Ef ekki þyrfti að hafa áhyggjur af samkeppnissjónarmiðum væri líklega einn banki í stað þriggja hagkvæmasta fyrirkomulagið. Hins vegar þarf alltaf að horfa til samkeppni og ljóst er að ákveðnir markaðir tengdir bönkunum yrðu fyrir neikvæðum áhrifum verði af sameiningu Arion banka og Íslandsbanka.
Ef ekki þyrfti að hafa áhyggjur af samkeppnissjónarmiðum væri líklega einn banki í stað þriggja hagkvæmasta fyrirkomulagið. Hins vegar þarf alltaf að horfa til samkeppni og ljóst er að ákveðnir markaðir tengdir bönkunum yrðu fyrir neikvæðum áhrifum verði af sameiningu Arion banka og Íslandsbanka.
Ef ekki þyrfti að hafa áhyggjur af samkeppnissjónarmiðum væri líklega einn banki í stað þriggja hagkvæmasta fyrirkomulagið. Hins vegar þarf alltaf að horfa til samkeppni og ljóst er að ákveðnir markaðir tengdir bönkunum yrðu fyrir neikvæðum áhrifum verði af sameiningu Arion banka og Íslandsbanka.
Þá er rétt að kostnaðurinn við þrjá stóra banka í litlu kerfi er mikill, en það er hluti af því að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil.
Þetta segir Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, en hann ræddi við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í gær.
Í tilkynningu ráðuneytisins frá því á föstudag kom fram að stefnt væri að sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka „á næstu misserum.“ Spurður nánar út í þennan tímaramma segir Daði það blasa við að fyrst þurfi að koma niðurstöður úr samrunatilboði Arion banka. Það sé nú til meðferðar hjá stjórn bankans og stjórnvöld muni í kjölfarið taka afstöðu til.
„Það breytir því ekki að markmið okkar er að ljúka þessari sölu nú snemma árs sem þýðir að við munum halda áfram undirbúningi okkar að söluferlinu þrátt fyrir þetta, í ljósi þess að við vitum ekki hver niðurstaðan úr því verður,“ segir Daði.
Spurður nánar um hvað snemma árs merki segir hann: „Eigum við ekki að segja á fyrsta helmingi ársins.“ Bendir Daði á að nú sé frumvarpið í umsögn, fari því næst í yfirlestur fyrir ríkisstjórn, svo fyrir þingflokka, í gegnum þrjár umræður á þinginu o.s.frv. „Allt tekur þetta tíma þannig að ég held að það sé óraunhæft að reikna með öðru en að við séum að tala um á fyrri helmingi ársins.“
Varðandi samruna við Arion banka hefur Daði áður sagt að skoða þurfi málið í heildarsamhengi fyrir landsmenn. En telur hann slíkan samruna óheppilegan fyrir neytendur?
„Bankar eru það sem stundum er kallað náttúruleg einokunarfyrirtæki, þ.e.a.s. rekstarkostnaður þeirra fellur eftir því sem kúnnarnir verða fleiri og það eru eiginlega engin efri mörk fyrir það. Það þýðir að ef við ætluðum að tryggja ódýrustu mögulegu bankaþjónustu og við hefðum enga áhyggjur af samkeppni, þá væri sennilega einn banki nóg,“ segir Daði.
Slíkt fyrirkomulag er að hans sögn þó ekki endilega ákjósanlegt. Það hafi sýnt sig að ef rekstur fái að vera með þeim hætti sé hætta á að menn misnoti slíka aðstöðu og þess vegna vilji menn sjá samkeppni. Jafnvægi þurfi að vera á milli kostnaðarsjónarmiða, þar sem stærri rekstur sé hagkvæmari rekstur, og samkeppnissjónarmiða, sem tryggi að rekstrarábati skili sér til neytenda.
Daði bendir jafnframt á að ýmsir markaðir sem eru tengdir bönkunum og teljist mikilvægir yrðu sennilega fyrir neikvæðum áhrifum ef bönkunum myndi fækka um einn. Nefnir hann sem dæmi gjaldeyrismarkaðinn sem hann segir að yrði allt annar markaður ef það væru bara tveir bankar við borðið í stað þriggja. Því sé mikilvægt að meta hagsmuni þjóðarinnar í heild sinni í þegar komi að mögulegri sameiningu.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, skrifaði aðsenda grein á Vísi um helgina þar sem hann fór meðal annars yfir mikinn kostnað við þrjá stóra banka í litlu hagkerfi eins og á Íslandi. Spurður út í þessi orð Benedikts og hvort hann teldi íslenska markaðinn of lítinn fyrir þrjá banka segist Daði í raun ekki ósammála því. Slíkt sé þó fórnarkostnaður fyrir sjálfstæðan gjaldmiðil.
„Nei, ég er það í sjálfu sér ekki. En þú skilur að rökin um að samkeppni sé nauðsynlegt til að tryggja að neytendur beri ekki skarðan hlut frá borði. Auðvitað er það rétt hjá honum að það að vera með þrjá stóra banka í litlu hagkerfi er kostnaður. Þetta er partur af kostnaðinum við gjaldmiðilinn okkar, sjálfstæðið.“
Nokkuð hefur verið rætt um áætlaðan 5 milljarða ábata af samruna bankanna, líkt og Arion banki setti fram í tilkynningu sinni um sameininguna. Daði tekur fram að ekki sé ljóst hvort þessi ábati eigi að koma til vegna stækkunaráhrifa líkt og hann vísaði til fyrr í samtalinu, eða með viðbótar hagræðingu. Hann telur 5 milljarða ábatann þó ekki háa upphæð í stóra samhenginu. „Ég verð að viðurkenna að mér finnst í samhengi við umfang bankastarfsemi, veltu þeirra og hagnað, þá eru 5 milljarðar ekki stórir peningar.“