grunnt í jarðskorpunni. Veðurstofa Íslands mun skipuleggja aukna vöktun á svæðinu með jarðskjálfta- og GPS-stöðvum til að skilja og vakta betur þróun virkni á svæðinu. Ef til þess kæmi að kvika myndi færast nær yfirborði er líklegast að auknir fyrirboðar myndu mælast eins og hröð aukning í jarðskjálftavirkni sem myndi færast grynnra og/eða aflögun á yfirborði,“ segir í tilkynningunni. 

Aukin vöktun á svæðinu

Að undanförnu hefur Veðurstofan aukið vöktun sína á svæðinu. Í lok september var settur upp jarðskjálftamælir í Hlítardal og í byrjun nóvember var bætt við GPS-stöð á sama stað.

Í tilkynningunni segir að eftir að jarðskjálftamælir hafi verið settur upp nær upptökum jarðskjálftanna hafi fengist betra mat á dýpi þeirra. Flestir jarðskjálftar á svæðinu hafi verið í kringum 15 til 20 kílómetra dýpi.

Frá því að GPS-stöðin hafi verið sett upp hafi ekki mælst aflögun, landris eða sig, á yfirborði þar. Greiningar á gervitunglagögnum frá tímabilinu 2019 til sumarsins 2024 sýni heldur ekki mælanlega aflögun á yfirborði.

Gýs á 400 ára fresti

Grjótárvatn er innan eldstöðvarkerfis Ljósufjalla á Snæfellsnesi. Í tilkynningu Veðurstofunnar er tekið fram að síðasta eldgosið í Ljósufjöllum hafi verið lítið gos sem átti sér stað á 10. öld og myndaði Rauðhálsahraun.

Að meðaltali hafi eldstöðvakerfið gosið á 400 ára fresti frá síðustu 10.000 árum.

„Líklegasta sviðsmyndin, ef kerfið vaknar aftur, er lítið gos (< 0,1 km3), eða lítið sprengigos, með hraunupphleðslu og hraunrennsli. Ef til goss kæmi má búast við að lítið svæði yrði fyrir áhrifum af helstu hættum sem tengjast eldvirkni, en þær eru: hraunrennsli, gasmengun og mjög staðbundið gjóskufall,“ segir í tilkynningunni.

Morgunblaðið ræddi við Pál Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í ágúst um jarðhræringar í Ljósufjallakerfinu.

mbl.is