Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur efast stórlega um að nokkur hafi verið drepinn á Sjöunda á Rauðasandi, í einu frægasta morðmáli Íslands.
Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur efast stórlega um að nokkur hafi verið drepinn á Sjöunda á Rauðasandi, í einu frægasta morðmáli Íslands.
Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur efast stórlega um að nokkur hafi verið drepinn á Sjöunda á Rauðasandi, í einu frægasta morðmáli Íslands.
Þau Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir voru dæmd til dauða fyrir að hafa orðið Guðrúnu Egilsdóttur og Jóni Þorgrímssyni að bana árið 1802. Guðrún var eiginkona Bjarna og Jón var eiginmaður Steinunnar. Áttu hjónin tvö heima saman á Sjöundá.
„Ég get ekki séð annað í þessu máli en að glæpamaðurinn sé hreinlega settur sýslumaður sem sá um málið. Og ég held að Bjarni hafi ekki drepið neinn og ekki Steinunn heldur,“ segir Steinunn í Dagmálum.
Steinunn hefur lengi rannsakað aftökur á Íslandi og segist viss um að margir hafi verið teknir af lífi hér á árum áður án þess að hafa drýgt glæp. Var það þó aðallega fólk úr neðstu stéttum samfélagsins.
„Ég sveiflaðist svona fram og til baka með þetta en ég er núna algjörlega á því að hann [Bjarni] drap ekki neinn,“ segir Steinunn.
„Það gerist þarna þetta ár, 1802, að þau deyja bæði Jón og Guðrún, sem sagt makarnir. Það var alveg vitað að Bjarni og Steinunn voru farin að draga sig saman þarna. Það hafði kvisast svona út að það væru vandræði þarna á Sjöundárbænum og það var notað sem grunnur að baki því að þau væru talin hafa drepið maka sína, af því að þau deyja þarna bæði.“
Jón hafði verið að sækja hey í Skorarhlíðar, austan við Rauðasand, í apríl þegar hann lést. Um sumarið lést svo Guðrún eftir að hafa glímt við langvarandi veikindi.
„Síðan þegar líkið af Jóni finnst hálfu ári síðar, í lok september 1802, þá fyrirskipar settur sýslumaður í Haga að það eigi að handtaka Bjarna og það eru eiginlega engin sönnunargögn, það er engin rannsókn og ekki neitt.
Og svo komst ég líka að því sem mér fannst furðulegt – að þessi settur sýslumaður var barnabarn sýslumannsins í Haga, barnabarn Davíðs Schevings sýslumanns. Hann er rétt rúmlega tvítugur, hann er ekki búinn að lesa lög og hefur enga reynslu af svona störfum, þannig hann er í raun og veru ekki hæfur til að sjá um þetta mál.“
Guðmundur Scheving, settur sýslumaður í Sjöundármálinu, varð síðar sýslumaður.
„Mér finnst svona eins og hann hafi ætlað að keyra þetta í gegn til þess að fá embættið og standa sig vel.“
Steinunn vekur athygli á því að Guðmundur hafi verið ávíttur fyrir alls konar brot í málsmeðferðinni.
„Og öðrum [málum] sem hann var að sinna. Og það er nú þannig að yfirvaldið er ávítt en svo er almúginn tekinn af lífi fyrir sambærileg brot.“
Sem dæmi nefnir Steinunn að eftir að Bjarni var handtekinn og færður í varðhald á Haga hafi Guðmundur farið til Reykjavíkur til að sinna einkaerindum og skilið Bjarna eftir í haldi í 40 daga.
„Og samkvæmt heimildum þá var hann í járnum, háls- og fótajárnum, og þetta var brot á – og hann ávíttur fyrir þetta, þetta var brot á lögum þessa tíma,“ segir Steinunn.
„Við vitum það í dag hvaða áhrif einangrun getur haft á minni fólks. Þetta er greinilegt brot og virðingarleysi gagnvart sakborningi.“
Þegar Guðmundur kemur loks til baka boðar hann til réttarhalda í Sauðlauksdal í Patreksfirði.
Eftir fjóra daga játa Bjarni og Steinunn á endanum.
„Þau eru örugglega pyntuð, vegna þess að það mátti pynta sakborninga. Það er ekki fellt úr lögum fyrr en 1808.“
Í kjölfarið dæmir Guðmundur þau Bjarna og Steinunni til dauða í héraði. Daginn eftir lætur hann bjóða upp allar eigur þeirra, áður en búið er að staðfesta dóminn.
„Síðar fer hann siglandi frá Haga á Barðarströnd yfir á Sjöundá og rænir öllu sem er eftir í húsunum þar.“
Steinunn og Bjarni áttu þó ekkert í húsunum á Sjöundá heldur var það Arnfríður, maddaman í Saurbæ á Rauðasandi, sem kærði Guðmund Scheving í kjölfarið.
Þegar Guðmundur Scheving afritar svo dómabókina til að senda dauðadóminn yfir Bjarna og Steinunni til staðfestingar hjá landsyfirrétti, þá falsar hann afritið.
„Dómabókinni og afritinu ber ekki saman. Þannig að hann braut á þeim með ótrúlegum hætti. Þetta er náttúrulega glæpur að falsa réttarskjöl,“ segir Steinunn.
„En það sem er líka merkilegt í þessu með þetta afrit er að allt sem hefur verið skrifað um Sjöundármálin byggir á þessu afriti.“