Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, nýr dómsmálaráðherra, segir að hún hafi fengið draumaráðuneytið. Hún kveðst ekki hrædd við að taka umdeildar ákvarðanir og segir að strax verði farið í þá vinnu að fjölga lögreglumönnum. Hún vill skoða lagaumgjörðina í kringum nálgunarbann og segir það ekki vera mannréttindi að fá að ofsækja fólk eftir ástarsamband.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, nýr dómsmálaráðherra, segir að hún hafi fengið draumaráðuneytið. Hún kveðst ekki hrædd við að taka umdeildar ákvarðanir og segir að strax verði farið í þá vinnu að fjölga lögreglumönnum. Hún vill skoða lagaumgjörðina í kringum nálgunarbann og segir það ekki vera mannréttindi að fá að ofsækja fólk eftir ástarsamband.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, nýr dómsmálaráðherra, segir að hún hafi fengið draumaráðuneytið. Hún kveðst ekki hrædd við að taka umdeildar ákvarðanir og segir að strax verði farið í þá vinnu að fjölga lögreglumönnum. Hún vill skoða lagaumgjörðina í kringum nálgunarbann og segir það ekki vera mannréttindi að fá að ofsækja fólk eftir ástarsamband.
Þetta kemur fram í samtali hennar við mbl.is í kjölfar lyklaskipta upp í dómsmálaráðuneyti.
Hún segir að það sé sérstök tilfinning að taka við lyklunum að dómsmálaráðuneytinu en á sama tíma góð tilfinning.
Var þetta draumaráðuneytið?
„Hiklaust,“ svarar Þorbjörg.
Þorbjörg segir Viðreisn hafa lagt áherslu á málaflokka sem heyra undir ráðuneytið og því hafi það verið heiður að fá tækifæri til að framkvæma þá stefnu.
Að sögn Þorbjargar þá eru helstu áherslumál hennar í ráðuneytinu að finna í stjórnarsáttmálanum. Strax verði farið í það að fjölga lögreglumönnum til að mæta fjölgun íbúa, vexti í ferðaþjónustu og stærri og flóknari verkefnum lögreglu.
„Það er af ástæðu að við viljum fjölga í löggæslu, til að styðja við það að lögreglan nái að sinna grundvallarskyldu sinni. Sem er að tryggja öryggi fólksins í landinu, tryggja öryggistilfinningu fólks í landinu, tryggja þá tilfinningu fólks að það hafi trú á því að kerfið virki. Innan kerfisins starfar mjög gott fólk en það þarf fleiri hendur,“ segir Þorbjörg.
Þorbjörg starfaði áður sem saksóknari og þá sinnti hún fyrst og fremst kynferðisbrotamálum. Spurð hvort það sé málaflokkur sem hún muni beita sér fyrir sem dómsmálaráðherra segir Þorbjörg að hún ætli að bíða með stórar yfirlýsingar.
Hún segir þó að hún hafi skoðað lagaumgjörðina í kringum nálgunarbann.
„Það eru ekki mannréttindi að fá að ofsækja fólk eftir að ástarsambandi lýkur. Hvort að það sé eitthvað þar í lögunum sjálfum eða regluverki – ég ætla að minnsta kosti sem dómsmálaráðherra að skoða það,“ segir hún og útskýrir að það væri þá gert til þess að styðja við þolendur, sem gjarnan eru konur, sem sæta hótunum og ofsóknum af hálfu fyrrverandi maka.
Dómsmálaráðuneytið tekst á við þung mál. Ákvarðanir sem dómsmálaráðherrar hafa tekið í gegnum tíðina hafa oft reynst mjög umdeildar. Má nefna mál eins og útlendingamál.
Hvernig ætlar þú að takast á við þessi erfiðu mál sem munu koma upp?
„Ég væri ekki í stjórnmálum ef ég hræddist það eða teldi að allar ákvarðanir þyrftu að vera vinsælar, þar held ég kannski að bakgrunnur minn sem saksóknari hjálpi líka,“ segir hún og nefnir að stjórnarflokkarnir séu nokkuð samstíga í útlendingamálum.
Hún segir að breytingarnar á útlendingalögum í vor hafi verið skref í þá átt að fækka séríslenskum reglum og hún hyggst ekki reyna að fella þær breytingar úr gildi.
„Það er til dæmis í stjórnarsáttmálanum klausa um það að menn sem eru dæmdir fyrir alvarleg brot eða eru ógn við öryggi ríkisins, að þeim megi vísa úr landi. Þannig það er ákveðin vísbending um hvert við ætlum að fara í þeim efnum,“ segir Þorbjörg.
Spurð út í jólaundirbúninginn viðurkennir hún að hann hafi ekki alveg verið upp á 10 í ljósi aðstæðna.
En hún náði þó að baka sörur með vinkonum sínum á dögunum, sem hún segir vera heilaga hefð, og á milli funda hefur hún reynt að nýta tímann til að kaupa jólagjafir.