„Fjöllin berja byggðarlögin á misjafnan hátt“

Veður | 7. febrúar 2025

„Fjöllin berja byggðarlögin á misjafnan hátt“

Umfangsmikið hreinsunarstarf er hafið í Stöðvarfirði þar sem vonskuveðrið olli miklu tjóni. Bæjarstjóri segir íbúa enn vera að ná utan um tjónið.

„Fjöllin berja byggðarlögin á misjafnan hátt“

Veður | 7. febrúar 2025

Umfangsmikið hreinsunarstarf er hafið í Stöðvarfirði.
Umfangsmikið hreinsunarstarf er hafið í Stöðvarfirði. Ljósmynd/Guðgeir Fannar Margeirsson

Umfangsmikið hreinsunarstarf er hafið í Stöðvarfirði þar sem vonskuveðrið olli miklu tjóni. Bæjarstjóri segir íbúa enn vera að ná utan um tjónið.

Umfangsmikið hreinsunarstarf er hafið í Stöðvarfirði þar sem vonskuveðrið olli miklu tjóni. Bæjarstjóri segir íbúa enn vera að ná utan um tjónið.

Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir að þegar veðrinu loksins slotaði í gær hafi myrkur verið farið að nálgast. Því fóru starfsmenn sveitarfélagsins snemma af stað í morgun til þess að hefja hreinsunarstarf í firðinum.

Erfitt að meta nákvæmlegt umfang

„Það þarf að hreinsa bæði gróður, fallin tré og annað slíkt og ýmiss konar brak sem hefur fokið.“

Hún segir að verið sé nú að meta umfang tjónsins sem veðrið olli.

„Menn eru svona að stíga fyrstu skrefin í að tilkynna tjón og slíkt til sinna tryggingarfélaga. Eins og staðan er núna er erfitt að áætla nákvæmlega umfang þess, þ.e. á meðan við erum bara rétt að ná utan um þetta.“

Nefnir bæjarstjórinn að um mikið tjón sé að ræða. Rúður hafi brotnað í mörgum húsum og þakplötur farið af víða. Einnig rigndi gífurlega í gær sem olli því að vatn lak víða inn í hús.

Verið er að meta umfang tjónsins sem veðrið olli.
Verið er að meta umfang tjónsins sem veðrið olli. Ljósmynd/Guðgeir Fannar Margeirsson

Þak fauk af fjárhúsi

 Þá varð einnig töluvert tjón í öðrum fjörðum á Austurlandi. Segir Jóna að t.a.m. hafi bóndabær á Vattarnesi við Reyðarfjörð lent illa í óveðrinu. Þar hafi fokið fjárhúsþak og nokkrar vélar. Einnig varð Breiðdalur fyrir barðinu á óveðrinu og er þar verið að meta stöðuna.

„Fjöllin berja byggðarlögin á misjafnan hátt í þessum vindáttum,“ segir Jóna.

„Þessir staðir virðast hafa legið verr við þessari vindátt heldur en aðrir staðir.“

Hún tekur þó fram að heilt yfir byggðarkjarnanna hafi gengið vel að tryggja að það færi ekki enn verra.

Þakplötur fóru af víða.
Þakplötur fóru af víða. Ljósmynd/Guðgeir Fannar Margeirsson

Staðan tekin aftur í lok dags

Eins og fyrr segir var hópur sendur út snemma í morgun til að hefja hreinsunarstarf en segir bæjarstjórinn að farið sé nú að snjóa sem muni eflaust hafa einhver áhrif á hraða hreinsunarinnar.

„Það er ekki mikil stund gefin í þetta af hálfu veðurguðanna.“

Áttu von á því að þetta muni taka langan tíma?

„Við eigum bara aðeins eftir að sjá hversu langt við komumst í dag fyrir myrkur. Svo verður staðan tekin aftur þá.“

Mikil rigning varð í gær og lak víða inn í …
Mikil rigning varð í gær og lak víða inn í hús. Ljósmynd/Guðgeir Fannar Margeirsson
Ljósmynd/Guðgeir Fannar Margeirsson
mbl.is