Borgarfulltrúi Los Angeles, Kathryn Barger, segir yfirvöld vongóð um að slökkviliðsmenn geti brátt náð einhverjum tökum á gróðureldum sem herja á borgina.
Borgarfulltrúi Los Angeles, Kathryn Barger, segir yfirvöld vongóð um að slökkviliðsmenn geti brátt náð einhverjum tökum á gróðureldum sem herja á borgina.
Borgarfulltrúi Los Angeles, Kathryn Barger, segir yfirvöld vongóð um að slökkviliðsmenn geti brátt náð einhverjum tökum á gróðureldum sem herja á borgina.
„Við erum vongóð um að það taki loks að lægja,“ sagði Barger á blaðamannafundi fyrir skemmstu og sagði flugskilyrði loks orðin nógu góð til að hægt væri að notast við þyrlur til að berjast við eldana.
Ástandið í borg englanna hefur leikið borgarbúa grátt og hafa margir misst heimili sín á síðasta sólarhringnum. Gróðureldarnir hafa dreift sér á ógnarhraða og viðbragðsaðilar hafa náð litlum sem engum tökum á útbreiðslu þeirra sökum sterkrar vindáttar og mikils þurrks á svæðinu.
Að minnsta kosti fimm manns hafa látið lífið í gróðureldunum en á blaðamannafundinum kom fram að talan væri enn sú sama og í gærkvöldi.
Barger sagði Los Angeles-borg og Los Angeles-sýslu vinna náið saman að lausnum og þjónustu við íbúa sem hafi þurft að yfirgefa heimili sín og sagði annað neyðarskýli hafa verið opnað fyrir þá sem hafi misst heimili sín eða misst ástvini.
Beindi hún orðum sínum næst að óprúttnum aðilum sem hafa nýtt sér ástandið til þess að brjótast inn á og fara ránshendi um heimili annarra.
„Skammist ykkar, þið sem nýtið ykkur aðstæðurnar til að brjóta á fólki á þessum erfiðu tímum,“ sagði Barger og ítrekaði að aðilar sem viðhafi slíkt verði handteknir og sóttir til saka.
Borgarstjóri LA, Karen Bass, tók næst til máls og sagði vindstyrk enn af sögulegri stærðargráðu en að þó hefði dregið nóg úr til að slökkviliðsmenn væru farnir að ná einhverjum tökum á útbreiðslu gróðureldanna.
Hvatti hún fólk til að styrkja dýralífssjóð Kaliforníu og brunavarnastofnun Los Angeles. Minnti hún einnig á að leigugistingarfyrirtækið Airbnb bjóði upp á ókeypis gistingar fyrir þá sem hafi þurft að rýma heimili sín.
„Við þurfum öll að leggja hönd á plóg núna,“ sagði Bass.