Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Donald Trump hefur tekist að flækja svolítið hjá mér tilveruna. Karlinn er á svo mikilli ferð að það er næstum ómögulegt að halda í við hann.
Það fer yfirleitt mikill undirbúningur í þessa vikulegu pistla mína í ViðskiptaMogganum og eftir að ég hef valið mér efni til að fjalla um dunda ég mér stundum við það í nokkra daga að lesa greinar, hlusta á viðtöl og fyrirlestra og jafnvel klára heilu bækurnar svo ég geti skrifað af einhverju viti.
Um helgina tilkynnti Trump að hann hygðist snarhækka tolla á vörur frá Mexíkó og Kanada og hafði ég hugsað mér að skrifa lærða grein – í þessari viku eða þeirri næstu – um hve miklu tjóni tollar valda bæði kaupendum og seljendum, og hve ofboðslega dýrt það er þegar tollar eru notaðir til að vernda ósamkeppnishæfar greinar eða búa til ný störf.
En svo duttu ný tíðindi inn í byrjun vikunnar og allt breyttist: fyrst bárust fréttir af að Trump hefði sæst við Claudiu Sheinbaum Mexíkóforseta og svo var tilkynnt um samkomulag við Justin Trudaeau og verður beðið með að leggja nýju tollana á. Trump hafði tekist að hleypa öllu í loft upp og þannig komið hjólunum af stað í hvelli, og eftir snarpa lotu við samningaborðið höfðu allir fengið eitthvað fyrir sinn snúð.
Sheinbaum sendir hermenn að landamærunum til að stöðva flæði ólöglegra innflytjenda og fentanýls inn til Bandaríkjanna, en í staðinn ætla bandarísk stjórnvöld að leggja sitt af mörkum til að stöðva flutninga á ólöglegum vopnum til Mexíkó. Samkomulagið við Trudeau er á svipuðum nótum; hert verður á eftirliti við landamærin og allir nokkurn veginn sáttir.
Það er með ólíkindum að aðeins séu liðnar tvær vikur síðan Trump tók við völdum. Svo mikil athafnagleði hefur einkennt Trump og liðsmenn hans að andstæðingar ríkisstjórnarinnar vita ekki sitt rjúkandi ráð og geta ekki haldið uppi neinum vörnum. Hvern einasta dag berast fréttir af stöðugum flaumi róttækra tilskipana, niðurskurðaraðgerða og pólitískra hrókeringa sem í venjulegu árferði myndu duga til að fylla blöðin og fréttatímana í heila viku.
Allt er þetta af ásetningi gert og mætti Trump mun betur undirbúinn til leiks nú en síðast. Trumps-teymið er löngu búið að kortleggja hvað þarf að gera og hvernig, og með því að demba öllu út í einu er ekkert sem andstæðingarnir geta gert. Jafnvel ef demókrötum og vinstrisinnuðum fjölmiðlum vestanhafs tækist að afmarka eitt tiltekið mál til að berjast gegn, þá væru tíu ný mál komin í fréttirnar fyrir kvöldmat og athygli almennings farin eitthvað annað. Það eina sem bandarískir vinstrimenn virðast núna geta gert er að fara á samfélagsmiðlana og garga út í tómið.
Ríkisstjórn Trumps hefur líka takmarkaðan tíma til að koma hlutunum í verk. Það er algjör heppni að núna eru einmitt réttu aðstæðurnar til að stokka allt upp, því repúblikanar eru með meirihluta í báðum deildum þingsins, Trump er með sterk tök á samflokksmönnum sínum, og af níu hæstaréttardómurum eru sex sem voru skipaðir af repúblikönum.
Stutt er í næstu þingkosningar og þegar Bandaríkjamenn fara í kjörklefana í nóvember 2026 er hætta á að þeir hleypi demókrötum að ef þeim finnst Trump ekki hafa skilað sínu. Ef árangurinn af róttækum aðgerðum Trumps verður hins vegar kominn skýrt í ljós ættu repúblikanar að bæta við sig og fengi Trump þá góðan vinnufrið út kjörtímabilið.
Mikil læti hafa verið í kringum bandarísku þróunarsamvinnustofnunina, USAID, en þau hafa næstum fallið í skuggann af karpinu við Mexíkó og Kanada – að ógleymdu Kína sem var líka partur af nýja tollapakka Trumps.
Trump hefur gefið Elon Musk frjálsar hendur við að taka til í ríkisrekstrinum og voru Musk og hans fólk ekki lengi að koma auga á að margt væri bogið við starfshætti og útgjöld USAID. Atburðarásin hefur verið eins og í reyfara og var m.a. reynt að meina fulltrúum hagræðingarteymisins – sem starfa í umboði sjálfs forsetans – að koma inn á skrifstofur USAID og þeim aftrað frá því að skoða pappíra stofnunarinnar.
