Ný stjórn standi vörð um völlinn

Reykjavíkurflugvöllur | 6. febrúar 2025

Ný ríkisstjórn standi vörð um flugvöllinn

„Sáttaferlið er rofið og borgin stendur ekki við sitt,“ var niðurstaða inngangsorða Matthíasar Sveinbjörssonar, forseta Flugmálafélags Íslands og fundarstjóra á opnum fundi um stöðu og framtíð Reykjavíkurflugvallar á Hótel Reykjavík Natura í kvöld þar sem sérfræðingar tóku til máls um stöðu vallarins, rekstraráskoranir og horfur til framtíðar, en Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra og Einar Þorsteinsson borgarstjóri ávörpuðu fundinn.

Ný ríkisstjórn standi vörð um flugvöllinn

Reykjavíkurflugvöllur | 6. febrúar 2025

Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra kvað ríkisstjórnina styðja við flugvöllinn af heilum …
Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra kvað ríkisstjórnina styðja við flugvöllinn af heilum hug. Myndin er frá vorinu 2022 og Eyjólfur þá ekki ráðherra enn sem komið var. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Sáttaferlið er rofið og borgin stendur ekki við sitt,“ var niðurstaða inngangsorða Matthíasar Sveinbjörssonar, forseta Flugmálafélags Íslands og fundarstjóra á opnum fundi um stöðu og framtíð Reykjavíkurflugvallar á Hótel Reykjavík Natura í kvöld þar sem sérfræðingar tóku til máls um stöðu vallarins, rekstraráskoranir og horfur til framtíðar, en Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra og Einar Þorsteinsson borgarstjóri ávörpuðu fundinn.

„Sáttaferlið er rofið og borgin stendur ekki við sitt,“ var niðurstaða inngangsorða Matthíasar Sveinbjörssonar, forseta Flugmálafélags Íslands og fundarstjóra á opnum fundi um stöðu og framtíð Reykjavíkurflugvallar á Hótel Reykjavík Natura í kvöld þar sem sérfræðingar tóku til máls um stöðu vallarins, rekstraráskoranir og horfur til framtíðar, en Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra og Einar Þorsteinsson borgarstjóri ávörpuðu fundinn.

„Maður þarf að spóla dálítið til baka, eiginlega til 2013, til að rifja það upp að á þeim tíma var lagt fram Aðalskipulag Reykjavíkur sem eftir töluverðar umræður um Reykjavíkurflugvöll í áratugi varð þess valdandi að flugsamfélaginu, og þeim sem láta sig flugsamgöngur varða, blöskraði,“ sagði Matthías.

Rifjaði hann upp fyrir fundargestum að í skipulaginu hefðu þær breytingar verið boðaðar á flugvallarmálum að norðaustur-suðvesturbrautin yrði lögð af það sama ár, 2013, æfinga-, kennslu- og einkaflug lagt af 2015, norður-suðurbrautin lögð af 2016 og flugvallarstarfsemin með öllu að lokum árið 2024.

Rifjaði hann því næst upp mótmæli og söfnun 70.000 undirskrifta gegn þessum fyrirætlunum sem lyktaði með því að ríki, borg og flugfélagið Icelandair hafi sammælst um að finna lausn á áratugalöngu deilumáli, stað fyrir flugvöllinn og loka með því málinu.

Mikilvægi flugs ekki verið meira

Eftir mikla yfirlegu Rögnunefndarinnar svokölluðu í kjölfarið, sem Matthías sjálfur átti sæti í, hafi sátt náðst um flugvöll í Hvassahrauni og allir aðrir staðsetningarmöguleikar afskrifaðir í kjölfarið. Hvort tveggja samkvæmt niðurstöðum þeirrar nefndar og hóps sem lagðist yfir málið árið 2019 átti að tryggja rekstraröryggi í Vatnsmýri á meðan nýr flugvöllur væri undirbúinn og útbúinn.

Tæpti Matthías svo á stöðu mála og dró fram glæru frá fundi um stöðu flugvallarins fyrir tveimur árum með yfirskrift um hvað gerst hefði á tíu árum utan hvað Matthías hafði strikað yfir töluna 10 og skrifað þar 12 til merkis um að staðan nú væri óbreytt frá þeim fundi, neyðarbraut hafði þá verið lokað, Hlíðarendahverfi byggt, flugumferðarstjórnarmiðstöð byggð, orkuskipti í flugi hafin.

