Ungur Breti sem starfaði sem leiðsögumaður hér á landi í nokkur sumur var meðal þeirra sem létust í hryðjuverkaárásinni í New Orleans á gamlárskvöld.
Ungur Breti sem starfaði sem leiðsögumaður hér á landi í nokkur sumur var meðal þeirra sem létust í hryðjuverkaárásinni í New Orleans á gamlárskvöld.
Ungur Breti sem starfaði sem leiðsögumaður hér á landi í nokkur sumur var meðal þeirra sem létust í hryðjuverkaárásinni í New Orleans á gamlárskvöld.
Frá því greinir Jóhann Gunnar Arnarsson, veitingastjóri í veiðihúsinu Fossgerði við Selá, einnig þekktur sem Jói bötler.
„Þetta er ungur maður sem var að vinna með okkur. Hann varð undir bílnum og dó í þessari árás,“ segir Jóhann.
Bandaríkjamaðurinn Shamsud-Din Jabbar varð alls fimmtán manns að bana og særði tuttugu er hann keyrði inn í mannmergð á Bourbon-stræti á nýársnótt þar sem áramótafögnuður fór fram.
Kveðst Jóhann ekki vilja nafngreina manninn að svo stöddu þar sem fjölskylda hans hafi hvorki tjáð sig um málið né hafi nafn hans verið birt í fjölmiðlum enn sem komið er.
Maðurinn var búsettur í Bretlandi en kom iðulega hingað til lands til að sinna leiðsögumennsku. Jóhann segir að allir sem hafi fengið kynni af manninum við Selá og víðar séu harmi slegnir yfir fregnunum.
„Þetta er rosalega sláandi þegar þetta er komið svona nálægt manni. Þetta eru ekki bara tölur á blaði.“
Síðasta sumar hafi hann komið til Íslands til þess að veiða en ekki til að starfa og segir Jóhann það hafa verið mikla fagnaðarfundi.
„Það var dásamlegt að hitta hann. Hann var alveg dásamlegur ungur maður. Það bara gerði sér náttúrulega enginn grein fyrir því hversu stutt hann ætti eftir.“
Hann hafi frétt af andláti hans í gegnum annan kollega sem er búsettur í Bandaríkjunum. Bretinn ungi hafi verið staddur þar í fríi og var staddur í Bourbon-stræti til að fagna nýja árinu sem gekk í garð.
Segir Jóhann það algjörlega ólíðandi og óskiljanlegt að atburður sem þessi geti átt sér stað og að fólk sem sé úti að skemmta sér eða sé á ferðalagi eigi á hættu að verða fyrir árás sem þessari.
„Við vorum með fimm ára barnabarn hjá okkur í gær og fréttirnar voru í gangi og hann spurði hvers vegna einhver hefði verið að keyra á svona marga til þess að drepa þá. Svo var næsta frétt um stunguárás,“ segir Jóhann.
„Hvað getur maður sagt? Hvernig getur maður útskýrt þetta ástand? Það er ekki auðvelt.“