Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Það er í nógu að snúast hjá henni alla daga og oft vill minna verða úr hádegismatnum en til stóð.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Það er í nógu að snúast hjá henni alla daga og oft vill minna verða úr hádegismatnum en til stóð.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Það er í nógu að snúast hjá henni alla daga og oft vill minna verða úr hádegismatnum en til stóð.
„Ég reyni að gæta þess að eiga skyr, kotasælu, epli, bláber og þess konar snarl í ísskápnum í vinnunni. Það er gott að geta gripið til þess. En svo finnst mér gott að ná að setjast niður í rólegheitum yfir heimaelduðum kvöldmat, spjalla og slaka á,“ segir Hanna Katrín.
Hanna Katrín og eiginkona hennar, Ragnhildur Sverrisdóttir, eru núna einar á heimilinu stærstan hluta ársins enda eru dætur þeirra, Elísabet og Margrét, báðar erlendis í námi.
„Við erum því ekki eins stífar á því að elda kvöldmat og áður. Ef við höfum báðar fengið góðan hádegismat og erum seinar fyrir þá verður kvöldmaturinn þann daginn gjarnan skyrdós eða ristað brauð.“
Hanna Katrín segist hafa sett saman dæmigerðan matseðil með nokkrum uppáhaldsréttum. „Það vill oft verða svo að maður grípur til sömu réttanna aftur og aftur. En svo bý ég svo vel að Ragnhildur mín er snilldarkokkur.“
Hanna Katrín segist eiga vinninginn þegar kemur að bakstri þó að hún geri minna af því að baka núna en áður fyrr. „Ég held þó enn í stöku uppskriftir og hendi fram einhverju góðu þegar mikið liggur við. Hversdags er ég þó líklegri til að baka hrökkbrauð eða ólífubrauð.“
Mánudagur – Píta með lambakjöti
„Á mánudögum er gjarnan píta í matinn. Þá nýtum við afganga af lambakjöti sunnudagsins, bætum við salati, tómötum, gúrku, rauðlauk, stundum papriku eða bara hvaða grænmeti sem er til. Rifinn ostur er svo auðvitað nauðsyn. Oftast skellum við tilbúinni pítusósu út á en ef við höfum nægan tíma á mánudegi þá er heimatilbúin fetasósa dásamleg.“
Þriðjudagur – Grilluð bleikja
„Þriðjudagur er fiskidagur. Þegar stelpurnar okkar voru litlar voru þær hrifnastar af „bleikum Barbie-fiski“ og þá var einfalt að stökkva í fiskbúð á leið heim úr vinnu og kippa með bleikjuflökum. Bleikjan er enn í uppáhaldi, þótt hún sé ekki lengur kennd við Barbie. Bleikjan fer undir grillið í ofninum í stutta stund og svo er gott að hafa einfalt salat með.“
Miðvikudagur – Núðlur og grænmeti
„Ég er sérstaklega höll undir rétti sem hægt er að elda nánast í einni pönnu eða potti, að minnsta kosti virka daga. Þess vegna verður núðluréttur með grænmeti oft fyrir valinu – stundum steikt hrísgrjón í staðinn fyrir núðlurnar. Reyndar þarf bæði pönnu fyrir grænmetið og pott fyrir núðlurnar fyrir þennan rétt. Ég fylgi uppskriftinni ekki alveg, mín nálgun gerir bara ráð fyrir grænmeti og aftur grænmeti. Lauk, papriku, brokkolí, blómkáli, strengjabaunum, nóg af hvítlauk og chilli og svo lúku af cashew-hnetum. Ég nota oftast Teriyaki-sósu en stundum sesam-engifersósu.“
Fimmtudagur – Fiskibollur
„Það gerist ekki einfaldara! Fiskibollur, kartöflusmælki, salat úr rifnu epli og rifinni gulrót og svo gott remúlaði með. Ég játa fúslega að ég læt Fylgifiska oftast um að búa bæði til fiskibollurnar og remúlaðið, enda erfitt að gera betur. En það er um að gera að spreyta sig á að gera þetta frá grunni, þegar tími gefst til.“
Föstudagur - Kartöflupítsa
„Á föstudögum er satt best að segja algengast að við kaupum einhvern skyndibita, gjarnan sushi. Oft eru það samt heimatilbúnar pítsur, ekki síst þegar við erum í bústaðnum. Einföld margaríta með tómötum, mozzarella og ferskri basilíku er alltaf góð, en uppáhaldið okkar er kartöflupítsa. Við notum ostaskera til að sneiða stórar kartöflur í næfurþunnar sneiðar og látum þær liggja í hvítlauksolíu áður en þær fara á pítsuna, með rauðlauk, timian og rifnum osti. Ótrúlega gott – og ekki er verra að fá eitt rauðvínsglas með eftir langa vinnuviku.“
Laugardagur – Bragðmikill saltfiskur
„Það er aftur komið að fiskinum. Saltfiskur er í uppáhaldi og sérstaklega réttur sem við eldum oft, saltfiskhnakkar með svörtum ólífum, hvítlauk, rauðum chilli og steinselju. Fiskurinn er borinn fram með kartöflum og þær eru kryddaðar með hvítum pipar og góðum slatta af rifnum sítrónuberki.
Sunnudagur – Gamli, góði lambahryggurinn
„Það er fátt betra en lambakjöt á sunnudegi. Ég vil hafa lambakjötið mitt meyrt og vel eldað, eins og ég ólst upp við. Hryggur er í mestu uppáhaldi. En þótt ég vilji hrygginn vel eldaðan og með stökkri skorpu þá læt ég gamla meðlætið eiga sig. Ég vil helst af öllu sykurbrúnaðar kartöflur og svo einfalt Waldorf-salat með eplum, vínberjum og valhnetum, í léttri sósu úr sýrðum rjóma og dálitlu majónesi. Svo er algjört lykilatriði að eiga afgang fyrir mánudagspítuna.“