Hins vegar hafi þá – og einnig nú – mikilvægi flugs ekki verið meira, umdeild tré í Öskjuhlíð standi enn, aðflugsljós sé enn ekki komin upp og gamla flugstöðin óbreytt frá síðustu öld.

Við lok síns máls bauð Matthías Eyjólf Ármannsson samgönguráðherra velkominn í pontu og tók ráðherra þegar af skarið um afstöðu ríkisstjórnarinnar í upphafsorðum framsögu sinnar.

Ekki einkamál höfuðborgarbúa

„Það blés í gær og það blés í dag og það hefur gustað hressilega um Reykjavíkurflugvöll um árabil,“ hóf Eyjólfur mál sitt. „Ný ríkisstjórn er einhuga um að standa vörð um framtíð Reykjavíkurflugvallar á núverandi stað í Vatnsmýrinni, svo einfalt er það,“ sagði ráðherra í framhaldinu og uppskar mikil fagnaðarlæti úr sal.

Kvað hann það hafa verið heiðskírt í sínum huga um langan tíma að framtíð aðalflugvallar og miðstöðvar innanlandsflugs væri í Reykjavík til lengri tíma „og þá hér í Vatnsmýrinni“, tók hann fram.

Ræddi ráðherra því næst þungavigtarhlutverk flugvallarins um langt árabil, væri hann allt í senn miðpunktur innanlandsflugs, varaflugvöllur fyrir millilandaflug á suðvesturhorninu auk þess að gegna mikilvægu hlutverki fyrir aðra flugtengda starfsemi og hjarta íslenskrar flugmenningar hefði slegið þar um langa hríð.

Eyjólfur sagði Íslendinga flugþjóð og að áhugavert væri að skoða hverjar ástæður þess væru. „Við erum fámenn þjóð í stóru landi og flug hefði, ekki að ástæðulausu, verið grunninnviður samgöngukerfis landsins allt frá því að fyrsta flugfélag landsins var stofnað í Reykjavík árið 1919,“ rifjaði hann upp.

Fagnar skýrum og einföldum skilaboðum

Sagðist Eyjólfur líta svo á að það væri ein af meginskyldum Reykjavíkur sem höfuðborgar að gæta þess að þar væri starfræktur flugvöllur sem tryggði góðan aðgang allra íbúa landsins að höfuðborginni. „Undanfarna áratugi hefur ýmiss konar sérhæfð þjónusta verið byggð upp hér á höfuðborgarsvæðinu. Þessi þjónusta er ekki einkamál höfuðborgarbúa, hún er fyrir okkur öll, hvort sem við búum á Bíldudal eða í Breiðholti,“ hélt hann áfram.

Fólk á landsbyggðinni treysti á flugvöllinn til þess að geta sótt mikilvæga þjónustu til höfuðborgar sinnar og væri þar ekki síst sjúkraflugið er gæta þyrfti sérstaklega að. Vísaði hann í fréttaflutning fyrr í vikunni og þau ummæli Einars Þorsteinssonar borgarstjóra að flugvöllurinn yrði á sínum stað í Vatnsmýrinni út tímabil núverandi skipulags – til ársins 2040.

„Ég fagna þessum skýru og einföldu skilaboðum frá borgarstjóra og Reykjavíkurborg,“ sagði ráðherra því næst og bætti því við að í samgöngum væri öryggi mikilvægasta verkefnið á hverjum tíma og svo skyldi einnig vera um flug, hvort tveggja innanlands sem á alþjóðavettvangi. Álitamál tengd Reykjavíkurflugvelli væru þekkt og með þeim hefði hann fylgst sem borgari, alþingismaður og ráðherra samgöngumála. Engan afslátt mætti gefa af flugöryggi og væri það undirstaða tilvistar Reykjavíkurflugvallar.

„Ef andstæðingar Reykjavíkurflugvallar nota ógn við flugöryggi sem rök fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur fari, er mikilvægt að þeir aðilar komi fram og haldi þeim sjónarmiðum sínum á lofti,“ sagði Eyjólfur og kvað það skyldu allra er að kæmu að tryggja flugöryggi á vellinum. Leysa þyrfti öll ágreiningsmál og tryggja flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli og í landinu.

