Furðar sig á Jóni Pétri

Skólakerfið í vanda | 21. febrúar 2025

Furðar sig á Jóni Pétri

„Ég hef sjálf upplifað að þetta vanti, þekki það eftir að hafa verið að vinna í skólum, ég hef verið kennari og skólasálfræðingur,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is um samræmda námsmatið í grunnskólum og fyrstu umræðu um frumvarp menntamálaráðherra til breytinga á lögum um grunnskóla á þriðjudaginn.

Furðar sig á Jóni Pétri

Skólakerfið í vanda | 21. febrúar 2025

„Þú getur ekki lagt eitthvert séríslenskt vitsmunaþroskapróf fyrir barn af …
„Þú getur ekki lagt eitthvert séríslenskt vitsmunaþroskapróf fyrir barn af erlendum uppruna sem er búið að vera hérna kannski í eitt ár,“ segir Kolbrún Baldursdóttir sem sjálf var skólasálfræðingur um árabil. mbl.is/Karítas

„Ég hef sjálf upplifað að þetta vanti, þekki það eftir að hafa verið að vinna í skólum, ég hef verið kennari og skólasálfræðingur,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is um samræmda námsmatið í grunnskólum og fyrstu umræðu um frumvarp menntamálaráðherra til breytinga á lögum um grunnskóla á þriðjudaginn.

„Ég hef sjálf upplifað að þetta vanti, þekki það eftir að hafa verið að vinna í skólum, ég hef verið kennari og skólasálfræðingur,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is um samræmda námsmatið í grunnskólum og fyrstu umræðu um frumvarp menntamálaráðherra til breytinga á lögum um grunnskóla á þriðjudaginn.

Sagði Kolbrún þá í ræðu sinni að tilefni lagasetningarinnar væri brýnt enda námsmat órjúfanlegur hluti af námi og kennslu, væri mat á hæfni og framförum nemenda reglubundinn þáttur í skólastarfi.

„Ég vil bara fara að byrja og láta reyna á þetta og laga þetta svo eftir því sem við þurfum þegar gallarnir sjást,“ segir þingmaðurinn og minnir í framhaldinu á að upphaf málsins hafi verið í höndum síðustu ríkisstjórnar, en þáverandi menntamálaráðherra aldrei komist svo langt að mæla fyrir frumvarpinu.

Alvarlegir hnökrar árið 2021

„Grunnurinn liggur hjá síðustu ríkisstjórn og þess vegna var ég svolítið hissa yfir hve neikvæður málflutningur Jóns Péturs Zimsen [þingmanns Sjálfstæðisflokksins] var,“ heldur Kolbrún áfram og vísar til viðtals Jóns Péturs við mbl.is í gær.

„Síðasta ríkisstjórn var með þetta mál lengi í vinnslu og náði ekki að klára það,“ segir hún.

Í ræðu sinni benti Kolbrún enn fremur á að í skýrslunni Framtíðarstefna um samræmt námsmat frá 2020 hefði starfshópur, sem annaðist skýrslugerðina, lagt til að prófin, í þeirri mynd sem þau höfðu verið lögð fyrir grunnskólanemendur, yrðu ekki þróuð frekar og notkun þeirra hætt.

„Árið 2021 urðu alvarlegir hnökrar á fyrirlagningu samræmdra könnunarprófa og kom þá fram að stafrænt prófakerfi, sem hafði verið notað við fyrirlögnina, væri svo úrelt og óhentugt að það yrði ekki notað framar,“ sagði Kolbrún í ræðu sinni á þriðjudaginn.

„Þessi nýi Matsferill hefur þennan sveigjanleika, tekur tillit til námsörðugleika …
„Þessi nýi Matsferill hefur þennan sveigjanleika, tekur tillit til námsörðugleika og annars sem taka þarf tillit til,“ segir Kolbrún um nýtt fyrirkomulag samkvæmt breytingafrumvarpi menntamálaráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Hefði ráðherra þá lagt til við Alþingi að afnema tímabundið skyldu til að leggja fyrir samræmd könnunarpróf til og með 31. desember 2024 og lög þess efnis verið samþykkt sumarið 2022.

Sagði Kolbrún þessa ráðstöfun hafa verið umdeilda og eftir að PISA-kannanir hefðu ítrekað sýnt að námsárangri íslenskra barna hrakaði hefði orðið ljóst að eitthvað gengi ekki upp í menntun íslenskra grunnskólabarna, eins og verið hefur ítarlega til umfjöllunar á mbl.is frá því í sumar.

Líður að nýrri PISA-könnun

Þú minntist á í ræðunni að þráttað hefði verið fram og til baka um hvort taka ætti upp samræmd próf á ný í þeirri mynd sem þau voru eða fara aðra leið. Hvaða leið finnst þér persónulega að ætti að fara þar?

„Ég er að koma úr borgarstjórn þar sem ég var í sjö ár og þar var þetta margrætt, til dæmis PISA-niðurstöðurnar oft ræddar í tengslum við frístundaráð og -svið, við vissum alveg hvað þar kom út, við stóðum okkur ekki nógu vel í ákveðnum atriðum, ekki öllum, drengir voru til dæmis að koma verr út í sumu, eins og lestri og lestrarskilningi“ svarar Kolbrún.

Hún segir að nú líði að nýrri PISA-könnun og auðvitað sé æskilegt að þar sjáist betri tölur. Sérfræðingar innan skólakerfisins sem mbl.is hefur rætt við telja aftur á móti að niðurstöður hennar verði enn verri fyrir Ísland. 

„En börn eru misjöfn og það þarf að meta hvort skólinn og námsefnið mæti þörfum þessara barna, þarna er margt sem þarf að taka tilliti til eftir styrkleikum og veikleikum hvers og eins og þessi nýi Matsferill hefur þennan sveigjanleika, tekur tillit til námsörðugleika og annars sem taka þarf tillit til. Þarna verður hægt að meta barnið á breiðari grunni en bara einhvern einn dag sem þú átt að mæta í samræmt próf og ert kannski með mikinn kvíðahnút,“ útskýrir þingmaðurinn og sálfræðingurinn.

Innleiðingu þessa Matsferils var flýtt í lok sumars eftir umfjöllun mbl.is.

Erum orðin fjölmenningarsamfélag

„Mér finnst umræðan á þinginu bara mjög jákvæð fyrir utan að ég furðaði mig á þingmanninum, Jóni Pétri Zimsen, það var eins og hann væri að leita að einhverju til að rífa niður og það kom mér á óvart,“ heldur Kolbrún áfram, „það var eins og það gleymdist að þetta er grunnur frá síðustu ríkisstjórn.“

Þetta er stórt og mikið mál sem snýr að menntun yngstu námsmanna þjóðarinnar, ert þú sjálf bjartsýn á það sem koma skal?

„Sumt af þessu kerfi er bara barn síns tíma, núna erum við með breytt samfélag, börn sem koma frá öðrum menningarheimi og þú getur ekki lagt eitthvert séríslenskt vitsmunaþroskapróf fyrir barn af erlendum uppruna sem er búið að vera hérna kannski í eitt ár. Við þurfum að taka tillit til þess að við erum orðin fjölmenningarsamfélag. Við stjórnvöld þurfum að halda okkur við efnið og þróa tækin jafnharðan.“

mbl.is