Arkitektinn Rafael Campos de Pinho tekur á móti blaðamanni á heimili sínu í Hlíðunum í Reykjavík. Samtalið hefst á að ræða skipulag íbúða í hverfinu, þar með talinna sérhæða með stórum og björtum stofum og rúmgóðum herbergjum, og hvernig það er ólíkt skipulagi margra íbúða á þéttingarreitum. Slíkar íbúðir virðast ekki lengur vera byggðar.
Arkitektinn Rafael Campos de Pinho tekur á móti blaðamanni á heimili sínu í Hlíðunum í Reykjavík. Samtalið hefst á að ræða skipulag íbúða í hverfinu, þar með talinna sérhæða með stórum og björtum stofum og rúmgóðum herbergjum, og hvernig það er ólíkt skipulagi margra íbúða á þéttingarreitum. Slíkar íbúðir virðast ekki lengur vera byggðar.
Arkitektinn Rafael Campos de Pinho tekur á móti blaðamanni á heimili sínu í Hlíðunum í Reykjavík. Samtalið hefst á að ræða skipulag íbúða í hverfinu, þar með talinna sérhæða með stórum og björtum stofum og rúmgóðum herbergjum, og hvernig það er ólíkt skipulagi margra íbúða á þéttingarreitum. Slíkar íbúðir virðast ekki lengur vera byggðar.
Rafael lauk námi í arkitektúr og borgarskipulagi frá brasilíska háskólanum Escola de Arquitetura Universidade Federal de Minas (EA-UFMG), ásamt því að hafa lokið MA-námi í fasteignaviðskiptum frá hagfræðideild Universidad de Barcelona. Hann hlaut viðurkenningu fyrir útskriftarverkefni sitt í Brasilíu og hitti við það tilefni íslenska arkitektinn Pálmar Kristmundsson, hjá PK Arkitektum. Með þeim tókst vinskapur og kom Rafael til Íslands 2006 til að starfa í þrjá mánuði en örlögin tóku aðra stefnu. Rafael á íslenska sambýliskonu, Ernu Hreinsdóttur, og saman eiga þau dótturina Flóru, 12 ára.
Rafael hefur starfað sem arkitekt víða um heim og árið 2020 stofnaði hann stofuna Jörp ásamt Jóhanni Erni Logasyni. Undanfarið hefur hann starfað með stofunni DPZ CoDesign, sem er þekkt fyrir borgarskipulag í Bandaríkjunum, við hin ýmsu verkefni í Norður-Ameríku.
Rafael hafði samband við blaðamann síðsumars í fyrra í tilefni af umfjöllun Morgunblaðsins um þéttingu byggðar. Síðan hefur umræðan farið á flug og margir tjáð sig um þau áhrif sem þétting byggðar hefur haft á ásýnd höfuðborgarsvæðisins, ekki síst Reykjavíkur, en Rafael reynist hafa sterkar skoðanir á málinu.
Nú er mikið rætt um kosti og galla þess að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu. Dæmi er vöruhúsið við Álfabakka í Suður-Mjódd. Hvaða skoðun hefurðu á arkitektúrnum sem hefur leitt af þessari stefnu síðustu 10-15 ár?
„Þetta vöruhús hefur skapað mikla umræðu og það er í sjálfu sér mikilvægt. Þetta mál sýnir hve alvarlegir hlutir eru að eiga sér stað við uppbyggingu íbúða á höfuðborgarsvæðinu og það ætti að fara fram miklu meiri umræða um þessa stefnu en verið hefur til að koma samtalinu á hærra plan. Hvaða árangri skilar stefnan? Hvaða leiðir eru til úrbóta? Mér datt í hug að það væri góð byrjun að ræða við þig.
Þegar ég kom fyrst til Íslands fyrir 19 árum fannst mér Reykjavík vera heimsklassa hönnunarmiðstöð. Ég hóf störf hjá hinum alþjóðlega viðurkenndu PK Arkitektum og fyrstu vikuna sá ég framúrskarandi útskriftarsýningu hjá Listaháskóla Íslands. Hér var lifandi lista-, tónlistar- og tískusena. Ég hafði verið ár í New York og Berlín og fannst Reykjavík vera allt eins framsækin og fáguð.
Síðan hefur borgin gengið í gegnum töluverðan vöxt og þróun. Því miður hefur þessi þróun leitt af sér hverfi sem einkennast af köldum og kassalegum byggingum sem eru mótaðar í kringum bílastæði. Byggingar sem eru án nokkurra tengsla við hina ríku hefð Íslendinga fyrir hlýlegum arkitektúr á mannlegum skala. Það er dapurlegt að sköpunin og frumleikinn sem Íslendingar eru þekktir fyrir skuli ekki endurspeglast í borgarlandslaginu.“
Hvað kann að skýra það?
„Ætli það séu ekki nokkrir þættir. Einn þeirra er að regluverkið mótar byggingarnar meira en hönnuðirnir. Það er hvati til að sameina lóðir og byggja mikinn byggingarmassa. Því ef það þarf til dæmis að vera lyfta þykir æskilegt að geta deilt kostnaðinum á eins margar íbúðir og kostur er. Fjármálastofnanir kjósa einnig heldur stærri verkefni. Það er skilvirkara fyrir banka að fjármagna stór íbúðaverkefni en lítil. Í þessu umhverfi gegnir arkitektinn mjög veigalitlu hlutverki við hönnun íbúðarhúsnæðis. Þegar byggingarstaðlar hafa verið uppfylltir, og búið er að laga verkáætlun og efnisval að viðskiptaáætlun verktakans, er ekki mikið eftir til að „hanna“. Kannski velja litinn á svalirnar. Samhliða er það viðhorf margra verktaka að arkitektar séu egóistar sem skapi dýra list á þeirra kostnað.“
Er lausn í sjónmáli?
„Ég hef mikið starfað í Bandaríkjunum að undanförnu og þar standa arkitektar frammi fyrir sambærilegum vandamálum vegna regluverksins. Valið stendur á milli þess að byggja hús fyrir eina fjölskyldu í úthverfi eða hús sem er sex hæðir eða hærra en allt annað á milli er nær útilokað að byggja. Því hafa verið byggð mörg háhýsi með 200 íbúðum en nær engar byggingar í millistærð.
Ég hef starfað með nokkrum af þeim afskaplega færu hönnuðum borgarskipulags sem stofnuðu hreyfinguna Congress For the New Urbanism (CNU) á 10. áratugnum til að stuðla að úrbótum í úthverfunum. Eitt af því sem þau beittu sér helst fyrir var uppbygging húsa sem á ensku nefnast Missing middle housing en það eru byggingar fyrir margar fjölskyldur. Það er margt líkt með þeim húsum og því sem við sjáum til dæmis í Hlíðunum, Vesturbænum, Þingholtunum og víðar. Þessar byggingar bjóða upp á hóflegan þéttleika og skapa fallega götumynd en um leið er tryggt að sérhver íbúð fái næga dagsbirtu og loftræstingu.
Slíkar íbúðir eru hagkvæmari í byggingu með því að lágmarka sameiginleg rými, ganga og lyftur. Slík byggð er heldur ekki svo þétt að hún skapi vandamál vegna bílastæða. Stórhýsi leiða af sér stór bílastæði, eða dýr bílastæðahús í kjallara, en þegar byggðin er með meðalþéttleika er hægt að leggja bílum við göturnar eða á milli húsanna svo að lítið fari fyrir þeim. Þannig er hægt að skapa betri framhliðar og vinaleg rými milli gangstéttar og byggingar, milli almannarýmis og einkarýmis.
Nánar er rætt við Rafael í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.