„Tek það mjög alvarlega sem hefur gerst“

„Bróðir minn hringdi einu sinni í mig, fyrir nokkrum árum, úrvinda eftir að hafa hnoðað mann alla leið frá Neskaupstað upp á Egilsstaði – hann var sjúkraflutningamaður þar – til að koma honum í sjúkraflug,“ sagði Einar Þorsteinsson borgarstjóri frá snemma í sínu erindi á fundinum.

Hefði Einari þótt umræðan um Reykjavíkurflugvöll allt of mikið í skotgröfum og ekki á uppbyggilegum forsendum. „Og ég tek það mjög alvarlega sem hefur gerst núna, að þurft hafi að grípa til þess að loka flugbraut, það er graflalvarlegt mál. Flugvöllurinn gegnir lykilhlutverki í íslensku samfélagi og er ekki bara einkamál Reykvíkinga heldur mál landsmanna allra,“ sagði borgarstjóri.

Kvað hann afstöðu sína skýra, flugvöllurinn væri lykilsamgönguæð, ekki bara fyrir sjúkraflug, flugvöllurinn væri mikilvægur innviður. Reykjavík væri ekki bara höfuðborg Reykvíkinga, hún væri höfuðborg landsmanna allra.

„Þegar við hófum þetta kjörtímabil settum við í meirihlutasáttmálann að við myndum standa við alla þá samninga sem gerðir hefðu verið um Reykjavíkurflugvöll. Þá vorum við að vonast eftir því að flugvöllurinn, eða flugvallarstæðið í Hvassahrauni, gæti verið fýsilegur kostur fyrir flugvöll, mikil tækifæri í því að byggja upp öflugan nýjan flugvöll fyrir innanlandsflug, æfinga- og kennsluflug, þyrluflug og alla þá starfsemi sem er hér í Vatnsmýrinni í dag,“ sagði Einar.

Engin lending um trjáfellingar

Síðan hefði þó margt breyst og staðan allt önnur nú en eldsumbrot hófust á Reykjanesskaga. „Við fengum þessa skýrslu um Hvassahraun ekki fyrir löngu [...] en það er ekki hægt að horfa fram hjá því að það er virkt eldgosatímabil á Reykjanesskaganum og ég er ekki alveg viss um að nýr fjármálaráðherra sé mjög spenntur fyrir því að taka þá áhættu að fjármagna slíkan flugvöll upp á von og óvon,“ sagði Einar enn fremur.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri kynnir skýrslu um rannsóknir á byggingu flugvallar …
Einar Þorsteinsson borgarstjóri kynnir skýrslu um rannsóknir á byggingu flugvallar í Hvassahrauni í október. mbl.is/Karítas

Sagði hann að honum þætti stundum sem staðan væri þannig að „af því að maður er í borginni þá er ekki hlustað. Manni gangi örugglega eitthvað annað til. En ég held að ég hafi núna á undanförnum dögum talað alveg skýrt. Við í Framsókn börðumst fyrir því í kosningabaráttunni að koma þeim skilaboðum fram að flugvöllurinn skipti okkur máli, að hann gæti þjónað sínu hlutverki og eftir að við komum í borgarstjórn og mynduðum þennan meirihluta höfum við unnið eftir því,“ sagði hann.

Ekki hefði hins vegar tekist að ná lendingu í því sem sneri að trjáfellingum og of langan tíma hefði tekið að leysa úr því. „Við fengum mælingar í september og tókum þá upp á borðið að fella þau tré sem næðu upp í hindrunarflötinn, OCS-flötinn, sem er þá þessi efri flötur sem verður að vera hindrunarlaus. [...] Ég sagði við mitt fólk „nú fellum við bara þessi tré og erum ekki að spyrja neinn um það“,“ sagði borgarstjóri enn fremur.

Hafi síðar komið í ljós að fella þyrfti fleiri tré og kvaðst Einar tilbúinn að stíga skrefin rétt, stjórnsýslan þyrfti að vera rétt, sækja þyrfti um framkvæmdaleyfi og tryggja fjármögnun sem borgin gæti tekið að sér að hluta á móti ríkinu.

