Segir að verið sé að svindla á Bandaríkjunum

Segir að verið sé að svindla á Bandaríkjunum

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, segir gjöld á bandarísk skip sem fara í gegnum Panamaskurðinn, sem tengir saman Atlantshaf við Kyrrahaf, vera ósanngjörn og hefur hann hótað að hann muni krefjast þess að öll yfirráð yfir skurðinum verði færð yfir til Bandaríkjanna á ný.

Segir að verið sé að svindla á Bandaríkjunum

Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseti | 22. desember 2024

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, í París í Frakklandi 7. desember.
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, í París í Frakklandi 7. desember. AFP/Sarah Meyssonnier

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, segir gjöld á bandarísk skip sem fara í gegnum Panamaskurðinn, sem tengir saman Atlantshaf við Kyrrahaf, vera ósanngjörn og hefur hann hótað að hann muni krefjast þess að öll yfirráð yfir skurðinum verði færð yfir til Bandaríkjanna á ný.

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, segir gjöld á bandarísk skip sem fara í gegnum Panamaskurðinn, sem tengir saman Atlantshaf við Kyrrahaf, vera ósanngjörn og hefur hann hótað að hann muni krefjast þess að öll yfirráð yfir skurðinum verði færð yfir til Bandaríkjanna á ný.

Þá hefur hann einnig gefið í skyn að Kína hafi vaxandi áhrif á flutninga í gegnum skurðinn sem er áhyggjuefni fyrir Bandaríkin þar sem fyrirtæki landsins eru háð skurðinum fyrir vöruflutning á milli Atlantshafsins og Kyrrahafsins.

Trump tjáði sig í gær á miðli sínum Truth Social þar sem hann sagði m.a. að komið væri fram við Bandaríkin með mjög ósanngjörnum hætti þegar kæmi að vöruflutningi þeirra í gegnum skurðinn.

Svindlið muni hætta eins og skot

„Gjöldin sem Panama er að innheimta eru fáránleg,“ sagði Trump í færslu sinni og bætti við:

„Þetta algjöra svindl á landinu okkar mun hætta eins og skot.“

Panamaskurðurinn var kláraður af Bandaríkjunum árið 1914 og hafði landið öll yfirráð yfir skurðinum á árunum 1977 til 1999 en þá færðist allt yfirráð yfir til Panama.

Í færslu sinni í gær sagði Trump að skurðurinn hefði „einungis átt að vera undir stjórn Panama en ekki Kína eða nokkurs annars.“

„Við myndum og munum aldrei láta [skurðinn] falla í rangar hendur!,“ hélt Trump áfram.

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti. AFP

Skilaði mettekjum á síðasta fjárhagsári

Þá sagði hann að ef Panama gæti ekki tryggt „öruggan, skilvirkan og áreiðanlegan rekstur“ á skurðinum myndu Bandaríkin krefjast þess að stjórn yfir skurðinum yrði skilað til Bandaríkjanna „að fullu leyti og án spurninga“.

Yfirvöld í Panama hafa ekki brugðist við færslu Trumps.

Áætlað er að um 5% af sjóumferð á heimsvísu fari í gegnum Panamaskurðinn, sem gerir skipum á milli Asíu og austurstrandar Bandaríkjanna kleift að forðast hina löngu og háskalegu leið um suðurodda Suður-Ameríku.

Helstu notendur leiðarinnar eru Bandaríkin, Kína, Japan og Suður-Kórea en yfirvöld Panamaskurðarins greindu frá því í október að leiðin hefði skilað mettekjum upp á tæpa fimm milljarða dollara, eða um 692 milljarða íslenskra króna, á síðasta fjárhagsári.

mbl.is