Flokkarnir þurfa ekki að endurgreiða styrki

Alþingi | 7. febrúar 2025

Flokkarnir þurfa ekki að endurgreiða styrki

Stjórnmálaflokkar þurfa ekki að endurgreiða styrki sem þeir hafa fengið frá árinu 2022 þegar tekið var upp nýtt verklag við framlög úr ríkissjóði til þeirra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjármálaráðuneytinu. 

Flokkarnir þurfa ekki að endurgreiða styrki

Alþingi | 7. febrúar 2025

Flokkur fólksins á enn eftir að ganga frá skráningu sinni.
Flokkur fólksins á enn eftir að ganga frá skráningu sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnmálaflokkar þurfa ekki að endurgreiða styrki sem þeir hafa fengið frá árinu 2022 þegar tekið var upp nýtt verklag við framlög úr ríkissjóði til þeirra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjármálaráðuneytinu. 

Stjórnmálaflokkar þurfa ekki að endurgreiða styrki sem þeir hafa fengið frá árinu 2022 þegar tekið var upp nýtt verklag við framlög úr ríkissjóði til þeirra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjármálaráðuneytinu. 

Eins og fram hefur komið er Flokkur fólksins ekki skráður í sérstaka stjórnmálasamtakaskrá og fær ekki styrk úr ríkissjóði á þessu ári. Hann fékk hins vegar styrk árin 2022-2024.

Píratar, Sjálfstæðisflokkur og Sósíalistaflokkurinn voru ekki skráðir með réttum hætti þegar fyrsta úthlutun var þann 31. janúar árið 2022 en því hefur síðan verið kippt í liðinn.  

Hér má sjá hvenær flokkarnir gengu frá sinni skráningu. 

- Samfylkingin 13. janúar 2022
- Framsóknarflokkurinn 19. janúar 2022
- Miðflokkurinn 24. janúar 2022
- Viðreisn 25. janúar 2022
- Píratar 16. mars 2022
- Sjálfstæðisflokkurinn 8. apríl 2022
- Sósíalistaflokkur Íslands 21. nóvember 2023
- Vinstrihreyfing – grænt framboð 25. september 2024

Við skoðun fjármálaráðuneytisins var m.a. leitað utanaðkomandi lögfræðiráðgjafar og liggja niðurstöður fyrir um meginþætti málsins. Leitað var til ríkislögmanns og Flóka Ásgeirssonar lögmanns. Er í tilkynningunni viðurkennt að annmarkar hafi verið á framkvæmd úthlutana. 

Undartekningin á reglunni eigi við um flokkana

„Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að aðilar sem fá fyrir mistök greidda fjármuni án þess að eiga rétt til þeirra skuli endurgreiða þá. Frá þessari reglu eru þó undantekningar eftir því hverjar aðstæður og atvik eru,“ segir í tilkynningu. 

Þrjár ástæður gefnar 

Eru ástæðurnar sem gefnar eru fyrir því að ekki verði krafist endurgreiðslu þríþættar.

1. Framlögin séu liður í að tryggja starfsskilyrði og sjálfstæði stjórmálasamtaka og efla lýðræði. Krafa um endurgreiðslu myndi kippa fjárhagslegum grundvelli undan starfseminni, þvert á markmið laganna. 

2. „Um var að ræða misbrest í verklagi við úthlutun framlaga og bæði stjórnvöld og viðkomandi stjórnmálasamtök stóðu í þeirri trú að lagalegur réttur stæði til fjárframlaganna. Ef ekki hefði verið fyrir þennan misbrest hefði ráðuneytið haft tilefni til að leiðbeina stjórnmálasamtökum um skráningu, áður en fé var fyrst úthlutað úr ríkissjóði eftir lögfestingu skilyrðisins.“

3. Loks mælir það gegn endurkröfurétti að lögin hafi verið framkvæmd á þessa vegu um nokkurt skeið og viðtakendur greiðslnanna hagað starfsemi sinni til samræmis við þá trú að framlögin væru lögmæt og endanleg.

mbl.is