„Það þarf bara að leysa málin,“ sagði Einar Þorsteinsson á fundi um málefni flugvallarins í Vatnsmýri í kvöld og benti á að sambýli flugvallar og borgarþróunar væri flókið, borgin væri á fleygiferð og margar skoðanir á því hvort hún ætti að þróast inn í Vatnsmýrina.

Áætlunarflug að láta undan

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlands, tók næst til máls og kvaðst fagna orðum borgarstjóra, það eina sem héldi vatni í gervöllu flugvallarmálinu væri Aðalskipulag Reykjavíkur. Um 700.000 farþegar færu nú um völlinn á ári og væri breytingar á ferðahegðun landsmanna eftir faraldur greinanlegar.

„Hér er hjartað, hér hefst allt og lýkur öllu,“ sagði Sigrún. Hæst hafi hreyfingar véla á flugvellinum farið í 140.000 um aldamótin, en væru rétt um 40.000 í ár. Miklar breytingar hefðu því orðið, áætlunarflug væri nú að láta undan en sjúkraflugferðir væru um 1.400 á ári. Kvað hún notendafund verða boðaðan í mars til að kynna þolmörk vallarins og hvað hann réði við.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlands, sagði að áætlunarflug væri …
Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlands, sagði að áætlunarflug væri nú að láta undan en sjúkraflugferðir væru um 1.400 á ári. Skjáskot/Beint streymi frá fundinum

Kári Kárason, flugstjóri og yfirflugstjóri Airbus hjá Icelandair, hélt framsögu á fundinum fyrir hönd Icelandair og ræddi ýmsa þætti er að flugfélaginu snúa. Icelandair hefði átt gott samtal við Isavia um áhættumat og breytingar á vellinum.

„Staðan er sú að flugkennsla á Íslandi er hornreka í kerfinu,“ sagði Kári er hann ræddi notkunarsvið vallarins, kennsluaðstaða ætti undir þyngra högg stjórnvalda að sækja og yrði námið dýrara með hverju árinu. Miðað við skattaspor Icelandair væri með ólíkindum að stjórnvöldum hefði tekist að hundsa menntun flugmanna framtíðarinnar.

Kári Kárason, flugstjóri og yfirflugstjóri Airbus hjá Icelandair, hélt framsögu …
Kári Kárason, flugstjóri og yfirflugstjóri Airbus hjá Icelandair, hélt framsögu á fundinum fyrir hönd Icelandair og ræddi meðal annars afleiðingar lokunar neyðarbrautarinnar. Skjáskot/Beint streymi frá fundinum

Ræddi Kári enn fremur fjölda flugbrauta og legu og bar Reykjavíkurflugvöll saman við flugvöllina á Akureyri og Egilsstöðum, en vindáttir væru almennt aðrar í Reykjavík, þess vegna hefði neyðarbrautin þar til dæmis verið eins og hún var.

Flugbrautarlokanir ykju líkur á slysum sagði Kári frá og vísaði í hollenska skýrslu sem þó fjallaði ekki um Ísland. Veldisvöxtur yrði í flugslysum í hliðarvindi við aðflug og lendingu. Vitnaði Kári í orð Hilmars Baldurssonar, formanns flugráðs, frá 2002: „Vegna veður- og vindafars dettur engum sem kemur nálægt flugi í hug að bjóða upp á flugvöll með einni flugbraut í þessum landshluta.“

Sagði Kári að lokun neyðarbrautarinnar hefði dregið úr afkastagetu vallarins, minnkað nýtingarstuðul hans og aukið hliðarvind á öðrum flugbrautum við ákveðin veðurskilyrði. „Við skulum hafa það í huga að aðgerðir og aðgerðaleysi geta haft stórvægileg áhrif á öryggi.“

Dauðans alvara

Tómas Dagur Helgason flugrekstrarstjóri Norlandair, sem er lítið félag með aðsetur á Akureyri og sinnir áætlunarflugi, leiguflugi og sjúkraflugi, tók þá til máls. Kvað hann félagið hafa 2.320 komur og brottfarir til og frá Reykjavík á ári, þar af 1.308 í sjúkraflugi og 1.012 í áætlunar- og leiguflugi.