Fékkst það fljótlega staðfest að USAID þyrfti á meiriháttar skurðaðgerð að halda og sagði Musk ástandið svo slæmt að það væri ekki hægt að bjarga stofnuninni. Líkti hann USAID við ormétið epli: „Ef það er einn ormur í eplinu þá er hægt að pilla hann í burtu og borða eplið, en hér erum við bara með handfylli af ormum.“
Musk hefur lagt það til við Trump að leggja stofnunina niður eins og hún leggur sig og virðist forsetinn ætla að hlýða þeim ráðum. Hefur starfsemi USAID verið lýst þannig að róttækir vinstrimenn hafi náð að leggja stofnunina undir sig og útbýti þaðan mörgum milljörðum dala til stórfurðulegra verkefna sem jafnvel skaði hagsmuni Bandaríkjanna. „Stofnuninni hefur verið stýrt af hópi róttækra brjálæðinga og við ætlum að sópa þeim út. Við sjáum svo hvað setur,“ sagði Trump nýlega á fundi með blaðamönnum.
Eftir þá meðferð sem USAID hefur þurft að sæta má reikna með að ákveðinn hópur opinberra starfsmanna í Bandaríkjunum sé farinn að hugsa sér til hreyfings. Árið er rétt að byrja og ljóst að það stendur til að uppræta iðjuleysingjana og vitleysingana. Trump sendi þessu fólki freistandi tilboð á dögunum og hafa ríkisstarfsmenn frest til 6. febrúar að segja starfi sínu lausu og vera þá leystir út með fullum launum í átta mánuði. Tilboðið nær ekki til hermanna, póstburðarfólks og starfsmanna í ákveðnum lykilhlutverkum, en vonast er til að þessi rausnarlegu starfslokakjör dugi til að minnka starfsmannafjöldann um 10% sem er algengt viðmið þegar einkafyrirtæki þarf að skera niður. Jafngildir það 200.000 stöðugildum og ætti að leiða til 100 milljarða dala sparnaðar fyrir ríkissjóð.
Vítt og breitt um stjórnsýsluna er örugglega að finna fólk sem hefur engan áhuga á að vinna fyrir Trump, og þorir kannski núna að taka stökkið fyrst átta mánaða laun eru í boði. Bæði mun ríkissjóður spara, en svo mun þetta fólk líka finna sér ný verkefni í einkageiranum og skapa þar alvöru verðmæti svo að ávinningurinn fyrir hagkerfið ætti að vera tvöfaldur. Að ekki sé talað um hvað starfsandinn hlýtur að batna hjá vinnustöðum hins opinbera þegar mestu vandræðagemsarnir eru horfnir á braut.
Sitt sýnist hverjum um áherslur og aðferðir Trumps. Gagnrýnendur hafa réttilega sakað hann um fantaskap og það er ekki tilviljun að í sögu Vesturlanda þarf að leita mjög langt aftur til að finna dæmi um leiðtoga sem reyndu að fá sínu framgengt með því að hegða sér eins og tuddar. Trump verður að gæta sín á að fórna ekki verðmætari langtímahagsmunum fyrir skammtímasigra, og ef hann fer of glannalega gæti hann endað á að veikja Bandaríkin bæði inn á við og út á við.
Trump þarf líka að gæta sín á að sýna ekki á spilin. Mörgum þótti það ljóst strax í byrjun að atlagan að Mexíkó og Kanada væri bara samningabrella, og er þess kannski ekki langt að bíða að einhver þjóðarleiðtoginn neiti að lúffa fyrir þvingunum og hótunum Trumps – og hvernig breytist vindáttin þá?
Fyrstu tvær vikur Trumps í Hvíta húsinu hafa samt gengið vonum framar og hann er að gera einmitt það sem hann lofaði. Búið er að taka landamæra- og innflytjendamálin föstum tökum; mun skynsamlegri tónn er kominn í loftslags-, umhverfis- og orkumálin; dyggðaskreytinga- og réttsýnispólitík vinstrimanna hefur verið stungið ofan í skúffu; og markvisst unnið að því að uppræta sóun og minnka reglufarganið svo að rétta megi ríkissjóð af og gefa atvinnulífinu svigrúm til að vaxa og dafna.
Gagnrýnendur Trumps hljóta að vera farnir að ókyrrast því bráðum gætu jákvæðu áhrifin af öllum hamaganginum farið að koma í ljós. Það sem Trump er að gera – það nefnilega virkar.
Greinin birtist upphaflega í ViðskiptaMogganum sl. miðvikudag.