Íslensk fjölskylda búsett í Los Angeles lýsir hamfaraástandinu þar í borg.
Íslensk fjölskylda búsett í Los Angeles lýsir hamfaraástandinu þar í borg.
Íslensk fjölskylda búsett í Los Angeles lýsir hamfaraástandinu þar í borg.
Fjölskyldan flaug frá Íslandi til Kaliforníu um sama leyti og gróðureldarnir brutust út í gær og sáu eldinn út um flugvélargluggann er heim til LA var komið.
Hjónin og arkitektarnir Erla Dögg Ingjaldsdóttir og Tryggvi Þorvaldsson búa ásamt dætrum sínum Carmeni Ingu og Andreu Reyn í Santa Monica í Kaliforníu. Santa Monica er skammt frá Palisades-hverfi í Los Angeles sem miklir gróðureldar herja á um þessar mundir.
„Þetta er algjört neyðarástand og mér finnst rosa skrítið að koma úr kuldanum og notalegheitunum á Íslandi og koma að LA standandi í ljósum logum,“ segir Erla Dögg í samtali við mbl.is.
Meðfylgjandi myndskeið er frá heimili vinkonu Carmenar og Andreu.
Segir fjölskyldan ástandið afar ógnvekjandi og kveðst Erla raunar hafa verið „á vaktinni“ frá því að þau komu heim, að fylgjast með framvindu mála og tilmælum yfirvalda ef það skyldi gerast að þau þurfi að yfirgefa heimili sitt.
Eins og er hefur fjölskyldunni og nágrönnum þeirra ekki verið gert að yfirgefa heimili sín þar sem vindátt er þeim enn í hag. Íbúar hafi aftur á móti fengið tilmæli um að halda sig heima og skólastarf hefur verið lagt niður.
Þá hefur einnig verið biðlað til borgarbúa að spara vatn í lengstu lög þar sem vatnsbirgðir eru af skornum skammti í þeim mikla þurrki sem herjar á svæðið.
Segir fjölskyldan að þyrlur með vatnsbirgðir ætlaðar slökkvistarfi hafi ekki getað tekið á loft vegna lélegs skyggnis sökum eldanna.
„Loftgæðin eru alveg hræðileg og bara 3% raki,“ segir Erla en í sömu andrá kemur heimilisfaðirinn Tryggvi inn að utan og segir tré og runna hafa fokið til í sterkum vindhviðum og liggja á víð og dreif um göturnar. Mikinn reyk liggi einnig yfir borgina.
„Það er svo mikið ryk yfir borginni allri,“ segir Tryggvi.
„Þetta er bara næstum því eins og eldgos.“
Fjölskyldan útskýrir að einungis ein leið sé út úr hverfinu, þ.e. að keyra eftir Sunset Boulevard, og að mikið öngþveiti hafi skapast þar er fólki var gert að rýma heimili sín.
Svo mikil umferðarteppa hafi skapast að slökkviliðsbílar komust ekki í gegn og endaði það á því að fólki var gert að yfirgefa bílana og jarðýta kom og ruddi þeim af vegi til að ryðja veginn fyrir viðbragðsaðila.
Carmen og Andrea segjast eiga marga vini og kunningja í Palisades-hverfi sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín og leita skjóls hjá vinum og vandamönnum. Palisades-menntaskóli sem mörg þeirra sækja hafi sömuleiðis brunnið til kaldra kola í dag.
Margir sem hafi yfirgefið heimili sín séu nú í algjörri óvissu um hvort húsin þeirra hafi orðið eldinum að bráð enda engin leið að vita hvernig eldurinn hagar sér.
Þau hjónin þekki sömuleiðis marga sem búi á svæðunum þar sem eldarnir geisa og hafi komið að hönnun og byggingu fjölda heimila á hættusvæðunum. Á þó enn eftir að skýrast hve mörg þeirra hafi orðið eldi að bráð.
„Við erum auðvitað í hálfgerðu sjokki og erum ábyggilega ekki alveg búin að átta okkur á þessu,“ segir Erla.