„Það er dauðans alvara,“ sagði Tómas um sjúkraflug félagsins, „og ég ætla að vona að mér takist að koma því til skila hér hvað það er mikilvægt mál,“ hélt hann áfram og sagði félagið árlega fljúga 950 til 1.000 sjúkraflug, þar af 630 til 650 til Reykjavíkur. Í 45 prósentum tilvika væri um bráðaþjónustu að ræða þar sem tíminn skipti máli.

Tómas Dagur Helgason flugrekstrarstjóri Norlandair lagði áherslu á að Reykjavíkurflugvöllur …
Tómas Dagur Helgason flugrekstrarstjóri Norlandair lagði áherslu á að Reykjavíkurflugvöllur væri hluti af heilbrigðiskerfi landsins. Skjáskot/Beint streymi frá fundinum

„Reykjavíkurflugvöllur, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, skipar stóran sess í heilbrigðiskerfi þjóðarinnar,“ sagði Tómas og bætti því við að allir landsmenn ættu rétt á heilbrigðisþjónustu. Íbúar á suðvesturhorninu nýttu sér sjúkraflug líka, það hefði verið flutt á sjúkrahús í Reykjavík úr ferðum sínum út á land.

„Hér eru sérfræðingarnir, hér eru tækin og hér er það sem þarf til að sinna þessari bráðaþjónustu,“ sagði Tómas. Með öllum ráðum yrði að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar og jafnan aðgang allra að heilbrigðisþjónustu.

Slys hafi leitt til framþróunar

Síðasta framsöguerindið flutti Jón Hörður Jónsson, formaður öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna og flugmaður og flugstjóri hjá Icelandair til 35 ára.

„Það flugöryggi sem við búum við í dag er byggt á því sem á undan er gengið [...] Slys og atvik í fortíðinni hafa leitt til framþróunar í tækni flugvéla, breytta áherslna og nálgana í menntun og þjálfun flugmanna, breytinga og nýjunga í flugleiðsögu, flugumferðarstjórn og skilvirkara regluverks og eftirlits yfirvalda,“ sagði Jón Hörður.

Farþeginn treystir því að hann sé öruggur og hann vill …
Farþeginn treystir því að hann sé öruggur og hann vill finna til öryggis,“ sagði Jón Hörður Jónsson, formaður öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna og flugmaður og flugstjóri hjá Icelandair til 35 ára. Skjáskot/Beint streymi frá fundinum

Flugöryggi væri fyrsta forgangsatriði allra þeirra aðila er kæmu að framangreindu, meira að segja farþegar bæru að hluta ábyrgð á flugöryggi. „Allir sem koma að flugi bera ábyrgð og enginn gefur afslátt af flugöryggi.“

Engu að síður steðjuðu ógnir að flugi, en farþegar gerðu kröfu um eigið öryggi og á hverju byggðu þeir sína öryggistilfinningu? „Hún byggist á trausti. Farþeginn treystir því að hann sé öruggur og hann vill finna til öryggis,“ svaraði hann eigin spurningu.

Nýir valdhafar tilbúnir að öðlast traust

Í umræðu um Reykjavíkurflugvöll hefði orðið öryggi verið notað með nokkuð frjálslegum hætti. Jafnvel þannig að sumum þætti viðunandi af gefa afslátt af öryggi. Væri svo komið að farið væri að leggja hugtökin flugöryggi og rekstraröryggi að jöfnu.

Sagði Jón Hörður ákvörðun fyrrverandi innanríkisráðherra, um að heimila færslu girðingarinnar í Skerjafirði, ekki hafa verið tekna í anda flugöryggis. „Og þessi tregða Reykjavíkurborgar, alla vega síðustu tólf ár, við að bregðast við þeirri ógn, sem til dæmis trjágróður í Öskjuhlíð skapar, ber ekki mikinn vott um að þeir [í ranni Reykjavíkurborgar] séu traustsins verðir,“ sagði Jón Hörður.

Kvaðst hann hins vegar telja að nýir valdhafar væru tilbúnir að öðlast traust og sagði undir lok framsögu sinnar að miðað við málflutning borgarstjóra á fundinum sýndist honum hilla undir að loksins væri eitthvað að gerast í málum Reykjavíkurflugvallar.

mbl.is